Nýjasta skáldsaga Steinars Braga, Kata, á það ekki bara sameiginlegt með fyrri bók hans, Konum (2008), að ofbeldi gegn konum sé í forgrunni heldur er einsog þær verði að umræðusvelg sem lesendur þeytast í kringum lengi eftir að þeir lesa bækurnar – og raunar, í báðum tilvikum, nokkru áður en þær komu einu sinni út, enda kvisast út um eldfimt innihaldið á tímum þar sem fregnir af kynferðisofbeldi eru oftar en ekki mest lesna efnið á öllum fréttavefum. Ég veit ekki hvort manni er óhætt að tala um feminíska endurreisn á síðustu árum – það er ósennilegt að hún nái djúpt inn í stjórnkerfið eða lögregluna, þótt hún eigi sér líka málsvara þar, og oft er þar kannski meira um orð en gjörðir. Í öllu falli nær málefnið ítrekað fantatökum á umræðunni sem pólaríserast hratt – og áður en nokkur veit af eru kommentin orðin á fjórða hundrað og varla nema lítill hluti þeirra frambærilegur á borgaralegri heimilum.
Það er rétt að taka þetta fram áður en lengra er haldið: Steinar Bragi er einn af bestu vinum mínum. Sumt af fólkinu sem tengist hinu svonefnda „ábyrgðarferli“, sem er stuttlega rætt hér að neðan – enda kemur það fyrir í bókinni – er nákomið okkur báðum. Ég hef lesið og dáðst að bókum Steinars frá því áður en við kynntumst – raunar fór ég á hnén þegar ég hitti hann fyrst, líklega 2002, til tignunar götuskáldinu grófa sem seldi bækur sínar á börum. Afstaða okkar til hinnar pólitísku skáldsögu, til pólaríseringar umræðunnar og problematíseringar á félagslegum vandamálum, er hins vegar afar ólík einsog sjá má í viðtalinu hér að neðan. Sumar spurningarnar eru afar langar – og viðtalið sjálft á sextándu blaðsíðu í Word . Og hugsanlega ástæða til að hafa við það svonefnda triggerviðvörun – á tíundu síðu fór Steinar að gráta og á þeirri tólftu fékk hann gubbupest, ég hef sjálfur verið andvaka alla vikuna – og sú viðvörun á þá aftur margfalt við um bókina sjálfa.
Reyfari í fagurbókmenntaham?
Eiríkur: Kata er löng bók og erfitt að ná utanum hana við einn lestur – og þótt hún reki sig bara í gegnum einn söguþráð er hún köflótt eða kaflaskipt. Fyrri helmingur bókarinnar er eins konar Glæpur og refsing 1 á röngunni, þar sem aðalsöguhetjan lifir í sakleysi, er svipt því og rökræðir sig smám saman að því að vilji maður vera siðferðislega réttlátur þurfi maður að vera reiðubúinn til að taka til sín vald og beita ofbeldi, á meðan Raskolnikov í G&R hefur leik í hinu Nietsczheíska æði – að öllu skipti að þeir réttu beiti nógu miklu ofbeldi, sölsi undir sig vald heimsins, en rekur sig síðan að þeim stað þar sem ofbeldið verður óverjandi og eina siðferðislega breytnin sem á sér nokkra réttlætingu, að ofbeldi loknu, er takmarkalítil iðrun. Seinni hluti bókarinnar er svo Tarantinoískari – með Lynchískum stemningum. Á köflum einsog Stieg Larsson, á köflum hreinlega einsog Lee Child – klínískar lýsingar í bland við hrottalegt ofbeldi. Sem svo reyndar er áfram litað af stemningum úr fyrri hlutanum – einhverju sem mætti kannski líkja við sótthita Raskolnikovs – ekki dreymandi stemningu, heldur „martraðandi“. Ég hef það líka á tilfinningunni að síðustu árin hafirðu sótt meira í spennusöguna sem bókmenntaform, fært þig skref fyrir skref frá því sem almennt er kallað „fagurbókmenntir“ – því þótt erfitt sé að halda því fram að bækur einsog Áhyggjudúkkur eða Hið stórfenglega leyndarmál heimsins séu þungar eða erfiðar bækur aflestrar í fagurfræðilegum skilningi, þá festa þær sig ekki eins rækilega í framvinduform spennusögunnar/reyfarans – þeirri síðarnefndu er kannski einmitt stefnt gegn því formi. Og þá spyr maður sig: hvað ertu með í vösunum? Geturðu lýst hinni fullkomnu helgi? Og hvað finnst þér um samband spennusögunnar við fagurbókmenntina – manni verður hugsað til ritdeilu Jóns Kalmans Stefánssonar og Jóns Halls Stefánssonar frá því fyrir nokkrum árum, þar sem sá síðarnefndi varði plottið í bókmenntum, en sá fyrrnefndi sótti. Jón Kalman er raunar spottaður í bókinni, meira að segja slátrað og breytt í einhvers konar náklæði, það er í sjálfu sér efni í aðra spurningu, sem kannski kemur á eftir, en fyrst þessi: Ertu búinn að klæða þig í dauðan og uppstoppaðan fagurbókmenntaham til þess að – og afsakið orðbragðið, það skýrist af samhengi bókarinnar – nauðga lesendum þínum með stuttum, breiðum en grjóthörðum reyfaralim?
