Árið 2006 var ég beðinn um að hýsa mann sem ætlaði að koma á Aldrei fór ég suður, rokkhátíð alþýðunnar, á Ísafirði. Líklega var það einhver í ritstjórn Reykjavík Grapevine sem spurði því maðurinn var tónlistargagnrýnandi á þeirra vegum, 23 ára strákur sem var þegar bæði „gamall í hettunni“ og alræmdur fyrir að segja skoðun sína umbúðalaust, af talsverðri ástríðu – einhverjir myndu ekki hika við að segja hrottalega. Það var sjálfsagt að bjóða honum gistingu – árið 2006 var ekki byrjað að falast eftir gistingu í júlí, einsog orðið er núna – og ég hafði af honum ágætis félagsskap þessa daga sem hátíðin stóð. En það sem stendur eftir í minningunni er hversu oft ég var spurður hvort hann hefði sagt eitthvað. Af tónlistarmönnunum sem voru að spila. Hvort Sindri hefði gefið í skyn að honum líkaði eða mislíkaði eitt eða annað. Ég hafði voða fá svör, enda lítið í því að yfirheyra hann, og þá færðist samræðan yfirleitt út í hversu fáránlegt það væri að a) hann væri að gagnrýna enda hataði hann greinilega alla tónlist og b) hann væri að gagnrýna þessa hátíð enda væri þetta non-profit árshátíð tónlistarmanna og rokkhátíð fólksins þar sem eina gjaldið – einsog í fágunarskóla prófessorsins – væri hin skilyrðislausa skylda að vera hress.
Ég man ekki betur en hátíðin hafi fengið bærilega dóma, enda er það öllum ljóst sem vilja sjá að Sindri Eldon hatar ekki tónlist, hann leyfir sér einfaldlega að finna til hennar og segja ærlega frá því í litríku máli.
Þegar hann komst í fréttirnar fyrir fjórum árum síðan eftir að hafa sagt plötu Hafdísar Huldar, Synchronized Swimmers, vera þunglyndisvekjandi og heilalausa – og fá Bubba upp á móti sér – mundu fáir að plötuna sem hún gaf út þar á undan hafði hann dæmt af sams konar ástríðu og afdráttarleysi: „Dirty Paper Cup er stórsigur í lagasmíðum […] Hafdís berar sálu sína í næstum hverju einasta lagi, þannig að jafnvel kjánalegustu línur óma af sætbeiskum heiðarleika og bitlaus pródúseringin verður að algeru aukaatriði; meira að segja banjólínurnar hljóma einsog þær komi frá hjartanu. Niðurstaðan er plata sem er svo persónuleg og vel meint að þegar maður hefur hlustað á hana líður manni einsog maður hafi eignast nýjan vin.“ Þá var að vísu minna kvartað.
Ég mælti mér mót við Sindra á internetinu síðasta sprengidag og byrjaði á að spyrja: Man fólk betur neikvæðu dómana en jákvæðu dómana – er það kannski þess vegna sem fólk heldur að þú (eða Jón Viðar eða Jónas Sen eða aðrir sem eru ekki í stanslausu stuði) þolir ekki tónlist?
„Já, það er í mannlegu eðli að einblína á það neikvæða. Meira að segja þeir sem eru hrifnir af skrifum mínum hafa aldrei hrósað mér fyrir jákvæðan dóm, bara neikvæðan.“
En hvert er hlutverk gagnrýnandans, hver er tilgangur gagnrýninnar – hverju skilar góð gagnrýni eiginlega?
Er þá léleg gagnrýni fyrst og fremst óheiðarleg gagnrýni? Hefur léleg gagnrýni einhverjar sérstakar afleiðingar sem þér koma til hugar?
„Léleg gagnrýni er fyrst og fremst illa skrifuð gagnrýni. Bara þeir sem geta tjáð sig vel geta skilað af sér einhverju sem verulega hjálpar fólki að skilja upprunalega verkið. Þegar gagnrýnandi lýgur til um skoðun sína getur hann vissulega einnig getið af sér eitthvað vont, en aðeins ef hann lýgur því að umrætt verk sé miðjumoð. Sterk skoðun á einn veginn eða hinn vekur mann alltaf til umhugsunar.“
Manni dettur stundum í hug að Ísland sé of lítið fyrir þessa krítísku fjarlægð – þetta verði fljótt svolítið einsog maður færi að gagnrýna maka sinn eða systkini af brútal hreinskilni. Sem hlýtur alltaf að enda með ósköpum. Er kannski ástæða til að vera bara kátur að það skuli vera nokkur kúltúr á landinu, einhver að gera eitthvað – og þá ástæða til að fagna því bara?
Það er kúltúr alls staðar, Ísland er ekkert spes með það. Kúltúr má fagna alls staðar, sem og hér.“
En svo dettur manni líka í hug að eina leiðin til að vera með „samkeppnishæfa“ menningu sé að reka „samkeppnishæfa“ krítík … ?
