Það var auðvitað aldrei við neinu öðru að búast en að nýjasta mynd Lars von Trier myndi fá blendnar móttökur – svo vægt sé til orða tekið. Í þessu tilfelli kom myndin líka út í miðri metoo byltingu, leikstjórinn var sjálfur nýlega verið gagnrýndur af Björk fyrir hegðun sína á tökustað Dancer in the Dark og kvikmyndafyrirtæki hans Zentropa hefur mátt þola harða gagnrýni fyrrum starfsmanna fyrir vinnustaðakúlturinn sem þar þrífst. Af þessum móttökum má auðvitað nefna uppákomuna í Cannes þegar myndin var frumsýnd – en þangað hafði hann auðvitað ekki komið frá því að hafa að verið gerður að persona non grata fyrir að segjast vera nasisti og hafa samúð með Hitler árið 2011. Yfir hundrað áhorfendur gengu víst út, aðrir létu fyrirlitningu sína í ljós með hrópum og köllum í lokin, og ófáir úthúðuðu honum og myndinni á samfélagsmiðlum í beinu framhaldi. Richard Brody, gagnrýnandi The New Yorker, segir t.d. myndina og ögranir hennar vera innantóman viðbjóð sem hann beinlínis segir að áhorfendur ættu alfarið að forðast – og tekur sérstaklega fram að slíkt sé eitthvað sem hann geri annars aldrei. Egill Helgason, sem segist ekki hafa séð myndina, vill meina að Trier hafi „gert margar ljótar og andstyggilegar myndir, en þessi tekur víst öllu fram í leiðindum. Er þá mikið sagt.“
Myndin fékk hins vegar líka jákvæða dóma, t.d. frá öðrum áhorfendum á frumsýningunni sem gáfu henni tíu mínútna standandi lófaklapp, frá gagnrýnendum t.d. Indiewire, Soundvenue BBC, DR, Ekko og Variety ásamt því að Cahiers du Cinema útnefndi hana eina af tíu bestu myndum 2018.
Þessi gagnrýnandi skipar sér tvímælalaust í síðari hópinn og telur myndina ekki einungis meistaralegt útspil eins allra besta og mikilvægasta leikstjóra sem kvikmyndalistin hefur uppá að bjóða, heldur afhjúpi viðbrögðin alvarlegt kvikmyndaólæsi og skilningsleysi á meðölum listarinnar – sérstaklega fyrirbærum eins og íróníu, satíru og allegóríu – hjá stórum hluta nútíma kvikmyndaáhorfenda og gagnrýnenda.
Sést þetta kannski fyrst og fremst í því hvað það fer framhjá ótrúlega mörgum, þrátt fyrir að það megi heita augljóst, að The House That Jack Built er fyrst og fremst kómedía. Af alveg sótsvörtustu gerð vissulega, en kómedía samt sem áður. Ef einhver er enn sannfærður, eftir að hafa séð myndina, að hérna sé „raðmorðingjamynd“ á ferð og metur hana á þeim forsendum þá hefur eitthvað verulega mikið skolast til í skilningnum á því sem myndin býður uppá. Þrátt fyrir að myndin fjalli vissulega um raðmorðingja. Og Trier er augljóslega vel að sér í þeirri kvikmyndagrein – annars gæti hann auðvitað ekki sveigt og mölbrotið allar reglurnar og leikið sér að því að uppfylla aldrei væntingar áhorfenda. Að myndin skirrist við slíkar uppfyllingar ætti ekki að þurfa að koma neinum á óvart í ljósi þess um hvaða leikstjóra hér er um að ræða.
Ekki neitt pyntingarklám
Myndin hefur kaflaskiptan strúktúr þar sem sögupersónan, Jack (Matt Dillon), ræðir við aðra persónu „Verge“ (Bruno Ganz) um líf sitt og feril – það er sami strúktúr og Trier notaði í síðustu mynd sinni Nymphomaniac en líkt og í henni má finna fjölmarga „útúrdúra“ þar sem persónurnar ræða allskyns hluti og atburði úr vestrænni menningarsögu. Jack er vissulega raðmorðingi og fjallar hver kafli um morð sem hann vill meina að hafi verið afdrifaríkt eða mikilvægt. En hann vill meina að morð sín séu mikil listaverk og er þannig eitt höfuðþema myndarinnar eðli listarinnar – eitthvað sem persónurnar ræða í löngu máli í áðurnefndum „útúrdúrum“. Það ætti ekki að vera mikill eða alvarlegur spoiler að nefna að í ljós kemur að „Verge“ er stytting á Virgil – og afhjúpa þannig tengslin við eitt grundvallarmeistaraverk heimsbókmenntanna og vestrænnar menningar. Líkt og í fyrsta hluta Gleðileiks Dantes, er Virgil hérna leiðsögumaður sögumannsins um víti undir lok myndarinnar í hreint út sagt magnaðri senu sem ein og sér gerir The House That Jack Built að mynd sem þarf að sjá. Lars von Trier hefur sjaldan eða aldrei verið í betra fagurfræðilegu formi en þar.
