Í sumum tilfellum keppist listin við að líkja eftir veruleikanum, á öðrum stundum að lyfta honum á annað plan, kjarna hann, snúa honum á haus, veita ný sjónarhorn. Ég á stundum erfitt með mig þegar ég nálgast sköpun annarra, hvernig eigi að meta hana og þá vill mælikvarðinn verða persónulegri, kannski byggður á tilfinningu og innsæi frekar en skynsamlegri skoðun. Það sem virkar er „það sem er“ – og það sem virðist aðeins leikur með orð, liti, hugmyndir, útlit, jafnvel fólk – allt hitt s.s. ristir ekki djúpt í sálina, verður ekki hluti af reynsluheimi manns. Þá kröfu gerir maður kannski einna helst til listarinnar þegar öllu er á botninn hvolft, að hún snerti mann, hafi áhrif og jafnvel breyti manni smá, með því að verða hluti af reynsluheimi manns. Og helst á hún að gera okkur að betri manneskjum. Við þráum nefnilega öll að verða betri þó við glímum við mismunandi mælikvarða og samanburð við aðra í þeim efnum. Ég held til dæmis að ég yrði betri maður ef ég gæti oftar grátið í einlægni af völdum sterkra tilfinninga vegna einhverrar upplifunar. Fyrir mér opnar listin á að geta grátið.
Við lokum okkur af og þannig verða til hópar í samfélaginu sem eiga minna og minna sameiginlegt. Fjarlægðirnar aukast síðan og loks erum við ekki lengur samfélag. Bara mismunandi hópar af fólki sem deilum rými. Kannski er listin alltaf að takast á við þennan vanda með því að „helga sér rými“ sem stendur utan við þó það sé hluti af hinu almenna rými hversdagsins. Sum rými eru eins og kirkjur, hlið himinsins, og þó að þangað leiti inn ólíkir einstaklingar verða og eru þeir hluti af sömu upplifun, ef svo má segja og eðli listviðburðarins bíður upp á slíka reynslu. Við sem stígum inn í jaðarrýmið verðum hluti af því samfélagi sem þar er einhuga og heilt, háleitt og gegnumlýst, þar sem kvikunni er snúið út. Þar sem við fáum að vera þau sem við erum án málamiðlanna, jafnvel bara þessa örskotsstund á meðan atburðurinn varir.
Í rými hins háleita: rannsókn á helgum stað
Listin snýst um hugmyndir og kannski, um galdur og heilindi, um upplifun og tilfinningu, um hið heilaga og jafnvel transubstantiation; að því sem býr á bakvið tákn sé miðlað með raunverulegum hætti – líkt og í sakramentum trúarbragðanna. Þegar við lifum okkur inn í listaverk þá verður listaverkið hluti af okkur sjálfum. Ég vil að minnsta kosti ganga út frá þeim skilningi þegar ég túlka áhrif og gæði listaverksins sem hér verður tekið til umfjöllunar; samstarfsverkefni sjö lista-og fræðimanna sem hverfist um Töfrafjall Thomasar Mann: Niður af Töfrafjalli. Undirritaður átti þess kost að sækja tvær af „Andvökum“ hópsins sem fram fóru á Ísafirði í byrjun sumars.
Það var merkilegt fyrir mig að upplifa hversu opnir þátttakendurnir í gjörningnum voru og kannski skapaðist einmitt vegna þess einhver andi sem fól í sér samfélag eins og fólk sækist eftir að upplifa með tækjum trúarbragðanna eða jafnvel á andlegum samkomum sem flokkast utan skipulags þeirra; ég hef t.d. aldrei sótt fund spírítista en eitthvað við opinleik allra fundarmanna skapaði ósjálfráða tengingu við fyrirbærið sem og sú áhersla á að um rannsóknarstofu væri að ræða. Rannsóknarstofu um tiltekna skáldsögu með breiðri skírskotun til fjölbreytileikans í mannlegu eðli og sögu hugmyndanna. Og í því samhengi var líka um rannsóknarstofu í þolinmæði að ræða því að þarna voru samankomnir einstaklingar sem höfðu sammælst um kjarnaatriði í kristnum mannskilningi; við verðum að umbera manneskjurnar því að þær eru sjúkar og þeim er ekki viðbjargandi. Og í því einu getur sáluhjálp okkar fólgist, að umbera.
