Græn og rauð blikkandi ljós, líkamspartar að skella á líkamspörtum, hárið gegndrepa af svita og óstjórnleg gleði. FM Belfast á sviðinu. Þegar allt er búið hefur inngöngustimpillinn máðst af í hamaganginum og vasarnir eru blautir. Þetta var stuð.
Mesta stuðið sem ég hef upplifað í þessu rými að minnsta kosti. Þetta var á Húrra sem hét Harlem sem hét eitthvað sem mér finnst ég vera að gleyma sem hét Bakkus sem hét … og það er núna kominn mánudagur og mér finnst ég finni enn fyrir þessu stuði, og þá ekki bara í harðsperrusafni og hálshríg. Ég hélt í smá stund að þegar „Lotus“ (Killing in the Name, eða eins og sumir þekkja það kannski: Fuck you I won’t do what you tell me) spratt upp af „Holiday“ (eða var það eitthvað annað lag, ég er svo gleyminn) að það myndi fæðast eins konar elektrópoppkrúsídúllubylting og að lýðveldið myndi líða undir lok, en svo fóru allir bara á barinn og dönsuðu meira.
Mér tókst jafnvel að komast í einhvers konar ástand. Svona vestrænt búddískt algleymi þar sem allur snefill af íronískri fjarlægð hverfur fyrir beinni upplifun af kátínu.
Með öðrum orðum: Vá!
Tónleikarnir voru haldnir laugardaginn síðastliðinn, 20. september á því herrans ári 2014. Á Facebooksíðu Húrra má sjá lítinn myndbandsbút frá hinum mikla fögnuði en hér að neðan stúdíóútgáfuna af Lotus.