En myndin inniheldur svo sannarlega mikið meira. Það sem vakið hefur mest umtal og neikvæð viðbrögð er ofbeldið. Og myndin inniheldur jú vissulega nokkrar mjög erfiðar senur af hrottalegu ofbeldi, þ.á.m. senu þar sem aðalpersónan, sem barn, klippir löppina af önd (þessari senu hefur PETA þó hrósað í hástert fyrir að vekja athygli á grimmd gegn dýrum).
En það er tvennt sem vekur athygli hér: í fyrsta lagi sú staðreynd að hryllingur þess ofbeldis er ekki neitt svæsnari en í meðal mynd þeirrar kvikmyndagreinar sem nefnd hefur verið pyntingarklám (e. torture porn) – grein sem nýtur mikilla vinsælda eins og fjöldi slíkra mynda, jafnvel heilla sería eins og Saw, eru til vitnis um. Ég myndi raunar segja að hún væri langt frá því að vera á sama róli. Í öðru lagi, ólíkt því sem finna má í þeim myndum, er það hrottalega ofbeldi sem Lars von Trier reiðir hér fram þó algjörlega laust við alla stílíseringu – eitthvað sem gerir það þó mun óþægilegra áhorfs en ofbeldið sem kvikmyndaáhorfendur eru vanir. Alveg eins og kynlífið í Nymphomaniac sem var algjörlega laust við alla erótík, setur hann það fram á einhvern einstaklega banal og óspennandi hátt. En ein háværasta gagnrýnin sem myndin hefur fengið er einmitt að hún sé hundleiðinleg. Hér má velta fyrir sér að hversu miklu leyti slík gagnrýni stafi af því að myndin uppfyllir ekki væntingar áhorfenda til „raðmorðingjamyndar“, væntingar um stílíserað og spennandi ofbeldi. Það mætti jafnvel ímynda sér að Lars von Trier væri að reyna að segja eitthvað með þessu?
Skilst satíra ekki lengur?
Því það er deginum ljósara að myndin, með aumkunarverðri og hreinlega fáránlega hlægilegri og absúrd aðalpersónunni, reiðir ekki fram neins konar dýrkun á ofbeldi, karlrembu og kvenhatri. Maður á hreinlega bágt með að trúa því að gagnrýnendur sem saka hana um slíkt hafi séð myndina. Einhver alheimskulegasta ásökunin sem ég hef rekist á er að leikstjórinn sé ekki einungis að drulla yfir metoo með myndinni heldur sé hún blautur draumur Incel „hreyfingarinnar“ – hvorki meira né minna. Það má svo sannarlega heyra aðalpersónuna reiða fram í myndinni ýmsar algengar og svívirðilegar hugmyndir, skoðanir og sjálfsréttlætingar sem ríma við kvenhatrið, innantómu og gengdarlausu sjálfsdýrkunina og meðfylgjandi skeytingarleysi gagnvart öðrum sem allir sem búa í nútímanum ættu að vera orðnir vel kunnugir. Því er þessi tenging auðvitað hárrétt. En að greina ekki satíruna í því hvernig Lars von Trier setur þetta fram er merki um svo alvarlegt skilningsleysi á list að það vekur hreinlega upp miklar (eða öllu heldur enn meiri) áhyggjur af stöðu hennar í dag. Satíran beinist auðvitað einnig og ekki síst að forseta Bandaríkjanna Donald Trump – eða rottukonunginum eins og Trier kallaði hann í fyrstu tilkynningunni um myndina.
Næst umdeildasta senan inniheldur morð á börnum. Hana hafa sumir gagnrýnendur túlkað sem innantóma og viðbjóðslega ögrun leikstjórans – og gott ef ekki merki um sjúklega brenglað hugarástand hans. Hér hlýtur þó að þurfa töluverða og meðvitaða áreynslu til að komast hjá því að sjá satíruna í persónu í veiðigalla með riffil lýsa yfir að hann fyrirlíti veiðar og framkvæma svo fjöldaskotárás – algengur atburður sem er reglulega í fréttunum. Sótsvört kómedía er þetta þó vissulega eins og áður segir.
Lars von Trier hneigir sig eftir The House That Jack Built?
