Anarkismi, menningararfur, torfhús

Í þessum pistli mun ég ræða um mikilvægi þess að innleiða hugmyndir um anarkisma í umræðu um menningararf. Hugað verður að því hversu nauðsynlegt það er að spyrða hugmyndir um anarkisma saman við orðræðu um menningararf m.a. til að skilja betur hugtakið um menningararf og möguleika þess. Ég mun ræða þetta með sérstakri tilvísan í torfhús sem hafa verið kölluð íslenskur menningararfur og einnig í samhengi við alþjóðlega lista- og fræðiverkefnið OH – verkefnið, sem er þverfaglegt rannsóknarverkefni á Miðnesheiði þar sem Bandaríski herinn hafði aðsetur sitt í 45 ár.

Í bók sinni Uses of heritage heldur Laurajane Smith því fram að það sé ekkert til sem heitir menningararfur. Menningararfur er í hennar huga ráðandi orðræða sem leitast við að stýra því hvernig við hugsum, tölum og skrifum um menningu.

Menningararfur er því menningarleg iðkun, sem býr til og stýrir gildum og skilningi á hugtakinu menningararfur. Sá skilningur er oftar en ekki eðlis- eða náttúrugerður, þar sem umræðan snýst um hefðbundin svið menningarinnar og miðar að því að varðveita fyrir komandi kynslóðir skilgreind verðmæti. Ráðandi orðræða, að mati Smith, staðfestir ákveðna iðkun og framsetningar á menningararfi í bland við sjónarmið almennings og sérfræðinga og leggur sig fram um að grafa undan annarskonar hugmyndum sem eru á skjön við skilgreind svið menningararfs.

The ‘heritage’ discourse … Naturalizes the practice of rounding up the usual supects to conserve and ‘pass on’ to future generations … this discourse validates a set of practices and performances, which populates both popular and expert constructions of ´heritage´ and undermines alternative and subaltern ideas about ‘heritage’.

Þetta sjónarmið Smith stangast að mörgu leyti á við aðrar fræðilegar skýringar á hugtakinu, sem og notkun hugtaksins í opinberri nálgun, svo dæmi sé tekið. Sem dæmi lítur UNESCO svo á að menningararfur sé fyrst og fremst minnismerki, byggingar og staðir:

monuments: architectural works, works of monumental sculpture and painting, elements or structures of an archaeological nature, inscriptions, cave dwellings and combinations of features, which are of Outstanding Universal Value from the point of view of history, art or science;

– groups of buildings: groups of separate or connected buildings which, because of their architecture, their homogeneity or their place in the landscape, are of Outstanding Universal Value from the point of view of history, art or science;

– sites: works of man or the combined works of nature and of man, and areas including archaeological sites which are of

Outstanding Universal Value from the historical, aesthetic, ethnological or anthropological points of view. 1

Annað dæmi má nefna úr opinbera geiranum hér á landi, en í ársbyrjun 2013 var sett á fót sérstök deild í forsætisráðuneytinu sem hefur það að markmiði að stuðla að verndun og stefnumótun á sviði menningararfs og menningarminja. Af heimasíðu ráðuneytisins að dæma er megin áhersla deildarinnar á að vinna með hugtakið menningararfur í þeim skilningi annars vegar að standa að vernd efnislegra minja fyrir kynslóðir framtíðarinnar og hins vegar að stuðla að stefnumörkun á sviði verndar og framkvæmd hennar. Núverandi skrifstofustjóri menningararfs í forsætisráðuneytinu, Margrét Hallgrímsdóttir sem er í tímabundnu leyfi frá starfi þjóðminjavarðar og gegnir starfi skrifstofustjóra menningararfs í ráðuneytinu, hefur tjáð sig um þennan málaflokk á undanförnum árum og ekki síst um það sem snýr að verndun og viðhaldi arkitektúrs sem menningararfs. Sem dæmi er haft eftir henni í blaðaviðtali fyrir nokkrum misserum að þau áform einkaaðila að reisa tilgátukirkju í Skálholti myndu „rýra sanngildi Skálholts, sem nú þegar hefur allt sem þarf sem einstakur viðkomustaður erlendra sem innlendra gesta. Mikilvægt er að sýna því virðingu og fagmennsku“ og bætir Margrét síðan við að „[þ]egar hinn upplýsti ferðamaður kemur til landsins vill hann upplifa raunveruleika en ekki sviðsetningu.“ 2 Að lokum segir hún eftirfarandi:

