82: Axis: Bold As Love með Jimi Hendrix

Þar til ég var svona 18-19 ára ætlaði ég að verða gítarleikari. Það voru að vísu alltaf frekar „raunhæfir“ gítarleikaradraumar, snerust að mestu um að „eiga hljóðfærabúð og spila á gítar“ eða „kenna í tónlistarskóla og spila á gítar“. Ég var meira að segja að velta því fyrir mér á tímabili að gerast „fæðingarlæknir sem spilar á gítar“. Ég reyndist hins vegar vita hæfileikalaus gítarleikari, þótt ég gæti í sjálfu sér tileinkað mér eitt og annað þá hafði ég aldrei neina sérstaka tilfinningu fyrir hljóðfærinu, ekki einu sinni næga til að gera þetta svo vel væri í frístundum. Það var því eins gott að ég ætlaði aldrei að verða heimsfrægur gítarleikari. En eftir þetta kann ég afar vel að meta góða gítarleikara og gítarmúsík – ég get meira að segja tekið rispur í hetjugítarleikurum á borð við Joe Satriani og Steve Vai (þótt ég gangist fúslega við því að tónlistin sé frekar mikið rusl – þetta er meira svona einsog að horfa á fólk fara í heljarstökk en njóta listaverka).

Þetta er sem sagt formálinn að því að ég dáði Jimi Hendrix og hlustaði á það sem ég átti með honum í hel. En ég átta mig líka á því núna – öllum þessum árum síðar – hvað aðgengið hefur verið lélegt. Sjálfsagt hefði ég getað pantað alla diskana hans af einhverjum póstlista eða gripið þá þegar þeir fengust í Hljómum eða Hljómborg. Ég átti einn best of disk og tvo tónleikadiska, eina með dóti sem var óútgefið meðan hann lifði, eina tónleikaplötu á vínyl (eða mamma átti hana), og eina tónleika á VHS spólu. En ég átti enga af breiðskífunum hans. Ég hef verið að hlusta á þær síðustu daga og er ekki frá því að þrátt fyrir að á Axis: Bold As Love vanti marga af helstu smellunum hans – Purple Haze og Foxy Lady og Hey Joe og Voodoo Chile og All Along the Watchtower – að þá sé Axis heilsteyptasta platan, mesta „verkið“ af þeim öllum. Meira að segja uppbrotið „She’s So Fine“ þar sem Noel Redding syngur passar einhvern veginn svo ótrúlega vel inn í stemninguna, sem er karnivalísk gítarsirkus.

Ef hægt er að herma þá skringilegu klisju upp á einhvern gítarleikara að gítarinn hafi verið „einsog framlenging af honum“ þá held ég að það hljóti að vera Jimi Hendrix. Ég hef aldrei skilið þennan gítarleik, hvernig hann verður til, hvað er að gerast – hann bara flæðir einsog eitthvert náttúruafl. Það er til fullt af góðum gítarleikurum, fullt af séníum – og margir þeirra hafa einhvern stíl, eitthvað smáatriði sem ekki er hægt að apa upp, eitthvað sem er bara þeirra. En Jimi Hendrix er eiginlega þannig í gegn. Það er ekki einsog hann sé að spila á sama hljóðfærið og allir hinir, ekki einsog hann lúti sömu lögmálum. Frumleiki er eiginlega ekki rétta orðið – einstakleiki, kannski, óeftirhermanleiki. Platan byrjar líka á því að gefa í skyn að hann sé hálfgerð geimvera og hann gaf því alveg undir fótinn sjálfur.


 

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Axis: Bold as Love hlustaði hann á á skokki sínu um Bokedalen skammt austur af Gautaborg.