Ég hef aldrei hlustað á Elvis Costello og ekki fundið til neinnar sérstakrar löngunar til að temja mér þann sið – ekki fundist ég verri fyrir að skilja ekki snilldina. Ég hef útskýrt það fyrir sjálfum mér þannig að þótt ég fái fró úr rómantísku þunglyndi þá gildi hið sama ekki um raunsæislegra fúllyndi – að ég leggi það gjarna á mig að hlusta á fólk væla af sársauka, en gefist fljótt upp á að hlusta á sama fólk dæsa yfir vandamálum sínum/heimsins (sérstaklega þegar því fylgir svo mórölsk predikun). Elvis Costello hefur fram til þessa verið í flokki þeirra sem ég tengi annars vegar við andvörp og leiða og andlega uppgjöf – einsog The Smiths – og hins vegar ofspilaða popplagið Oliver’s Army.
Af þessum sökum var ég í Costellósku skapi þegar ég byrjaði að hlusta – fúll og fullur þeirrar sjálfsvorkunnar sem gengur meira út á að heimurinn sé ósanngjarn en að maður sjálfur eigi prívat og persónulega bágt (altso: þetta er ömurlegt líf vegna þess að allir eiga bágt frekar en að það sé bara ég). Það var líka rigning þúsundasta daginn í röð, ég var á leiðinni út að hlaupa og mér var illt í hásininni.
Og kannski var það einmitt þess vegna sem tónlistin var betri en ég átti von á. Kannski þess vegna sem við vorum í samflútti, ég og Elvis. Við félagarnir fúllyndir saman á spani eftir Hnífsdalsveginum. Því þetta er öpptempó plata þótt hún beri fram allan heimsins ósóma í breiðum trogum. Stíllinn minnir á Oliver’s Army – sem var tekið upp sama ár og þessi plata kom út – en lögin eru eðli málsins samkvæmt ekki jafn útjöskuð. Það eru talsverð átök milli heimsósómakvæðanna og gleðilegra útsetninganna – stuð og harmur.
This Year’s Model er sem sagt svokallaður keeper – áhald? viðhald? úthald? aðhald? – og fer beint á vaktaplanið í símanum. Einsog Sindri Eldon sagði um Hafdísi Huld: Mér líður einsog ég hafi eignast nýjan vin.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. This Year’s Model með Elvis Costello hlustaði Eiríkur á meðan hann hljóp eftir Hnífsdalsvegi í rigningu og svo aftur meðan hann eldaði plokkfisk og saltfisksbrandaði.