„Það er röng forgangsröðun að taka gerviminjar fram yfir verndun og aðgengi að raunverulegum minjum í nafni ferðaþjónustu. Við ættum heldur að styrkja raunverulegar minjar okkar. Þess má geta að torfhúsaarfur okkar er talinn eiga erindi á heimsminjaskrá UNESCO en hagrænt gildi slíkrar skráningar getur verið afar mikið eins og tölur sýna í nágrannalöndum okkar. Slíkir staðir laða að sér upplýsta og krefjandi ferðamenn,“ segir Margrét, og útskýrir að sanngildi skipti máli til að laða að þennan hóp ferðamanna. Tilgátukirkjan rýrir sanngildi Skálholts, að mati Margrétar.“ (undirstrikun mín).

Sé lagt út af skoðun Smith eru dæmi af þessu tagi lýsandi fyrir það hvernig ráðandi orðræða grefur undan annarskonar hugmyndum um menningararf og hvað þykir tilhlýðilegt í þeim efnum, en talsmenn tilgátukirkjunnar líta á hugmyndina sem lið í framsetningu á íslenskum menningararfi. Annað nýlegt dæmi er Þorláksbúðarmálið svokallaða, sem staðið hefur styr um meðal þeirra sem eru í forsvari fyrir ráðandi orðræðu um menningararf.

Það er þrennt sem er áhugavert að skoða út frá því sjónarhorni sem ég hef hér dregið upp og langar mig til að ræða sérstaklega  einn tiltekinn flokk menningararfs sem eru íslensk torfhús. Í fyrsta lagi er það spurningin um forræði yfir því sem er kallað menningararfur. En þjóðríki, eins og Ísland, hafa um langt árabil gert sér far um að lögbinda og stofnanagera hugsun og meðferð á því sem er í dag kallað menningararfur. Sé litið til Íslands sérstaklega, má rekja forræðissöguna aftur til upphafs 19. aldar, sem síðan er orðið vanabundið – eða náttúrugert, með orðum Smith – að eigi að vera á forræði ríkisins og sést í lögum um menningarminjar og safnastarf, svo dæmi séu tekin. Í öðru lagi er það spurningin um iðkun menningararfs, en á sama tíma og ráðandi orðræða er upptekin af því að vernda og stýra menningararfi, fer fram menningarleg framleiðsla og breytingar á því hvað telst til menningararfs sem orðið geta hluti af skilgreiningarsviði orðræðunnar. Með öðrum orðum, orðræðan getur innlimað það sem áður stóð fyrir utan skilgreindan menningararf. Í þriðja lagi er það svo spurningin um þátttöku annarra en þeirra sem hafa ráðandi stöðu í því að skilgreina menningararf, en í ráðandi orðræðu felst að með vernd og miðlun á menningararfi sé lykilatriði að tekið sé mið af þekkingarfræðilegri fjölhyggju. Eða með öðrum orðum, annars vegar að menningararfur sé til komin á grundvelli fjölbreytilegrar þekkingar og svo hins vegar að hans sé neytt eða notið í samtímanum með fjölbreyttum hætti s.s. í þeim skilningi að einstaklingar og/eða hópar bæði skilji og upplifi menningararf með ólíkum hætti.

anartorf4

Ef við skoðum þessar þrjár spurningar í samhengi við íslensk torfhús, þá opnast spennandi viðfangsefni fyrir okkur. Í fyrsta lagi er óumdeilt að sem menningararfur eru þau alfarið á forræði ráðandi orðræðu. Opinberar stofnanir eins og Alþingi hafa gert tilkall til þessara minja á grundvelli laga og síðan fengið stofnunum eins og Þjóðminjasafninu umboð til þess að vernda þær og stuðla að skynsamlegri notkun þeirra fyrir komandi kynslóðir. Svigrúm annarra til afskipta er háð leyfum þess opinbera. Í öðru lagi er það viðurkennt sjónarmið að til verndunar og viðhalds á íslenskum torfhúsum sé nauðsynlegt að stuðla að iðkun á byggingu þeirra, en glatist sú handverksþekking sem til þarf, þá er því haldið fram að það rýri gildi minjana sem standa og þar með sanngildi þeirra. Í þriðja lagi er það jafnframt viðurkennt (náttúrugert) að verndun torfhúsa eigi erindi við samtímann og komandi kynslóðir, og að það sé nauðsynlegt að mennta kynslóðir, ferðamenn og aðra um slíkar byggingar. Sú nauðsyn getur grundvallast á markmiðssetningum eins og að auka þekkingarstig, styrkja sjálfsmynd , til styrkingar á byggð, sem afþreying eða til fjárhagslegs ábata.

