Samfélagið gerir ráð fyrir því í fjölmörgum tilfellum að við samsömum okkur einhverju eða einhverjum og höldum með viðkomandi. Þetta á við um enska boltann, pólitíkina og margt fleira. En er það of langt gengið að „halda með“ rithöfundi? Hvort sem svarið er já eða nei, þá er Jónas Reynir Gunnarsson að austan og þess vegna held ég með honum. Það er ekkert víst að það sé honum sjálfum til neinnar sérstakrar þægðar en Jónas Reynir er einn of „okkar fólki“ í hópi rithöfunda þjóðarinnar. Fulltrúi Austfirðinga á þeim Ólympusartindi sem hýsir atvinnufólk í ritlist.
En ég held að við fyrir austan séum ekkert ein um að líta þessum augum á Jónas. Það hafa fáir ef einhverjir haslað sér völl í ritlistinni með eins afgerandi og djörfum hætti og hann gerði í fyrra þegar út komu nánast samtímis tvær ljóðabækur, frumraunin Leiðarvísir um þorp og verðlaunabókin Stór olíuskip, auk þess sem hann sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Millilending. Allar fengu bækurnar lofsamlega dóma og ljóst að þessi nýliði hafði mætt í partíið, án þess svo mikið sem að gera boð á undan sér, og var bara farinn að éta snittur og drekka hvítvín með Hallgrími Helga, Gerði Kristnýju, Auði Övu og öllum hinum. Það er auðvelt að halda með svona manni.
En annað skiptið getur reynst snúnara. Það vita allir að það er erfiðara að verja titil en vinna hann einu sinni. Það var því með talsverðri eftirvæntingu sem ég hóf lestur Krossfiska, sem er önnur skáldsaga Jónasar. Og skemmst er frá því að segja að ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum.
Aðalsögupersóna Krossfiska er Daníel, ungur maður sem hefur farið í gegnum lífið án mikilla vandkvæða. Unnið fyrir sér sem fyrirsæta og dundað við nám en þegar bókin hefst er hann af óljósum ástæðum að missa tökin á lífi sínu. Við sögu koma ýmsar aðrar persónur sem með einum eða öðrum hætti hafa afskipti af lífi hans. Flestar hafa það að yfirlýstu markmiði að leggja honum lið en eftir því sem atburðarásinni vindur fram fer lesandinn að efast um fyrirætlanir þeirra. Á endanum var ég löngu hættur að treysta einni einustu þeirra. Raunar ekki aðalpersónunni heldur.
Ég ætla ekki að rekja söguþráð bókarinnar frekar enda er framvinda sögunnar sumpart ekki aðalatriði bókarinnar, heldur sá uggur og ónot sem höfundurinn byggir upp smátt og smátt. Stemming frekar en atburðir er það sem gerir bókina að því sem hún er. Höfundurinn flakkar á milli draums og veruleika, fyrir vikið er ekki neinu að treysta og þannig skapar hann hvata fyrir lesandann að leita áfram, halda áfram að lesa í von um fast land undir fætur. Þetta hljómar kannski ekki vel, en fyrir mig sem lesanda var þetta fullkomið. Með hinu óljósa flakki milli draums og veru, hversdagsleika og óhugnaðar, daðrar höfundurinn við einskonar töfraraunsæi í skrifum sínum. Þegar ég var að leita að líkingum datt mér helst í hug að þetta væri svolítið eins og ef Gyrðir Elíasson hefði skrifað Trainspotting en án heróíns. Er eitthvað vit í því?
Krossfiskar er alvöru bók eftir alvöru rithöfund fyrir alvöru lesendur. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvað kemur næst.
Dómurinn birtist á prenti í Austurglugganum.