93: Sign ‘O’ the Times með Prince

Fyrsta upplifun mín af tónlist var pólitísk, faksjónal, klíkumyndun, pólarísering, einhvers konar ímyndar- og sjálfsmyndarsköpun. Ég var líklega 6 eða 7 ára og stóra systir mín sannfærði mig um að halda með Wham. Ég komst svo að því seinna að allir vinir mínir héldu með Duran Duran, og skipti um lið og tók þátt í að eyðileggja einhverja tombólu eða basar fyrir Whamliðinu. Ég man þetta ekki svo gjörla en þetta mynstur endurtók sig dálítið næstu árin. Á meðan Duran Duran strákarnir (sem sumir voru stelpur) skiptu fyrst yfir í Michael Jackson og síðar þungarokk fóru hinir – sem voru líklega aðallega stelpur – yfir í Prince. Ég segi þetta til að útskýra að þrátt fyrir að ég hafi síðar lært að dá Prince þá hefur hann aldrei tilheyrt mér. Hann tilheyrir systur minni sem var með Lovesexy plakatið utan á herbergishurðinni sinni.

Einsog ævinlega yrkir Prince hér fyrst og fremst um kynlíf með dassi af heimsósóma og trúarlosta – og þannig að það er varla að það sé við hæfi óharðnaðra unglinga (ég veit ekki hvort ég á að þora að tengja Prince-aðdáun systur minnar við að hún hafi orðið móðir ung – það gerði móðir okkar líka og systurdóttir mín, alveg án hjálpar Prince). Og ljóðin talsvert margbrotnari raunar og ágengari en það sem gengur og gerist í kynþrunginni popptónlist síðar – þar má kannski sérstaklega nefna „If I was your girlfriend“ þar sem karlmaður syngur til kærustu sinnar og ímyndar sér að hann væri kærasta en ekki kærasti (þótt hlutar af textanum séu að vísu svolítið einsog Í dag var ég kona eftir Gunnar Dal – sérstaklega þetta með að ef hann væri kærasta en ekki kærasti gæti hann hjálpað henni að velja sér föt og svona).

Á Sign ‘O’ the Times er það hins vegar fyrsti singullinn … nei nú sló ég þessu upp, „U got the look“ var víst þriðji singull á eftir titillaginu og áðurnefndum genderbender. Titillagið er sannarlega gott en það á einfaldlega ekkert í óhamda og óforskammaða gredduna 1 í U got the look.

You’ve got the look, you’ve got the hook
U sho’nuf do be cookin’ in my book
Your face is jammin’
Your body’s heck-a-slammin’
If your love is good, let’s get 2 rammin’ (now)
U got the look, U got the look

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Sign ‘O’ the Times með Prince hlustaði Eiríkur á meðan hann keyrði Ísafjarðardjúp í suðurátt á leið sinni af landi brott.

   [ + ]

1. Prince lét víst einu sinni hafa það eftir sér að hann hefði aldrei í lífinu sóað góðri standpínu.