80: Odessey & Oracle með The Zombies

„Changes“ með sixtísbandinu The Zombies er eitt af þessum lögum sem ég man ekki hvernig enduðu á tölvunni minni. Kannski var það á einhverjum safndiski. Kannski halaði ég því niður af einhverri heimasíðu. Mig rekur óljóst minni til að hafa kannski fundið það á bloggi Dr. Gunna en það er sem sagt mjög óljóst. Fínt lag, hefur hangið inni á einhverjum playlistum í sjálfsagt 5-6 ár að lágmarki, dettur inn annað veifið.

Ég hélt að þetta væri eina lagið sem ég hefði heyrt með þessari hljómsveit – sem er meira einsog Monkees en Bítlarnir, dálítið ofpródúseruð, en líka metnaðarfyllri lagasmíðar en hjá Monkees. En svo byrjaði alltíeinu „Time of the Season“ sem ég kynntist afar nýverið í sampli hjá Eminem, í besta laginu af síðustu plötu, „Rhyme or Reason“. Þetta grúv er líka svakalegt. Svakalegt. Þótt það væri ekkert á þessari plötu nema þetta eina grúv væri hún alveg peningana virði (Spotify áskriftarinnar, altso).

Ég sakna svolítið Eminems þegar ég hlusta á Zombies útgáfuna – það er kannski synd. En ég er líka að hlusta á þetta úti á hlaupum – það var rigning í dag og ég fékk hryllilegan hlaupasting og var einhvern veginn allur ómögulegur og hefði vel þegið dálítið Eminem attítúd 1 í skiptum fyrir mjúkmennin í Zombies.

Annars veit ég ekkert hvers vegna ég hef ekkert heyrt í The Zombies um ævina. Fyrst þeir eiga 80. bestu plötu í heimi. Það verður einhver poppfróðari en ég að finna út úr því. Ég hélt að allir sem ættu plötu svona ofarlega á lista væru að minnsta kosti af því kalíberi að maður þekkti þá úti á götu. En svo er sem sagt ekki. Kannski eru þeir frægir í hinum siðmenntaða heimi, hver veit.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Odessey & Oracle með The Zombies hlustaði hann á hlaupandi um Hrábæjarskóg í Västerås.

   [ + ]

1. Merkilegt annars hvernig sumar plötur eiga sér staði – ég hlustaði svo mikið The Marshall Mathers LP pt. II í Bonn í fyrra, þar sem ég var að vinna með tilraunaleikhúsi að hljóðljóðagjörningi, sem var æði. Ég var þarna í … kannski tíu daga til tvær vikur og fór mikið út að hlaupa, alltaf með MMII í eyrunum. Tónlistin bókstaflega rennur saman við árbakkana í Bonn.