Steinar: Jú, ætli það liggi ekki í augum uppi að ég hafi, með tímanum, borið mig meira eftir söguþræði í bókunum mínum. Ég var lengi framan af haldinn andstyggð á bókmenntum sem „segja hlutina eins og þeir eru“ – einblína á yfirborðsframvindu og leyfa sögunni að útskýra sig jafn óðum, tæma framvinduna í haus lesandans – og forsmá subliminal snertingar orða og sena sem hreyfa að mínu viti dýpst og varanlegast við þeim er les; og eru fjarvídd sögunnar. En ætli ég hafi ekki í seinni tíð haft meiri áhuga á að vefa þetta tvennt saman, leitað leiða til að gera það á minn hátt og ætli útkoman sé ekki þessi: að veifa dulu leechilderískra yfirborðslýsinga og reyfarakenndrar framvindu við nef lesandans, lama með því getu hans til vitsmunalegrar fjarlægðar og opna þar með fyrir innilegri viðtöku á því sem ég vildi tjáð hafa.
Fagurbókmenntir eru annars galopið hugtak og í sífelldri þróun. Bæði Dostojevskí og Chekhov voru vel meðvitaðir um sinn markað og báru sig eftir því að vera skemmtilegir, tileinka sér vinsæl bókmenntaform samtímans og vera lesnir sem víðast. Mann- og umhverfislýsingar Dostojevskís geta orðið langdregnar fyrir nútímalesanda en fyrir daga kvikmyndarinnar hefur verið ævintýralega skemmtilegt að sjá þær lifna. – En að gera þess háttar bókmenntir að fagurfræðilegu viðmiði öldum síðar væri auðvitað galið. Fagurbókmenntir ættu aldrei að forðast að vera skemmtilegar. Að lesa módernísk verk á þeirra útgáfutíma hefur ekki verið vitsmunaleg upplifun (fyrr en eftirá) heldur sjokk og dillandi skemmtun; að sjá viðtekna merkingu og tungumál brytjað niður var ómótstæðilegt og hrífandi.
Skemmtun. Að vera frá sér numinn. Ættu þetta ekki vera hyrningarsteinar allrar fagurfræði?
Bók skrifuð af réttlætiskennd
Eiríkur: En er ekki einhver óþægilegur siðferðislegur staður þarna? Að skemmta lesandanum, gera hann uppnuma, og nota til þess allt það hrottalegasta (og mest lesna) sem finna má í síðdegisblöðum síðustu 10 ára? Karlmaður selur konum kynferðisofbeldi í búningi skemmtunar? Kannski gera síðdegisblöðin það líka. En hver er þá munurinn á að gera það í Jónkalmanískum stíl og að gera það í Leechildískum stíl? Eiga fagurbókmenntir að forðast að vera „fagrar“? Eru þetta of margar spurningar í einni?
Steinar: Ég vil hafa áhrif á lesendur. Og þegar ég skrifa um konu sem er nauðgað, eða mann sem nauðgar, vil ég fæða þessi atvik innra með lesandanum svo hann lifi þau sjálfur, eða allt að því; og beita til þessum öllum meðulum. Sem kann að vera siðlaust. En það er að minnsta kosti ekki meinlaust. Eða fagurt.