Einhver mikilvægasta vídd myndarinnar, sem virðist einnig fara framhjá óskiljanlega mörgum, er þó sjálfsgagnrýni leikstjórans. Því myndin er einnig sjálfsævisöguleg – eða eins nálægt því og Lars von Trier hefur nokkurn tímann komist. Jack er ekki hægt að leggja algjörlega að jöfnu við Trier, en það er fullkomlega ljóst að í gegnum hann er leikstjórinn að rannsaka eigin galla, vankanta, fordóma, gjörðir og ekki síst einmitt kvenhatur. Morð Jacks, sem hann álítur vera mikil listaverk, eru augljós allegóría um kvikmyndagerð – og reiðir myndin þannig fram áhugaverða meta-rannsókn á eðli kvikmyndanna. Þá eru það sérstaklega myndir Triers sjálfs – sem við sjáum klippur úr í vítinu undir lokin – sem eru hliðstæðan við morð Jacks. Það er ekki einungis Jack sem er að fara yfir feril sinn, skoða húsið sem hann hefur byggt, heldur líka Lars von Trier á sama tíma. Sjálfsskoðun þessi leiðir niður í dýpstu iður helvítis og brennslu í vítislogum. Ég held að það sé erfitt að halda því fram að Lars von Trier sé eitthvað sérstaklega mildur í þessari sjálfsgagnrýni og rannsókn sinni. Jack er auðvitað, eins og áður segir, fáránlegt og hlægilegt flón.
Lars von Trier hefur sagt að þetta sé líklegast síðasta myndin hans, að hann hafi ekki aðra mynd í sér vegna verulega slæmrar líkamlegrar og andlegrar heilsu. Það yrði vissulega mikil synd, en ef svo er er The House That Jack Built, með þessari sjálfsrannsókn og yfirliti, þó magnaður endir á ótrúlegum ferli. En sá ferill byrjaði auðvitað með annari sögu um raðmorðingja, Forbrydelsens element frá 1984.
Í helvíti með Hitler
Hann trollar þó vissulega líka. Þetta er jú Lars von Trier sem við erum að tala um. Myndin inniheldur t.d. beina vísun í frægu uppákomuna á Cannes. Að hann hafi fengið hinn nýlátna Bruno Ganz í hlutverk Virgils sem leiðir hann um víti er auðvitað hægt að skilja sem ákveðið troll. Við erum hérna að tala um Hitler sjálfan, en Trier átti víst að hafa verið nýbúinn að horfa á Der Untergang þegar hann kom með þessa frægu hugleiðingu 2011, að hann hafi samúð með Hitler. Raunar er vel hægt að túlka lokasenuna sem svo að Lars von Trier sé hreinlega að gefa gagnrýnendum sínum fingurinn á alveg hreint epískan hátt.
Hver verður þó að túlka það fyrir sig. Og annað af því heilmörgu sem myndin hefur uppá að bjóða – ég hef hér aðeins rétt tæpt á því stærsta sem stendur uppúr og krafsað í yfirborðið. Sú túlkun mætti þó helst byggja á raunverulegu áhorfi á myndina og náinni athygli á því sem leikstjórinn færir þar fram. Þótt þessar hneykslanir og fordæmingar fari að sjálfsögðu ekkert fyrir brjóstið á honum sjálfum. Lars von Trier er einhver alræmdasti enfant terrible kvikmyndasögunnar og segir berum orðum að hann yrði gjörsamlega eyðilagður ef myndir hans myndu vektu eintóma hrifningu og aðdáun – þessi gríðarlega sterku neikvæðu viðbrögð eru að hans mati merki um að hann hafi staðið sig vel og gert eitthvað af viti. En ögranir hans – og endalaus dólgur, svo gripið sé til tæknilega heitsins – hafa ávallt verið mun meira en innantóm fíflalæti, öfuguggaháttur eða einhver sjúkleg skemmtun fyrir einungis hann sjálfan eins og hann hefur ætíð verið sakaður um. Lars von Trier, í The House That Jack Built sem og öðrum myndum sínum, er ávallt óhræddur við að kafa niður á botn dýpstu og óþægilegustu svæða mannssálarinnar – og hlífir engum í framsetningunni á því sem þar er að finna. Sem einhver sem ber virðingu fyrir mikilvægi kvikmyndalistarinnar og hvers hún er megnug þá er það einfaldlega sárt að horfa upp á slík mikilvæg, meistaraleg, en þó auðvitað verulega krefjandi verk, mæta þessum yfirborðskenndu upphrópunum – sem byggja á lítilli sem engri tilraun til að skilja þau.
Og ég mæli eindregið með því að maður geri slíka tilraun. Því hér er vissulega á ferðinni brenglað, krefjandi og óþægilegt verk, en einnig drepfyndin og hárbeitt satíra, gríðarlega djúpt, flókið, írónískt, marglaga og á endanum stórfenglegt meistaraverk sem einungis Lars von Trier hefði getað gert og sýnir hvers vegna hann er einn allra mikilvægasti núlifandi leikstjórinn og jafnframt einn frumlegasti snillingur sem kvikmyndalistin hefur nokkurn tímann átt.