Á sama tíma og það má segja margt gott um það starf sem unnið hefur verið á sviði torfhúsa sem menningararfs (og þetta segi ég til að styggja ekki forsvarsmenn ráðandi orðræðu!), þá stendur ráðandi orðræða og í raun við sem fáumst við þjóðfræði gagnvart ákveðnum vanda. Þrátt fyrir ákveðið forræði (og kannski vegna þess?) yfir íslenskum torfhúsum hefur þeim verið kerfisbundið eytt eða útrýmt 3. Iðkunin við byggingu þeirra og viðhald er sömuleiðis á undanhaldi og helst í hendur við útrýmingu þeirra. Af þessu leiðir einnig, að þátttaka í að gera torfhús að menningararfi sem skiptir almenna borgara einhverju máli, hvort sem er sögulega eða samtímalega, er jafnframt takmörkuð.

Ein leið sem mig langar til að leggja til við að fást við þennan vanda – en hann, eins og ég vona að þið áttið ykkur á, er bæði fræðilegur og hagnýtur – er að leggja til skoðun á torfhúsum út frá hugmyndum um anarkisma. En með því sjónarhorni vinnst dýpri skilningur á torfhúsum sem menningararfs sem um leið gefur okkur tækifæri til endurnýjunar á tengslum við þennan tiltekna byggingarmáta. En hvað er anarkismi?

Anarkismi og íslensk torfhús

Orðabókarþýðingar á hugtakinu anarkisma eru villandi. Í ensk-íslensku orðabókinni (snara.is) segir að anarkismi þýði „stjórnleysisstefna, sú stjórnmálakenning að öll kerfisbundin stjórnun samfélagsins sé óæskileg“ og að þýði einnig „óstjórn, stjórnleysi.“ Þýðingarnar eru villandi í þeim skilningi að þær taka upp sjónarhorn og tungutak gagnrýnenda á anarkisma. Ég hallast að því að líta á anarkisma sömu augum og breski arkitektinn og anarkistinn Colin Ward, sem hefur sagt að anarkismi sé – og hefur eftir anarkistanum Peter Kropotkin.

the name given to a principle or theory of life and conduct under which society is conceived without government – harmony in such a society being obtained, not by submission to law, or by obedience to any authority, but by free agreements concluded between the various groups, territorial and professional, freely constituted for the sake of production and consumption, as also for the satisfaction of the infinite variety of needs and aspirations of a civilised being. 4

Anarkismi er þarna afstaða eða kenning um líf og starf fólks í samfélagi án afskipta yfirvalds eða samstilling fólks sem byggir ekki á undirgefni gagnvart lögum eða yfirvaldi, heldur á grundvelli samninga sín á milli. Það væri að æra óstöðugan að tilgreina fleiri útgáfur af anarkisma – eða gera grein fyrir þeim fjölmörgu greinum anarkisma sem hafa verið mótaðar, greinum á borð við anarkó-kommúnisma, anarkó-kapitalisma, grænum anarkisma, anarkó-feminisma, hinsegin anarkisma, friðar-anarkisma eða póst-anarkisma, svo eitthvað sé talið.

Sé lagt út af orðum Kropotkin/Ward og þeim beitt á íslensk torfhús vakna upp spurningar um það með hvaða hætti þau hafa verið viðfangsefni valdakerfa frá landnámi, með hvaða hætti þau hafa verið hluti af félags- og menningarlífi Íslendinga og ekki síst, með hvaða hætti almenningur hefur haft afskipti af honum bæði sem hefð og hluti af lífsskilyrðum sínum.