En svo ég segi það eins einfaldlega og hægt er: Þessi bók er skrifuð af réttlætiskennd, ekki einni saman en drifkraftur hennar sprettur af því. Að lesa hana yfir ítrekað sem höfundur og dytta að tæknilegum úrlausnarefnum eins og ég hef gert undanfarið ár – hvernig best er að ná fram áhrifum í texta – krefur mann um ákveðinn kulda og fjarlægð; og eflaust er ég enn svolítið ótengdur þeim veruleika sem gat af sér verkið. – Bókin er komin út og þarf sína kynningu og lesendur, ég vil að sem flestir lesi hana en ég er ekki að „selja konum kynferðisofbeldi“ þótt síníkerar geti spunnið það þannig ef þeir vilja. Ég hef aldrei lagt upp með neitt í lífinu til að selja það – nema þegar ég fór sautján ára gamall að tína maðka til að selja veiðimönnum og slapp við dagvinnu það sumarið. Þessari bók er ekki beint að konum frekar en körlum, heldur okkur öllum. Og þótt deila megi um niðurstöður aðalpersónu vona ég að bókin sé að minnsta kosti fær um að miðla þessu: að ofbeldi gegn konum er eitt stærsta réttlætismál okkar tíma, og verður ekki leyst af konum einum né heldur er lausnin til hagsbóta þeim einum heldur okkur öllum. Svo er ég líka sannfærður um þetta: ég er mun færari í því að draga upp mynd af vandanum heldur en lausninni.
Eiríkur: Ég gef mér að þú lítir á bókmenntir sem verkfæri til að breyta heiminum – það eru kaflar í Kötu sem ganga ljósar í berhögg við kredduna um að maður megi ekki predika í frásögn en nokkuð síðan Maxím Gorkí var upp á sitt besta. Og maður spyr sig sem lesandi (og ég spyr mig oft sem höfundur) hvers vegna maður ætti að treysta góðum rithöfundi – sem manneskju sem er góð í beitingu áðurnefndra meðala, að fæða atvik með lesandanum – til þess að forrita sig með boðskap?
a) Er samasemmerki milli þess að vera góður í að skapa meðlíðan hjá öðrum og þess að hafa góðan boðskap, stunda góða pólitík?
b) Er sá tími að bókmenntir séu svæði til framsetningar ögrandi spurninga kannski bara liðinn – er (aftur) kominn tími á ögrandi svör?
c) Þorgeir Tryggvason, bókmenntagagnrýnandi, skrifaði um Kötu á Facebook á dögunum: „Sá sem tekur réttlætið i eigin hendur algengt viðfangsefni, en ekki oft sem maður sér fórnarkostnaðinn við það greiddan svo fúslega eða með jafn mikilli velþóknun höfundar.“ Er Kata herhvöt?
d) Kannski er þetta allt sama spurningin.
Steinar: a) Nei. En það er afar erfitt – í texta – að „skapa meðlíðan hjá öðrum,“ eins og sést glögglega í heilmörgum lélegum skáldsögum sem út koma á hverju ári. Og hjá höfundum sem ekki hafa ástríðu fyrir því sem þeir gera, meina og vilja, er baráttan töpuð. Í samhengi skrifta myndi eina góða pólitíkin þannig vera ástríða. En að hverju hún beinist er auðvitað jafn mismunandi og innviðir okkar allra. Ayn Rand hefur eflaust brunnið eins og holdsveikur asni fyrir efni bókanna sinna, en pólitíkin í þeim er ónýt fyrir því.
Svona almennt á litið myndi ég vantreysta rithöfundum; frumáhersla þeirra flestra er að taka yfir skynjun og vitsmuni lesenda sinna og – stundum – að smygla oní þá pólitík sem vel gæti stangast á við allt sem þeir héldu sig vera áður. Og stangast á við gott siðferði og/eða viðtekið.
b) Já. Sem geta þá af sér ögrandi spurningar.
c) Herhvöt já. Ekki til að berja eða drepa – heldur að láta sig það heilmiklu varða að hérlendum konum er nauðgað í bílförmum á hverju ári. Ár eftir ár. Og skilja að það hefur alvarlegar afleiðingar, ekki bara fyrir þær heldur samfélagið allt. Börn, maka, mæður og feður. Alla. Og leita eigin lausna til að gera eitthvað í því, finna sig knúinn til að gera eitthvað í því. Hætta að röfla um feministana og hvað þær séu klikkaðar, sjá ótrúlega marga meinbugi á baráttu-aðferðum þeirra og gleyma sér í neðanmálsgreinum um útfærslur þeirra. Ef þú ert svona góður í feminisma – gerðu þá eitthvað sjálfur. Pólitík kvenna lýtur strangara og harðvítugra siðferði en á við um karla; þær stíga feilspor og eru dæmdar til að haltra það sem eftir lifir ferils. Karlar vaða um gasprandi, akfeitir, móðgandi og timbraðir í gráum jakkafötum og þykja yfirleitt sæmilegir. Þeim er fyrirgefið. Feminísk barátta má alveg vera gölluð og mun alltaf verða það, rétt eins og önnur pólitík – hættum að gera svona mikið úr því og byrjum á að samþykkja að baráttan sé nauðsynleg. Og tökum þátt í henni.
