78: Harvest með Neil Young

Mig minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að Neil Young hafi tekið upp þessa plötu í bakspelkum eftir mótorhjólaslys, útúrdópaður á verkjalyfjum, hallandi sér upp að magnaranum með lokuð augun og beðið þess að þetta helvíti væri búið og hann gæti snúið sér að batanum. Þessu get ég áreiðanlega slegið upp. Augnablik.

Nei. Ég er af kynslóð sem lærði alls konar svona sögur áður en allt stóð á internetinu – margar áður en það var einu sinni til internet. Ekki að það sé ekki satt að hann hafi verið í bakspelku við upptökur, það var bara önnur plata, Live at Massey Hall. Sársaukinn sem ég hef verið að hlusta á í öll þessi ár er alls ekki til staðar. Nema í höfðinu á mér. Þetta kennir mér bara að maður á aldrei að slá neinu upp.

Hvað fleira veit ég hérna. Lagið Alabama – það er áreiðanlega lagið sem Lynyrd Skynyrd voru að svara í Sweet Home, Alabama og sungu:

Well I heard Mister Young sing about her
Well I heard ole Neil put her down
Well, I hope Neil Young will remember
A southern man don’t need him around any how

Þetta stenst. Neil Young syngur í Alabama, sem er gagnrýni á rasismann í Suðurríkjunum:

Oh Alabama
Banjos playing
through the broken glass
Windows down in Alabama.
See the old folks
tied in white ropes
Hear the banjo.
Don’t it take you down home?

Og strákarnir í Lynyrd Skynyrd tóku það sem sagt nærri sér og fannst hann vera að gera lítið úr öllu suðurríkjafólki til að skjóta á nokkra rasista.

En já, annars, frábær plata. Kannski svolítið í styttra lagi samt – 37 mínútur og manni finnst hún eiginlega miklu styttri. Uppáhaldslagið mitt er Needle and the Damage Done:

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Harvest hlustaði hann á hlaupandi í Västerås.