Áður en ég kem að því að ræða sérstaklega OH-verkefnið á Miðnesheiði, langar mig til að nefna stuttlega með hvaða hætti sjónarhorn anarkista opnar á íslensk torfhús. Í fyrsta lagi opnast fyrir okkur að þjóðveldisöld hefur verið lýst af fræðimönnum sem tími anarkisma. Thorstein Veblen (1857-1929) hefur til að mynda haldið því fram að þjóðveldisöldin hafi verið anarkísk, þar sem samfélagið var mótað og grundvallað án þvingandi valds og að það hafi verið ólíkt því sem gerðist í Evrópu.

on the premises afforded by the received scheme of use and wont; and this received scheme had come down out of pre-feudal conditions, without having passed under the discipline of that régime of coercion which the feudal system had imposed on the rest of Europe, and so had established as an “immemorial usage” and a “second nature” among the populations of Christendom. The resulting character of the Icelandic Commonwealth is sufficiently striking when contrasted with the case of the English commonwealth of the seventeenth century, or the later French and American republics. These, all and several, came out of a protracted experience in feudalistic state-making and State policy; and the common defense – frequently on the offensive – with its necessary coercive machinery and its submissive loyalty, consequently would take the central place in the resulting civic structure. 5

Að mati Veblen var þjóðveldið byggt á grundvelli notkunar og eftirspurnar, en ekki valdboðs.

Sé litið á torfhús í því samhengi verður ljóst að þau eru á því tímabili menning sem orðið hefur til við anarkísk skilyrði í félagslegum og menningarlegum efnum. Sem sagt búin til af samstilltu átaki fólks sem þurfti ekki að lúta boðum eða bönnum um staðsetningu þeirra, útliti, efnissamsetningum, eða virkni.

Í öðru lagi má auðvitað gera því skóna – eins og gert hefur verið af Herði Ágústssyni og fleirum – að byggingarnar hafi borið þess merki að kunnáttan við gerð þeirra markist af hefð frá Noregi en þeirri þekkingu var beitt með tilliti til aðstæðna. Sé það skoðað sérstaklega opnast fyrir okkur sá möguleiki að í stað þess að skilgreina menningararf á forsendum ráðandi orðræðu, þá höfum við tækifæri til að skoða menningararf á grundvelli gerendahæfni einstaklinga og hópa. Anarkismi í arkitektúr verður í þessum skilningi órjúfanlegur hluti af menningararfi Íslendinga.

Pattersonsvæðið: Menningararfur gegn ríkinu, fyrir fólk og menningararf

anartorf5

OH-verkefnið á Miðnesheiði er hugsað sem samstarfsvettvangur innlendra og erlendra lista- og fræðimanna um yfirgefna landsvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem herlið Bandaríkjanna hafði aðsetur 6. Markmið verkefnisins er að efna til sýningar á svæðinu, sem í dag gengur undir nafninu Ásbrú og er á forræði Kadeco, sem er í eigu fjármálaráðuneytisins. Forsendur verkefnisins byggja meðal annars á þeim hugmyndum að í hnattrænu samhengi sé yfirgefna hersvæðið tilvalinn vettvangur til að skoða, greina og ræða ógnir sem steðja að listrænu starfi, fræðilegri hugsun, uppbyggingu á lífvænlegum samfélögum, og umhverfinu í víðasta skilningi þess orðs. Ógnin er skilgreind á grundvelli þess efnahagsleg umhverfis og gilda þeim tengdum, sem smættar veröldina og gerendahæfni mannsins með þeim hætti að listir, fræði, samfélög og umhverfið eigi að þjóna fyrst og fremst efnahagslegum ávinningi. Stjórnmálalegar hreyfingar og valdakerfi þjóðríkja hafa tekið undir með þessum markmiðum og vinna leynt og ljóst að því að búa í haginn fyrir þessi markmið og gildi, og er þróunin á Íslandi þar engin undantekning.

Í þessu samtímalega ástandi, sem hefur verið greint á þennan hátt af fjölmörgum fræðimönnum á undanförnum árum (Bifo, Gielen, Grétarsdóttir osfr), vakna margar áleitnar spurningar á borð við:

– Hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir einstaklinga, samfélög og vistkerfið, sem virðist sökkva alltaf dýpra og dýpra ofan í ótryggt ástand sem er búið til af efnahagslegum gildum kerfisins, en eitt af því sem hefur til dæmis mistekist innan þess kerfis er að efla lýðræðisleg vald og standa vörð um borgaraleg réttindi?