Að glata ærunni
Eiríkur: Eitt sem sló mig einmitt við lestur bókarinnar var að hann gerði ákveðna feminíska túlkun á nauðgun mjög erfiða – og þar mætti jafnvel sjá bókina sem rifrildi við femínista. Altso, ef að nauðgun er glæpur sem refsa má með þessum hætti, af þessu offorsi – hvort heldur sem það er af yfirvaldinu eða vigilöntum – þá skiptir alltíeinu miklu meira máli að skilgreiningin á nauðgun sé skýr og jafnvel þröng. Margir hafa hins vegar barist fyrir því síðustu árin að skilgreiningin sé víð. Yfirleitt er talað um að refsingin eigi að vera í hlutfalli við glæpinn – en því hlýtur að mega snúa við og segja að glæpurinn hljóti að vera í hlutfalli við refsinguna? Í bókinni er t.d. rætt eitt dæmi af forsíðu DV þar sem maður var tekinn í svokallað ábyrgðarferli vegna þess sem tiltekið er í bókinni að hafi verið „skíthælsleg“ hegðun frekar en nauðgun – en í viðtalinu í DV var talað um nauðgun, þótt það komi ekki fram í bókinni. Og hvað sem hver segir eru talsverð átök um þessa línu – hvað sé bara að vera glataður gaur, hvað sé kynferðisofbeldi, hvað sé andlegt ofbeldi, hvað sé nauðgun og svo framvegis. Nýleg dæmi úr kastljósi fjölmiðla varða bandaríska rithöfundinn Tao Lin og ritstjórann Stephen Dierks Tully – og nokkra fleiri miskræsilega unga karlmenn úr bandarísku alt-lit eða „new sincerity“ bókmenntasenunni – sem eru fyrirvaralaust kallaðir nauðgarar („horrific rape“, var hugtakið sem Jezebel notaði um Tao Lin í upphafi – því var slakað til baka eftir hótanir lögfræðinga) af einni fylkingu en varðir af annarri, sagðir einmitt meira svona „skíthælslegir“. En skiptir kannski engu máli að tekist sé á um þessa línu? Er nóg að einhver segi að sér hafi verið nauðgað – eða jafnvel að sér finnist sér hafi verið nauðgað – til að það sé nauðgun og samfélagið – hið opinbera eða þjóðfélagið – bregðist við því í samræmi við þá sýn? Er ástæðulaust að takast á um þetta? Er feminísk hugsun eitthvað sem á sér stað í annarra manna húsum en t.d. bara mínum?
Steinar: Það er lítið pláss hérna til að gera þessu sæmileg skil. En í sem allra mestri einföldun myndi nauðgun vera að hafa samræði við konu/karl gegn vilja viðkomandi; og gerandinn skilur vilja þolanda en heldur samt áfram, og beitir líkamlegu ofbeldi eða annarri nauðung. Málin flækjast, stundum, þegar á að establísera hvort þolandi hafi komið geranda í skilning um hver vilji þolanda væri, og upp að hvaða marki gerandi hafi kosið að leiða þetta hjá sér. Nei, auðvitað á ekki að vera nóg að „finnast“ manni hafa verið nauðgað – verknaðarlýsing þarf að vera í einhverju lágmarkssamræmi við að nauðgun hafi átt sér stað; en ekki andlegt ofbeldi, til dæmis. Að „finnast“ ætti ekki heldur að nægja, eitt sér, til að refsingu sé beitt, hvorki af ríki né einstaklingum. Það ætti hins vegar að leiða til rannsóknar sem er ekki framkvæmd af allt of fáliðaðri og fjársveltri kynferðisbrotadeild lögreglu. Þótt deila megi um sönnunarbyrði og hversu ströng hún á að vera þegar kemur að kynferðisbrotum, held ég að það endi illa ef við förum öll að setja upp okkar eigin réttarhöld og útdeila refsingum. Kerfið sem við búum við í dag er gallað en batnar ekkert við að létta af því þrýstingnum, ættum við ekki að stefna að því að bæta það? Og leggja meira upp úr fræðslu, forvörnum, aðstoð við þá sem glíma við afleiðingar ofbeldis (en ekki að skera niður til málaflokksins um 60 millur eins og gert er á fjárlögum í ár.) Meðfram því má skoða aðrar óhefðbundnari nálganir; skv. kynjafræðingi sem ég ræddi við myndi áherslan þar vera t.d. á mikilvægi þess að þolandinn fái viðurkenningu á því að hafa verið beitt ofbeldi, frekar en að refsa verði gerandanum.
