Það eina bærilega við þessa plötu er umslagið. Það er klassafínt.

100: In the Wee Small Hours með Frank Sinatra

Átakalaus. Litlaus. Ég spurði son minn í aftursætinu hvað honum þætti og hann sagði: þetta er ekki góð músík. Dóttir mín fór að gráta (það gerði hlustunina vel að merkja ekki bærilegri). Konan mín sagði að kannski þyrfti maður að sjá hann syngja þetta til að átta sig á sjarmanum. Horfa í þessi stóru bláu augu (sem ég man reyndar alltaf í svarthvítu).

Er þetta í besta plata Frank Sinatra? Rolling Stone segir að þetta sé 100sta besta plata allra tíma. Ég á vonandi betra í vændum.

Kannski er röddin orðin of íkonísk til þess að hafa nein áhrif – ekki lengur listaverk, frekar en Frelsisstyttan, Móna Lísa og Maístjarnan. Kannski var hún aldrei annað en fágað og fagurt yfirborð.

Textarnir eru auðvitað fabríkkuvella.

In the wee small hours of the morning,
While the whole wide world is fast asleep,
You lie awake and think about the girl
And never, ever think of counting sheep.

(dæmið er valið af handahófi)

Útsetningarnar virðast ganga út á hvernig best sé að nota fiðlur til að kalla fram tilfinningar. Eða tilfinningu, réttara sagt, þessar fiðlur ráða bara við eina einustu tilfinningu. Værukæra, átakalausa rómantík. Og ég fæ það skyndilega á tilfinninguna að þetta eigi við um allt Rat Packið – þeir séu Boyzone síns tíma, ofpródúseruð vella án nokkurs raunverulegs presens. Án „duende“. Mér liggur við að segja að þetta séu ekki lagasmíðar, ekki viljaverk. Er þetta ekki allt sama lagið líka, sama ósjálfráða og ómþýða hrotan?

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. In the Wee Small Hours með Frank Sinatra hlustaði Eiríkur á meðan hann keyrði frá Borgarnesi til Reykjavíkur í rigningu.