Það er samt engin afsökun fyrir að reyna ekki að hafa krítískt auga, skiptir ekki máli kvaðan listin kemur. Það er erfitt, en það er persónulega mjög mikilvægt fyrir mig sem gagnrýnanda að dæma alla list óháð því hver gerir hana. Sumum finnst það vera vitfirra, að maður verði að taka stað og stund inn í reikninginn, en ég hef kosið að gera það ekki.“
Mér finnst þetta oft dálítið snúið samt – það er patróníserandi að hossa einhverjum sem á það ekki skilið, en svo metur maður ekki allt með sömu mælitækjum. Ég hef heyrt að Jón Viðar sé til dæmis með annan standard á áhugamannaleikhús en atvinnumannaleikhús – hann rústi aldrei áhugamönnum. Og stundum finnst manni einsog 300.000 manna þjóð geti ekki látið einsog menningin hennar sé öll á prófessjónal stigi. Þetta var til dæmis punktur sem að „daninn dónalegi“ – sem skrifaði fyrir nokkrum árum í Information og sagði að það væri patróníserandi að láta einsog Íslendingar og Færeyingar gætu keppt við hinar norðurlandaþjóðirnar í bókmenntum, ekki vegna þess að við værum svo vitlaus og hæfileikalaus heldur einfaldlega vegna þess að við værum svo fá. Það væri bjarnargreiði að stilla þessum „pínulitlu rauðu rækjum“ upp á hinu stóra veislufati norrænna bókmennta.
En svo er það kannski spurning fyrir hvaða miðil maður er að skrifa – fyrir hvaða lesendur.
Frekar en hvern maður er að dæma.
„Nei, mér finnst þú ættir að dæma eins fyrir alla. Allir eiga sannleikann jafn mikið skilið.“
Þú hefur orð á þér fyrir að vera hálfgerður slátrari – ég man eftir því að þegar þú komst vestur til Ísafjarðar og skrifaðir um Aldrei fór ég suður hafði fólk voðalega miklar áhyggjur af því hvað þú myndir segja. Upplifirðu það að fólk sé hrætt við þig? Því ég upplifði það eiginlega þannig.
„Fólk er alla vegana alltaf jafn sannfært um það að ég hati allt. Vissulega er ég með frekar lokaðan smekk, sem er ein af ástæðunum sem ég hætti að skrifa fyrir Grapevine. Núna er ég eins og Árni Matt, skrifa bara um það sem ég fíla. Læt viðbjóðinn vera og leyfi Bob Cluness að díla við hann.“
„Bíddu… hryllingur að skrifa bara um það sem maður fílar? Því það getur verið ótrúlega fullnægjandi að hrauna yfir eitthvað sem á hraunið skilið, sérstaklega ef það er eitthvað sem manni finnst ótrúlega ofmetið.“
Ég á við að það sé hryllingur ef enginn tekur að sér að gefa neikvæða gagnrýni – ef enginn tekur að sér að vera fúli gaurinn. Það verður svona gleði- og meðvirknistemning. Allir eiga bara að vera hressir.
Mig langar oft að bera ástandið saman við pólitíkina fyrir hrun, þar sem gúddífílingurinn var allsráðandi og einu fréttirnar voru af „velgengni okkar erlendis“ (alveg einsog einu menningarfréttirnar í dag). En svo breyttist reyndar eitthvað við hrunið og þegar fólk byrjaði loksins að tala saman var einsog heiftin ætlaði alla að drepa. Enda hlýtur svona þagnarstemning að verða mjög þrúgandi á endanum – og eina leiðin út úr henni einhvers konar brjálæðiskast?
„Tja … ég held að jákvæðni allra í garð útrásarvíkinganna hafi nú frekar verið byggð á fáfræði. Ég var allavegana of ungur og of upptekinn af stelpum og dópi til að skilja að það væri jafnvel eitthvað „góðæri“ í gangi.
Menningarumfjöllun núna er ömurleg vegna þess að allt er bara eitthvað endalaust plögg. Bandið þitt kemst ekkert áfram nema það sé plöggari í því að plögga viðtöl og umfjöllun, og það myndi náttúrulega enginn plögga neikvæðri umfjöllun.“
En hefur það ekki alltaf verið þannig? Mér finnst mjög skiljanlegt ef einhver metalsveit í Breiðholtinu vill láta vita að hún fái að spila í tólf manna tjaldi á Donington – en maður setur kannski spurningarmerki við búllsjittmæli blaðamannsins sem birtir það. Einsog dagskráin á Donington sé alltaf fréttnæm í Breiðholtinu.
„Fólk „sprakk“ eftir hrun held ég vegna þess að allt í einu voru útlendingar að segja að íslendingar væru fávitar, og það er í eðli fólks þegar slíkt gerist að benda á einhvern annan og segja: „nei, þeir eru fávitarnir.“ Segðu það sem þú vilt um útrásarvíkingana, en vettvangurinn var til staðar fyrir þá.
En já, algjörlega, það ætti að vera á ábyrgð blaðamannsins að segja: „Nei, það er ekki fréttnæmt að allir í Morðingjunum vinni á leikskólum.“ Orwell sagði „Journalism is printing what someone else does not want printed: everything else is public relations“. … if you take my meaning.
Absolút. Tvær spurningar að lokum. Aðeins út fyrir samtalið. Fyrir forvitni sakir. Annars vegar hvað sé það versta sem þú hefur mátt þola vegna gagnrýni – og hins vegar hvað þér finnist um sigurvegara Nordic Music Prize, sem The Knife fengu á dögunum (ef þá nokkuð).
„Það versta sem ég hef mátt þola? Hmmm … mér var nú hótað lífláti einu sinni, en annars hefur þetta allt verið mjög passive-aggressive hatur. Rosa scando og meinlaust. The Knife finnst mér fínt band, ekkert í neinu uppáhaldi, en ég fíla þau samt sem áður. Hörku söngkona á ferð, og ég kann að meta electropopp sem er ekki bara eitthvað blús-skala-runk.“
Tilvitnanir í hliðarreitum eru fengnar úr dómum Sindra í Reykjavík Grapevine annars vegar og af tónlistarbloggi hans hins vegar.
Ljósmyndina sem fylgir hér efst tók Friðrik Sigurbjörn Friðriksson.