– Eru einhverjir aðrir möguleikar í stöðunni þegar aðrar lausnir bjóðast eða önnur gildi eru ofurseld hertu eftirliti þjóðríkja með hegðun og skoðunum borgara sinna? 7

Eitt af því sem hópurinn í verkefninu hefur rætt er að afmarkað svæði á Ásbrú, svokallað Pattersonvæði, sé tilvalinn vettvangur tilrauna á sviði menningararfs í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum og þeim ógnum sem steðja að. Pattersonsvæðið er gamall flugvöllur sem var reistur af Bandaríkjamönnum árið 1942 en aflagður árið 1945. Eftir að flugbrautunum var lokað, voru reist byrgi fyrir skotfæri Bandaríkjahers, en þetta eru rammgerðar byggingar úr steinsteypu, stáli og jarðvegi sem mokað hefur verið yfir byggingarnar. Byrgin eru hliðstæð öðrum byrgjum víða um heim, bæði að gerð og notkun efna við byggingu þeirra.

Svæðið var afgirt á meðan það var í notkun og undir ströngu eftirliti. Sú hugmynd að gera Pattersonsvæðið að tilraunavettvangi á sviði menningararfs byggir á eftirfarandi forsendum:

– Í fyrsta lagi að menningararfur hér á landi hefur aðallega verið skilgreindur á forsendum ríkisins. Ennþá er lítið vitað með vissu með hvaða hætti einstaklingar og samfélög hafa komið að slíku skilgreiningarstarfi.

– Skilgreindur menningararfur er bundinn ákveðinni helgi, sem hefur gert það að verkum að einungis aðilar með leyfi og undir eftirliti hafa mátt meðhöndla hann.

– Fyrirkomulagið takmarkar þar með þekkingarfræðilega upplifun einstaklinga á menningararfi, þar sem þeir fá ekki að njóta hans nema með því að horfa á hann og hafa lítið eða ekkert umboð til að ráðstafa honum eins og þeir vilja.

Vegna þess að byrgin á Pattersonvæðinu vísa sjónrænt til aldagamallar hefðar Íslendinga við að reisa sér skjól (en sú sjónræna tilvísun byggir á jarðvegsnotkun byrgjanna) og um leið, að megninu af þeim skjólum, torfhúsum, hefur verið kerfisbundið útrýmt, þá opnast möguleiki á því að endurhugsa eða endurskoða – jafnvel endurvekja – þennan tiltekna menningararf sem skiptir alla máli, og þar með ekki yfirvöld eingöngu. Endurhugsunina og endurskoðunina er hægt að byggja á eftirfarandi hugmyndum anarkista:

– Skilgreina þarf Pattersonvæðið sem vettvang þar sem þátttakendur sjálfir búa sér til skipulag um hvernig eigi að skilgreina svæðið sem menningararfur.

– Fyrirliggjandi byrgi verður hægt að vinna með sem menningararfur sem tekur mið af þúsund ára sögu við húsbyggingar á Íslandi, en um leið sé litið svo á að þau séu lifandi arfleifð sem taki þeim breytingum sem þurfa þykir til viðhalds á þeim sem menningararfur.

– Þátttaka og raunveruleg áhrif einstaklinga hefur þar með þann möguleika að auka þekkingarfræðilega reynslu þeirra af torfhúsum og rýminu þar um kring.

Samantekt

Í lokin er vert að minnsta orða Kropotkin sem skrifaði eftirfarandi:

it is not enough to destroy. We must also know how to build…That is why anarchism, when it works to destroy authority in all its aspects, when it demands the abrogation of laws and the abolition of the mechanism that serves to impose them, when it refuses all hierarchical organization and preaches free agreement, at the same time strives to maintain and enlarge the precious kernel of social customs whithout which no human or anaimal society can exist. Communist customs and institutions are of absolute necessity for society, not only to solve economic difficulties, but also to maintain and develop social customs that bring men in contact with one another. They must be looked to for establishing such relations between men that the interest of each should be the interest of all; and this alone can unite men instead of diving them. 8