Svo má líka ræða þetta: miðað við fjölda nauðgunarkæra á Íslandi er allt of lítið um sakfellingar. Það er vitað. Áherslan er sú að frekar eigi að leyfa tíu sekum að ganga lausum heldur en að einn sé ranglega sakfelldur. – Er þetta sjálfsögð áhersla? Að hversu miklu leyti varðar hún hina viðkvæmu æru karlmanna? Og hversu mikið lagt er upp úr æru karla og að staðinn sé um hana vörður? Hvað með æru þeirra kvenna sem leggja fram kæru um nauðgun en hljóta svo ekki sakfellingu fyrir, og stundum varla rannsókn? Og geta lent í því að vera hraktar úr starfi og úr sínum heimabæ fyrir vikið? Glata þær ekki líka ærunni við að þeim sé ekki trúað? Ég er ekki að mælast til þess að saklausir menn séu fangelsaðir, en er nokkuð sjálfgefið við þessa áherslu dómstóla – að gera það nær útilokað að nokkur maður verði sakfelldur fyrir nauðgun?
Af hverju stafar ógnin
Eiríkur: Ef við skiljum bara konur út undan – og göngumst við því að þetta sé karlaheimur, karlaákvörðun sem gerir að verkum að sakfelling í nauðgunarmálum sé erfið sökum of þungrar sönnunarbyrði – þá veltir maður fyrir sér forsendunum, sem sjálfsagt eru jafn ólíkar og karlarnir eru margir, en ganga samt eftir einhverjum línum. Öðrumegin litrófsins má hugsa sér að saklaus-uns-sekt-sé-sönnuð sé einfalt fasískt yfirvarp þess sem finnst í raun að hinn sterki megi (og eigi) að valta yfir hinn veika þar sem það er hægt. Ef þú getur nauðgað einhverjum og langar til þess áttu að gera það. En hinumegin er allt frá mjúkum krötum sem eru mótfallnir refsingum sem slíkum yfir í vinstri róttæklinga sem sjá ástæðu til þess að óttast allt vöðvahnykl hins opinbera – og ganga kannski að því sem vísu að hið opinbera taki sér allt það vald sem fólkið er tilbúið til að veita því, þar á meðal réttinn til að geta fangelsað fólk með sem minnstu veseni, og finnst þar með eitthvað óhuggulegt að peppa upp refsigleði ríkisins. Vinstri róttæklingar standa t.d. oft (en ekki alltaf) vörð um tjáningarfrelsið þótt rasistar geti skákað í skjóli þess, standa vörð um sönnunarbyrðina og gegn öllum atlögum að henni vegna þess að … sporin hræða.Kannski ekki í málum sem varða kynferðisofbeldi en mörgum öðrum. Sævar Cieselski kemur upp í hugann – og allt fólkið í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hælisleitendurnir sem vísað er úr landi án þess að njóta þessara réttinda. Í fyrirmyndarríkinu Svíþjóð situr Peter Sunde í harðri einangrun í versta fangelsi landsins fyrir að vera talsmaður Piratebay – það þótti ekki þurfa að tengja hann félagsskapnum neitt frekar en að hann skuli hafa tekið að sér það hlutverk að vera málpípa. Við þurfum varla að nefna stórþjóðirnar eða einræðisríkin – hvað þykir sjálfsagt víðast hvar í heiminum.
En sem sagt, í skandinavíska vinstrinu er nokkuð af ungum karlmönnum sem berjast fyrir því að menn einsog Tony Omos (og vonandi allir aðrir) njóti þess að vera saklausir uns sekt þeirra er sönnuð og hafa raunverulegar og réttmætar áhyggjur af því að slakari löggjöf í kynferðisbrotamálum verði notuð gegn fólki – í pólitískum tilgangi, gegn hinum valdlitlu eða bara til að sölsa undir sig völd, vegna þess að það er hægt, svona einsog maður kaupir hríðskotabyssur í vopnasafnið vegna þess að það virðist skýrt tiltekið ekki hafa verið harðbannað – og mega fyrir vikið þola ásakanir um að þeir standi vörð um nauðgara, séu hlaupadrengir feðraveldisins sem „gleymi sér í neðanmálsgreinum um útfærslur“. Það eru augljóslega ekki allir saklausir uns sekt þeirra er sönnuð og þótt það sé óréttlátt að krafan sé eindregnari í kynferðisbrotamálum en í mörgum öðrum málaflokkum þá eru það kannski ekki mjög góð rök fyrir að slaka á henni þar líka? Eða hvað? Þegar samræmið ætti að vera í hina áttina, meina ég. Eru hlaupadrengirnir bara nytsamir sakleysingjar – naívistar, með orðalagi Pittelkow og Jespersen – eða hafa þeir eitthvað til síns máls? Stendur samfélaginu meiri ógn af glæpamönnum sem ganga lausir en af misbeitingu ríkisvaldsins?
