75: II með Led Zeppelin

Ég held ég kunni öll lögin á þessari plötu á gítar. Eða hafi a.m.k. kunnað þau þegar ég var 19 ára. Allavega mörg. Kannski er það munurinn á Jimmy Page og Jimi Hendrix – með fullri virðingu fyrir þeim fyrrnefnda, sem er einn af allra bestu riffsmiðum 20. aldarinnar: Maður getur hermt eftir Jimmy Page.

Endorfínskt var það fyrsta sem mér datt í hug. Þá var ég að hlaupa með „Whole Lotta Love“ í eyrunum. Nei, bíddu, það fyrsta sem mér datt í hug var hvað þetta er kynferðisleg tónlist. Og ég bræddi með mér eitthvað um samanburð á Led Zeppelin og Prince – án þess að komast að niðurstöðu. Prince er kannski aðallega bara hryllilega graður tónlistarmaður. Led Zeppelin eru hins vegar á köflum klámfengnir, einsog þeir séu að apa upp ástarleiki – Robert Plant fær það í „Whole Lotta Love“.

Fullnægingin (og gítarsóló-monnískotið í kjölfarið) er reyndar epískari á plötunni en á tónleikunum hér fyrir ofan – en þetta er samt flott klippa.

Svo fór ég að hugsa hvað tónlistin væri endorfínsk. Að kannski væri þetta annar rytmi – þótt gólin væru pornógrafísk. Þar spilaði auðvitað inn í hvað mér fannst gott að hlaupa við þetta. Síðast þegar ég fór að hlaupa – með Odessey & Oracle í eyrunum – var ég allur slappur og skelfilegur, fékk svo vondan hlaupasting strax á fyrsta klukkutímanum að ég þurfti að stoppa þrisvar til að pústa áður en ég komst heim, og hljóp samt styttra en venjulega. En núna – með II í eyrunum – var ég hress allan tímann og hljóp talsvert lengra. Og mér finnst ég hafa sótt ýmislegt í músíkina – gott skrið.

Hvað fleira vil ég segja? Ég fékk alveg svolítinn aulahroll yfir Hringadróttinssögureferensunum í Ramble on. Ég velti því fyrir mér hvort mér þætti trommusólóið fræga í Moby Dick vera gott, töff eða tilgerðarlegt – en komst ekki að neinni niðurstöðu. Annars finnst mér eiginlega erfiðast að segja nokkuð um tónlist sem ég hef hlustað mikið á – þótt það sé langt síðan. Mig langar bara að segja pottþétt – ég veit ekki hvort það segir manni neitt. Það er áreiðanlega engin tónlistarkrítík. En þetta svínvirkar.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Led Zeppelin II hlustaði hann á hlaupandi frá Råby til Bäckby og til baka – og villtist á leiðinni til baka.