Á þessu ári eru fjörutíu ár síðan hin sívinsæla barnabók, Jón Oddur og Jón Bjarni (1974), kom út. Guðrún Helgadóttir, skapari þeirra bræðra og fjölmargra annarra ógleymanlegra persóna, á því fertugsafmæli í ár – sem rithöfundur.
Í tilefni af þessu efnir Borgarbókasafn Reykjavíkur, í samstarfi við Bókmenntaborg í Reykjavík og Forlagið, til hátíðardagskrár fyrir aðdáendur á öllum aldri sem og væntanlega lesendur. Á sama tíma verður opnuð sýning tileinkuð höfundarverki Guðrúnar, en þar má meðal annars sjá myndir úr bókunum í félagi við fleygar tilvitnanir.
Dagskráin verður í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, sunnudaginn 5. október, kl. 15. Þar koma fram Ari Eldjárn, Katrín Jakobsdóttir (í félagi við syni tvo) og Silja Aðalsteinsdóttir. Guðni Franzson og Egill Ólafsson flytja atriði úr tónverki Guðna sem samið er við Ástarsögu úr fjöllunum. Einnig mun Hildur Knútsdóttir ræða við Guðrúnu.
Nánari upplýsingar um dagskrána og sýninguna verða settar á vef Borgarbókasafnsins þegar nær dregur, sjá www.borgarbokasafn.is .