Steinar: Löggjöf í kynferðisbrotamálum er nú þegar „notuð gegn fólki […] gegn hinum valdlitlu“ – konum. Sem njóta allt of sjaldan sanngjarnra réttarhalda þegar kemur að kynferðisbrotum. Saksóknari er svo metnaðarfullur þegar kemur að Lögum.
Og nú ætla ég að kvóta Þórdísi Elvu, bandaríska innanríkisráðuneytið og Sameinuðu þjóðirnar:
„Þann 6. mars 2007 kom út skýrsla bandaríska innanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda á Íslandi fyrir árið 2006. Í henni stóð meðal annars: Við nauðgun er hámarksrefsing 16 ára fangelsi. Dómarar dæmdu menn að jafnaði í 1-3 ára fangelsi. Makanauðgun er ekki tiltekin sérstaklega í lögum. Árið 2005 benti Ráðgjafa og upplýsingamiðstöð fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Reykjavík [Stígamót] á að tilkynningum um nauðgun fjölgaði örar en sakfellingum í nauðgunarmálum miðað við undanfarin ár. Í mars 2005 lýsti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum með að þung sönnunarbyrði í nauðgunarmálum væri ástæða þess hversu fáum málum lyki með sakfellingu. Stjörnvöld svöruðu ekki þessu atriði í svari sínu við athugasemdum nefndarinnar.“
(Á mannamáli, bls. 161-62).
Ári áður hafði Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna beint nokkrum spurningum til fulltrúa íslenskra stjórnvalda á einhvers konar fundi; grípum niður í fundargerðina:
„Varðandi áhyggjur nefndarinnar af tíðni nauðgana – eða nauðgunarákæra – staðfesti [Ragna Árnadóttir] stöðu mála og viðurkenndi að hin hlutfallslega háa tíðni sýknudóma í nauðgunarmálum stafaði að mestu leyti af ákvörðun saksóknara um skort á sönnunargögnum. Yfirvöld væru þó sátt við vinnubrögð lögreglunnar hvað varðar rannsókn og tilkynningar í þessum málaflokki.“
(Á mannamáli, bls. 164)
Frábært! Segi ég af kaldhæðni. Yfirvöld eru sátt! Meira úr fundargerð:
„Walter Kalin, sérfræðingur frá Sviss, tjáði áhyggjur sínar yfir því að það væru jafn fáar ákærur í nauðgunarmálum og raun ber vitni. Í ljós þess að einungis þremur málum lauk með sakfellingu úr fremur stórum hópi mála, hvaða skilaboð væri verið að senda? Voru allar konurnar að ljúga eða var yfirvöldum hreinlega sama? Voru skilaboðin þau að konur ættu einfaldlega ekki að tilkynna málin því þær myndu einungis uppskera vandræði fyrir vikið?“
(Á mannamáli, bls. 167)
Það sem þessir erlendu sérfræðingar þykjast vita um okkur; eða vilja vita um okkur. Skoðum svör íslensku fulltrúanna við ofangreindu:
„Vissulega væri þung sönnunarbyrði hjá saksóknara, sem útskýrði hversu fáar nauðganir væru kærðar. Yfirvöld hefðu þó ekki ætlað sér að senda íslenskum konum þau skilaboð að þær ættu ekki að kæra árásarmenn sína; alls ekki.“
(Á mannamáli, bls. 169)
Gott að heyra, mikið er mér létt. Við skulum svo ljúka þessari yfirferð með loka-athugasemdum téðrar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna:
„Nefndin lýsir áhyggjum sínum yfir miklum fjölda tilkynntra nauðgana í aðildarríkinu [Íslandi] samanborið við fjölda lögsókna vegna nauðgunar. Nefndin minnir á að óvissa torveldar sakfellingu en ekki lögsókn og að það er hlutverk dómstóla að ákvarða hvort sök teljist sönnuð eður ei (sjá 3., 7. of 26. gr. sáttmálans). Nefndin mælist til þess að aðildarríkið tryggi að ekki sé látið hjá líða að refsa fyrir nauðgun.“
(Á mannamáli, bls. 170.)
Síðan allt þetta kom fram hafa tölurnar versnað – hlutfall mála þar sem saksóknari ákærir er enn lægra en áður, og sakfellingar ákaflega sjaldgæfar. Og rannsókn nauðgana tekur mun lengri tíma en áður – sem er jafn ömurlegt fyrir alla hlutaðeigandi.
Hvað varðar svarið við síðustu spurningunni trúi ég þessu: Samfélaginu (okkur) stendur mest ógn af sinnuleysi (okkar) um stjórnmál.
