95: Green River með Creedence Clearwater Revival

Ég gæti mjög auðveldlega átt eftir að verða svona pabbi sem fær sér vodka í kók og hlustar hátt á John Fogerty á leiðinni á árshátíð, dillar sér og pússar leðurskóna. Ég hefði í það minnsta ekkert á móti því. Þetta er voða þægilegt no bullshit rock’n’roll og Fogerty hefur þann galdur á valdi sínu að reisa klisjur upp frá dauðum og láta þær sprikla; stundum þegar hann spilar blúsganginn finnst mér einsog hann hafi bara rétt í þessu verið að finna hann upp. Þetta getur sjálfsagt enginn lengur. Þessi músík – suðurríkjarokk með einhvers konar viðkomu í Bretlandi hjá Yardbirds og skyldmennum þeirra – er dauð, brunnurinn líklega bara þurrausinn. Ætli Springsteen (sem er auðvitað ekki suðurríkjamaður frekar en Yardbirds) hafi ekki verið síðastur? Eða, ég veit það ekki, ég ætla ekki að gefa mig út fyrir að vera betri í rokkættfræði en ég er. Mér varð hins vegar mjög mikið hugsað til þess hvaðan þessi tónlist hefði komið og hvert hún hefði farið. En í dag spilar enginn þetta (nema Springsteen og Fogerty og fimmtán milljón metnaðarlausir ferjutrúbadorar). Kannski er ég að gleyma óvinaböndunum Black Keys og White Stripes.

Tvennt til viðbótar sló mig við hlustunina – annars vegar að sándið væri fáránlega gott (og það í Spotify streymi á 3G neti í Skutulsfirði!), ekkert bara fyrir sinn tíma heldur almennt, og að útsetningarnar verði stöðugt áhugaverðari eftir því sem líður á plötuna (þótt hún sé svo til skotheld frá byrjun til enda), einsog maður fái hreinlega að fylgjast með Fogerty þróast sem lagahöfundi. Engu að síður er uppáhaldslagið mitt eitt af þeim fyrstu, sem hér má heyra flutt í Royal Albert Hall árið 1970 (ári eftir útkomu plötunnar) – og kannski eru einmitt þéttustu lögin þau einföldustu:

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Green River með Creedence hlustaði Eiríkur á meðan hann skokkaði meðfram Hnífsdalsvegi.