90: Talking Book með Stevie Wonder

Þessa á ég á vínyl. Eða mamma á hana en ég er með hana í gíslingu í kassa uppi á lofti á Ísafirði. Þegar ég var svona 16-17 ára spilaði ég tvö laganna á henni mjög mikið – talsvert meira en hin. Maybe Your Baby og Superstition eru flottustu fönklög sem ég þekki, án nokkurs vafa, og í sjálfu sér ótrúlegt að þau skuli vera á sömu plötunni. Superstition er kannski pínu ofspilað – allavega í mínu lífi, riffið, sem er spilað á dásemdarhljóðfærið klavínett, er líka rosalegt – og þess vegna laðast ég meira að Maybe Your Baby í dag.

Restin af plötunni er allt í lagi. Ég er dálítið svag fyrir Big Brother – textinn er oft flottur:

Your name is big brother
You say that you got me all in your notebook,
Writing it down everyday,
Your name is I’ll see ya,
I’ll change if you vote me in as the pres,
The President of your soul
I live in the ghetto,
You just come to visit me ’round election time

Minna svag fyrir slögurunum Blame it on the Sun og You Are the Sunshine of my Life. Það má samt ekki skilja sem svo að mér finnist þeir leiðinlegir. En mér finnst graði Wonder betri en ljúfi Wonder. Hann höfðar meira til mín, ekki það ég sé ekki ljúfur, eða alltaf spólgraður … tungumálið er að leiða mig í gönur, ég gefst upp. Mér finnst hröðu lögin betri en hægu lögin. Höfum það þannig. Af hægu lögunum er ég hrifnastur af You’ve Got it Bad.

Það eru alls konar frægir tónlistarmenn sem spila á Talking Book – Jeff Beck, Ray Parker Jr. (sem gerði Ghostbusters lagið) og fleiri. En Stevie Wonder sýnist mér spila megnið af þessu, þar á meðal auðvitað klavínettið og trommurnar í Superstition  – sem þýðir að de facto er bara einn maður á bakvið 99% af rosalegasta grúvi fönksögunnar. Hér er hann samt með hljómsveit að spila þetta í Sesame Street – með tvo gítarleikara, ég held það sé enginn gítar í orginalnum, heldur tvö fléttuð klavínett:

Og Maybe Your Baby:

 

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Talking Book hlustaði hann á skokki eftir bryggjunni í Kiel frá Maritim Hotel niður í bæ.