En með þessum orðum er Kropotkin að halda því fram að maðurinn þurfi að sameinast í einingu, að samfélag sé búið til, og að gagnkvæm tengsl milli fólks þurfi að byggja. 9 Fyrir þá sem lesið hafa sig til um hugtakið menningararf og ekki síst, kynnt sér opinberar útgáfur sem tala fyrir mikilvægi menningararfs, þá kannast þeir við hliðstæð sjónarmið. En þar er menningararfshugtakinu beitt með þeim hætti að verndun skapi einingu, styrki og viðhaldi samfélögum, og um leið sé áhrifarík leið til þess að byggja upp tengsl fólks. Það er hins vegar munur á sjónarmiðum Kropotkins og ráðandi orðræðu um menningararf, þar sem spurningin um vald og gerendahæfni til að ná fram þessu markmiðum er svarað á ólíkan hátt. Ráðandi orðræða byggir vald sitt á fulltrúalýðræði og umboði stofnana til að framfylgja forræði sínu eða valdi yfir menningararfi. Gerendahæfni fólks er þar með takmörkuð, ef ekki óhugsandi, við slíkar aðstæður. Afleiðingin af því er meðal annars sú að menningararfur, eins og torfhús í þessu tilviki, verður sögulegt viðfangsefni sem hefur litla sem enga þýðingu fyrir megin þorra fólks nema sem afþreying eða tækifæri til menntunar um fortíðina. Anarkismi veitir aftur á móti fólki vald og gerendahæfni til ráðstöfunar.

Við megum ekki gleyma því að núverandi kerfi gerir einstaklingum ómögulegt að mæta einni megin frumþörf sinni, sem er að veita sér húsaskjól, nema til komi leyfisveitingar, fjárútlát, þjónkun við lög og reglur um hvað megi og hvað megi ekki við húsbyggingar. Gerendahæfni okkar hefur í þeim efnum verið tekin af okkur – eða öllu heldur, við höfum látið hana í hendurnar á öðrum. Pattersonsvæðið væri tilvalið tilraunaverkefni til þess að endurvekja anarkískt menningarástand þjóðveldisaldar á sviði arkitektúrs og gera þar með gerendahæfni þess – og annarra – tíma að reynslu þeirra sem áhuga hafa á slíkum málum í samtímanum. En til þess að það takist, er nauðsynlegt að yfirvöld láti af tilkalli sínu til yfirráða á svæðinu og eftirláti fólki skilyrðislaus völd til þess að haga málum sínum þar eins og þeim sýnist að sé best að meðhöndla það.

Erindi flutt á vegum Þjóðbrókar, félags þjóðfræðinga, á Þjóðminjasafni Íslands 10. október 2014.

   [ + ]

1. Operational Guidelines for the Implementation of the World Heritage Convention. 2013. Bls. 13. http://whc.unesco.org/pg.cfm?cid=57
2. „Þegar hinn upplýsti ferðamaður kemur til landsins vill hann upplifa raunveruleika en ekki sviðsetningu.“ 22. Október 2013. Skoðað 25. September 2014 á http://www.visir.is/-hinn-upplysti-ferdamadur-vill-upplifa-raunveruleika-en-ekki-svidsetningu-/article/2013131029651.
3. Sjá Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Marta Guðrún Jóhannesdóttir. 2014 (væntanleg) „Moldargreni og menningararfur.“ Menningararfur. Valdimar Tr. Hafstein og Ólafur Rastrick (ritstj.). Háskólaútgáfan.
Colin Ward and David Goodway. 2003. Talking Anarchy. Pg. 27-28
4. Colin Ward and David Goodway. 2003. Talking Anarchy. Pg. 27-28.
5. Veblen, Thorstein. 1917. On Icelandic Anarchy. http://praxeology.net/TV-IA.htm
6. Sjá bók Friðþórs Eydal. 2007. Frá heimsstyrjöld til herverndar: Keflavíkurstöðin 1942-1950. Bláskeggur.
7. Tinna Grétarsdóttir og Bryndís Björnsdóttir. 2014. „„It´s a big deal“: A few words on the project, the site and its locality.“
8. Kropotkin í Chon, Jesse S. 2006. Anarchism and the crisis of representation. Susquehanna University Press. Bls. 59.
9. Chon, Jesse S. 2006. Anarchism and the crisis of representation. Susquehanna University Press. Bls. 59.