Berklahælið Úthverfa: Bráðamóttaka þolinmæðinnar
Fimm af sjö listamönnum sem standa að verkefninu buðu bæjarbúum á Ísafirði í bráðamóttökusamtal í Gallerí Úthverfu, gamla Slúnkaríki, undir yfirskriftinni „Andvökur“, eins og áður sagði. Fyrsta andvakan var sunnudaginn 1. júní milli kl. 20 og 22. Andvökurnar voru haldnar á sama tíma næstu kvöld til og með 4. júní. Hér er um prósess-verk að ræða, ferli og skrásetningu á könnunarleiðangrinum á Töfrafjallið.
Andi sögusviðs skáldsögunnar ríkti yfir hvítum sokkum og flæðandi samtali með einhverjum sérkennilega melankólískum hætti í hæglátu undirspili fjarræns alpahorns, á þeim Andvökum sem undirritaður sótti. Skáldsagan kom út árið 1924 og er eitt af lykilverkum tuttugustu aldarinnar. Hún er sviðsett á alþjóðlega berklahælinu Berghof í Davos í Sviss á tímum fyrri heimsstyrjaldar. Í henni má skynja kortlagningu á vissum þáttaskilum í evrópskri menningu og samfélagi, líkt og himininn yfir Berghof sé fullur af deyjandi táknum og sýnilegum örvarskeytum.
Meðan ég var með Virgli hátt uppi í fjallinu, sem græðir margar sálir, og klifraði svo niður í gegnum ríki dauðra, voru sögð við mig spádómleg orð um framtíð lífs míns, þó að ég finni mig sjálfan svo þveran gegn höggum tilviljana að það myndi bara gleðja mig að heyra hvað örlögin hafa mér upp á að bjóða, því örvarskeyti sem sést er höggminna.
Úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante í þýðingu Erlings E. Halldórssonar.
Vísanir og útúrdúrar verksins, samræðan um þræðina sem í því er að finna og óvæntar hliðar á samkrulli fræðanna – fagurfræðilegra þanka í anda hugrænna fræða (e. cognitive science) sem svífa á vængjum hins listræna frelsis í frjálsu rými „handan rannsókna“ akademíunnar – leiddu af sér áhugaverðar medítasjónir, en þær kröfðust um leið þolinmæði. Gjörningur af þessu tagi krefst þátttöku en fyrst og fremst tíma áhorfandans/gestsins. Og það vekur umhugsun um það erindi sem slík samræðu og prósess list á við samtímann hér og nú; í byrjun júlí rak á fjörur Ísfirðinga annað verk af sama toga, í sýningarrýminu Slúnkaríki í Edinborg, þar sem Samsæti heilagra var kynnt, ferilverk sem byggir á skrásetningu samræðna sem unnið er af Bryndísi Hrönn Ragnarsdóttur og Gunnhildi Hauksdóttur. Það þarf þolinmæði til að taka inn verk á þessum forsendum og stundum hæpið að þau geti fúnkerað fyrir óinnvígða; en þannig fer jú víst og oftast með upplifun og mat á því sem fram fer í hinu helgaða rými almennt. Listin er mysterion og þannig í beinum tengslum við gjörninga og tákn sem fela í sér handanheim, það sem stendur á bakvið einfalda helgisiði er heimsmynd sem hefur þróast; cultíverast; vaxið og orðið til úr menningu sem krefst einhverskonar sameiginlegs útgangspunktar og grundvallar. Þessvegna erum við hljóð í leikhúsinu – eins og í kirkjunni – og við klöppum þegar lag eða tónverk er búið á tónleikum. Við þurfum að vera þolinmóð til að geta öðlast skilning. Til þess að læra að njóta.
Patient medication: Töfrafjallið sjálft
Birna:
Sagan fjallar um ungan mann, skipaverkfræðinginn Hans Castorp, sem leggur upp í þriggja vikna heimsókn til frænda síns á berklahælið Berghof. Dvölin reynist verða að sjö árum og þarna uppi kemst þessi venjulegi maður, eins og sögumaður kallar söguhetjuna, í snertingu við kraftmiklar birtingarmyndir sköpunarkrafts og sjálfseyðingar; frjósemi og hnignunar; lífs og dauða.