Eiríkur: En hvað með klisjuna um að karlmenn leysi vandamál með ofbeldi? Ef einhver vill ekki ríða þér, þá lemurðu hana. Og ögrandi lausn karlkynsrithöfundarins við kynferðisofbeldi er þá … að skvetta sýru á nauðgarann?
Steinar: Ég er bara höfundur fyrri helmings þessarar bókar, Kötu, ef þá það. Systurpartinn af bókinni gerði ég ekki nema að elta Kötu. Skvetti hún sýru á einhvern?
Eiríkur: Hvernig skilurðu á milli þess sem þú gerir í Kötu og þess sem gerist í CSI: Special Victims Unit – eða á sambærilegum stöðum? Er það bara betri list eða betri pólitík (og hvernig er það betri list/pólitík)?
Steinar: Ég þekki ekki CSI: Special Victims Unit en ákvað að HRINGJA Í VIN! Hann sagði mér að þættirnir væru ákaflega vel gerðir, uppbygging þeirra hæg og yfirveguð, persónur raunsæjar og einkenndust af hárfínu jafnvægi milli almennrar og sértækrar skírskotunar. Til okkar hinna. Og í stað þess að bæta heiminn með því að draga upp mynd af afleiðingum og djönka senseisjónal afleiðingum framan í grunlausa áhorfendur köfuðu þættirnir oní grunnlag samfélagsins, kæmu upp með spennandi tesur um orsakir og ígrunduðu þær í samræðu við áhorfendur. Sem ég tengi við algjörlega.
„Ef Jón Baldvin er ósáttur má hann senda mér erótískt bréf“
Eiríkur: Kata er í aðra röndina samtímaróman þar sem frægt fólk birtist undir nafni, yfirleitt til að fá yfir sig gusur – Jakob Bjarnar fær nokkrar góðar romsur, Jón Baldvin fær félagslega greiningu o.s.frv – en í hina röndina lykilróman þar sem frægir einstaklingar ganga aftur í persónum bókarinnar, stundum margar í sama í kokteil. Þannig er aðalníðingurinn augljóslega blanda af Gillzenegger og Jóni Stóra, organistinn einhvers konar Guðmundur í Byrginu og svo framvegis. Enn aðrir – einsog aðilar að ábyrgðarferlismálinu sem ég nefndi áður – eru kannski ekki jafn landsþekktir, en þó opinberir aðilar sem rætt hafa þessi mál undir nafni í fjölmiðlum, en birtast samt nafnlausir í bókinni. Altso þrír flokkar frægs fólks – 1) þeir sem koma fram sem þeir sjálfir, 2) þeir sem eru klæddir í búning annarra sögupersóna og 3) þeir sem njóta nafnleyndar en koma samt fram sem þeir sjálfir (og nöfnin varla nema eitt gúgl í burtu). Geturðu eitthvað útskýrt fyrir mér fagurfræðilega og siðferðislega ferlið að baki þessu vali?
Eiríkur: Þetta er framhaldsspurning af þeirri á undan. Jón Kalman er einn þeirra sem birtist í bókinni undir nafni og er … ég vona að þú fyrirgefir mér að segja að hann sé svívirtur, mér finnst það vera rétta orðið. Það sló mig við lesturinn að þú hefur a.m.k. einu sinni áður skopstælt höfundareinkenni íslensks rithöfundar á svipaðan hátt, þegar þú lést Hallgrím Helgason „kynna sig“ í partíi í Áhyggjudúkkum – þótt það hafi ekki farið jafn illa fyrir honum og Jóni – og sló mig í framhaldinu að í Áhyggjudúkkum, sem kom út hjá Bjarti, slátrarðu þá heilagri mjólkurkú Máls og menningar, en í Kötu, sem kemur út hjá Máli og menningu, slátrarðu heilagri mjólkurkú Bjarts. Sem er í öllu falli skemmtileg tilviljun fyrir þá sem hafa gaman af forlagasamsæriskenningum (og þeir eru nokkrir í okkar bransa). En altso, maður kemst varla hjá því að lesa þetta í senn sem einhvers konar fagurfræðilega yfirlýsingu og sem beinskeytta atlögu að höfundarverki kollega. Að þú hæðist jafnvel líka að þeim sem njóta bóka Jóns (og Hallgríms áður) – þeir séu einfeldningar. Ég reikna fastlega með að þú hafir verið spurður að því nokkrum sinnum, a.m.k., hvort „þetta sé ekki óþarfi“ – og ég sleppi því – en mig langar þess í stað að spyrja hvort fagurfræðileg átök séu dauðans alvara, hvort þau réttlæti svívirðingar og háð, hver sé tilgangurinn, hverju þú viljir