Ég tengi sólóferil Pauls Simon allan við einhvers konar menningarstuld 1. Einsog hann hafi farið ránshendi um afrískan og afrísk-amerískan menningarheim. Sem hann auðvitað gerði. En það er líka ósanngjarnt – þetta er góð tónlist, frábær tónlist á köflum. Bræðingur á Paul Simon og suður-afrískri þjóðlagatónlist. Mér finnst leiðinlegt að vera fúll yfir þessu. Titillagið er klassík, „Diamonds On the Soles of Her Shoes“ er klassík, „You Can Call Me Al“ er klassík – og allt verðskuldað. Paul Simon á þetta alveg … tja kannski ekki skuldlaust en hver er svo sem skuldlaus? Ha? Tónlist og list almennt er auðvitað bölvaður þjófnaður. Viðstöðulaus aðlögun.
Þetta myndband? Ha?
Sem þýðir ekki að það séu ekki valdastrúktúrar. Sem þýðir ekki að hvítir bandaríkjamenn eigi ekki að fara varlega að menningararfi svartra bandaríkjamanna. Svona einsog Þjóðverjar eiga ekki að álykta mikið gegn Ísrael – það er betra að þeir láti það bara öðrum eftir. En það er önnur saga.
Þetta hefur vel að merkja ekki truflað mig með Eminem. En truflar mig við Elvis.
Ég er auðvitað að flækja þetta of mikið. Og auðvitað hefur Paul Simon hugsað þetta líka:
A man walks down the street
It’s a street in a strange world
Maybe it’s the Third World
Maybe it’s his first time around
He doesn’t speak the language
He holds no currency
He is a foreign man
He is surrounded by the sound
The sound
Cattle in the marketplace
Scatterlings and orphanages
He looks around, around
He sees angels in the architecture
Spinning in infinity
He says Amen! and Hallelujah!
Ég gúglaði þessu og uppgötvaði að hann tók plötuna upp í Suður-Afríku og braut þannig á viðskiptabanni sem vesturlönd settu á landið vegna aðskilnaðarstefnunnar – Afríska þjóðarráðið var brjálað. Sem hjálpar ekki til. Það er eiginlega frekar glatað. En platan þykir í senn hafa vakið athygli á suður-afrískri tónlist og stolið af henni þrumunni.
Hér er ágætis grein um þetta allt saman, sem segir meira og gerir það betur en ég get með góðu móti.
Paul Simon mun hafa þótt lélegt fyrsta tónlistarmyndbandið sem gert var við You Can Call me Al og lét gera nýtt þar sem Chevy Chase 2 mæmar allan textann. Það er merkilegt nokk líka einhvers konar menningarþjófnaður, en af öðru og ópróblematískara tagi.
Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Graceland með Paul Simon hlustaði hann hlaupandi um Jonsered, skammt utan við Gautaborg, fyrir nokkrum vikum síðan.
1. | ↑ | Ég hef samt ekki heyrt nema nokkrar plötur – og ekkert síðustu svona 30 árin – kannski er hann löngu hættur þessu |
2. | ↑ | „Það er gaman frá því að segja“ að það munaði minnstu að Chevy Chase hefði orðið trommarinn í hljómsveitinni Steely Dan – hann spilaði á trommur í djassbandi með Walter Becker og Donald Fagen í háskóla, en hætti svo til að gerast frægur grínisti í staðinn. |