Á Berghof verður hann einnig vitni að – og smám saman þátttakandi í – heimi hugmyndanna en þarna uppi á sér stað viðvarandi og sóttheit samræða tveggja Berghofsbúa um líf manneskjunnar og samfélag á þessu stigi í veraldarsögunni og það með hliðsjón af vestrænni siðmenningu og afdrifum hennar á tímum fyrri heimsstyrjaldar. Þarna uppi verður Hans einnig fyrir ástinni með þeim afleiðingum að yfir hann dynur flóðbylgja skynjunar – líkt og hann vakni til vitundar um útsýnið hið innra og þar með óendanlega víðáttu lífsins.
Birna segir einnig að það sé ekki gott að segja til um það hver þau margslungnu áhrif af dvölinni á Berghof eru í raun og veru. Því hvað lærir Hans Castorp, þessi maður sem sögumaður kallar einnig umhyggjubarn lífsins, og stöku sinnum kunningja? Kannski snýst könnunarleiðangurinn að einhverju leyti um það – að þreifa á því hvort sýn hans á lífið og manninn talar til okkar í dag; heimsmyndin og mannskilningurinn, þegar niður á láglendið er komið. Hans tekur stefnuna á vígvöllinn í enda sögunnar – arkar út af biðstofunni, að lokinni rannsókn, aftur út í hið ógeðslega líf – þar sem sögumaður missir sjónar af honum og þar með lesendur skáldsögunnar. Og í þessu er jú falin rómantík, fantastík; þrá eftir hinu heilaga, fagra, sanna. Firringin hrein og klár? Ef til vill. En það má líka vera að það sé heillandi að hrífast með á ferðalaginu.
Eitt af því sem skapaði áhugaverðan flöt fyrir mér við efnistök sýningarinnar – hugmyndafræðilegan heim Töfrafjallsins – er að þar er tekist á við spurningar sem við erum að svo mörgu leyti búin að afgreiða „í orði kveðnu“ í al-sekúlíseruðum og kapítalískum heimi (listanna?). Við erum horfin 90 ár aftur í tímann þar sem eimir enn eftir af einhverri tegund af heimsmynd sem gengst við andlegum og þar með þeim þætti kristins arfs sem horfist í augu við grunnþætti kenningarlegs grundvallar hinnar kristnu heimsmyndar; hugmyndina um hið heila og hið sundraða – upprunasyndina.
Erum við öll sjúk? Er samband mannlífsins og hins fagra eða háleita rofið af völdum syndarinnar? Hvar leitum við hins sanna nema í andanum? Er ekki mark takandi á neinu nema „reynslunni“ og getum við deyft okkur svo mjög að við þurfum ekki að taka þátt í hinu sammannlega? Þurfum við ekki að taka ábyrgð á samfélagi, hugsjónum eða hvötum okkar, því hið siðferðilega og fagurfræðilega er allt afstætt?
Takmark könnunarleiðangursins er ekki að svara slíkum spurningum heldur muna eftir þeim. Það er vegna þess að í núverandi kringumstæðum tilvistarinnar ─ sem einkennast að hluta af kæfandi fullvissu um allt og ekkert ─ reynist erfitt að verjast þeirri tilfinningu að tíðarandi umræddrar skáldsögu og undiralda verksins renni á einhvern kynlegan hátt saman við okkar eigin samtíma. Bergmál skáldsögunnar og því verksins sem hér er um rætt er að minnsta kosti þannig að þræðir þeirrar hugmyndafræðilegu gerjunnar sem á sér stað í hjarta Evrópu dagsins í dag og hugarflugsins í Gallerí Úthverfu eru sameiginlegir, bæði leynt sem ljóst, og skapar meðvitund um leyndardóma þolinmæðinnar og smáskammtalækningar í formi listgjörninga við útmörk Evrópu. Maður þakkar fyrir að fá að vera sjúkur, fyrir að fá að dvelja á hælinu, að þarfnast lækningar, að rannsóknin fari fram, og að það sé í manns sjálfs valdi að túlka heilbrigði sitt og lífshamingju að dvölinni lokinni. Hvernig virkaði medicationin, meditationin, mediumið, millispilið? Það virkaði vel, takk – var raunveruleg reynsla sem snerti mig og var áhugaverð sem samfélag og samband – þó að ég hafi ekki fundið þannig til að hún skapaði þær aðstæður að ég umbreyttist, gréti og finndi til þess að það væri mögulegt að vera heilbrigður, frjáls og fagur.