áorka. Þú sérð þetta kannski ekki sem svívirðingar og háð?Steinar: Ég geri greinarmun á „opinberum“ persónum og þeim sem eru það ekki – og leyfi þeim fyrrnefndu að halda nöfnunum sínum. Mörkin þarna á milli – opinber og ekki – gætu verið ljósari en maður reynir. Jakob Bjarnar er ágætlega liðin en stundum fyrirlitin opinber persóna sem kippir sér eflaust ekki upp við að vera viðfang, svona einu sinni – nógu oft hefur hann sjálfur dregið fólk út af samfélagsmiðlum t.d. og inn í blaðagreinar. Ef Jón Baldvin er ósáttur má hann senda mér erótískt bréf. Aðrar opinberar persónur eru yfirhöfuð ekki þær sjálfar heldur innblástur að sögupersónum; þær síðarnefndu eru þá gjarnan samsettar úr fleiri en einni fyrirmynd og því augljóst að kokka verður upp ný nöfn – og um leið eru mér settar lagalegar skorður og í sumum tilfellum móralskar. Á stöku stað er verið að ræða mál sem eru of persónuleg til að ég sjái mér fært að láta fólk koma fram undir nafni – að fólk geri það sjálft í dagblöðum gefur mér ekkert leyfi til að loka það inni í skáldsögu sem yfirleitt hefur mun lengri endingartíma en dagblöð. Ég sé enga ástæðu til að halda mig við einhverja einu reglu um þetta allt saman – að búa til skálduð nöfn á alla, svo dæmi sé tekið. Því miður. Það hryggir mig að segja það.
Steinar: Mér þykir vænt um allt fólk og vil því vel. En eflaust særi ég stundum aðra, hver sem ásetningurinn er; og já, ég hef vafalaust sært fólk í sumum af bókunum mínum. Þegar höfundur siglir litla bátfleyinu sínu út á hið grimma haf skáldsögunnar lokast hann – þegar vel tekst til – inni af einbeitingu, slítandi þráhyggjum og ógleði. Kannski eru þessar raunpersónuvísanir mínar tilraun til að varpa akkeri um stund, bergja af þögn himinsins og tengja mig við veröldina og dagblöðin? Eða bara grimmd sem ég ræð ekki við. Mér er hugleikið að sætta öfgar en rata þá bara í nýjar. Ég bið alla afsökunar sem ég hef sært.
Mjólkurkýr hafa annars ekkert með þetta að gera, eða hvað forlögin heita. Ég hef alltaf verið hrifinn af Hallgrími sem rithöfundi og persónu og allt sem um hann er skrifað í Áhyggjudúkkum myndi fremur flokkast undir ofsakæti – eða svokölluð „stellulæti“ – yfir því að hann sé til í heiminum og hversu snauðari íslenskar bókmenntir væru án hans. Við erum líka óendanlega miklu ríkari sem menning af tilraunum Jóns Kalmans til að færa okkur handanlæga fegurð og póesíu, og þótt Kötu og mér finnist þær leiða til einskis er það bara skoðun tveggja manneskja. Má ekki annars takast á um fagurfræði? Mættu íslenskir höfundar ekki gera minna af baknagi og tileinka sér framnag? Er stéttin kannski full meðvirk? Þekkjumst við öll svona ofsa vel af þessu árlega boði Rithöfundasambandsins eða eftir að hafa setið saman til borðs fyrir fjórum árum á bókmenntahátíð í Póllandi? Og viljum ekki særa vini okkar með því að hafa skoðun á verkum þeirra? Plííís.
Eiríkur: Að lokum: Jólabókaflóðið – markaðshelvíti eða kærkomið tækifæri til að setja bókmenntir í menningarhásæti? Ill nauðsyn?
Steinar: Ef ég man rétt er jólabókaflóðshefðin tilkomin af einhverju löngu gleymdu efnahafshruni með eftiráklíndum gjaldheyrishöftum; í mörg ár síðan var ekkert innflutt brúklegt fyrir alþýðu til gjafa nema bækur, ritaðar og prentaðar hérlendis. Við Íslendingar erum samansafn vitleysinga en stundum römbum við á boðlega útkomu: bækur til jólagjafa er ágæt hefð. Eða eins og ég fæ ekki undirstrikað nógsamlega: jafnvel biluð klukka hefur rétt fyrir sér tvisvar á dag.
1. | ↑ | Pabbi Kötu les vel að merkja Glæp og refsingu, elskar Dostó – „feðraveldið“, þið fattið, það drepur og iðrast, mæðraveldið syrgir og drepur. Í þessari röð. |