Aldrei fór ég suður eignast nýja „foreldra“

Tilkynnt var um nýja styrktaraðila – eða „foreldra“ – á blaðamannafundi rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður í morgun á Ísafjarðarflugvelli. Starafugl var á svæðinu. Hátíðin, sem kostar peninga, er að þessu sinni styrkt af fimm til sex aðalforeldrum, eftir því hvort maður telur Ísafjarðarbæ með eða ekki. Þeir eru (auk bæjarfélagsins) Flugfélag Íslands, Landsbankinn, Orkusalan, Samskip og Orkubú Vestfjarða. Hátíðin verður að vanda haldin á páskahelginni, föstudag og laugardag 18.-19. apríl. Í tilkynningu frá aðstandendum kemur fram að fyrirtækin – það er að segja „foreldrarnir“ – auk sjálfboðaliða og tónlistarfólks (sem gefur vinnu sína) geri þeim kleift að sleppa því að rukka aðgangseyri. „Allt þetta gerir hátíðina að því sem hún er, en svo þarf einhver að halda í hendina og vísa veginn, til þess eru foreldrar. Í ár hafa orðið örlitlar breytingar á hópi foreldra og erum við mjög stolt af þessum hópi“.

Líkt og hefð hefur myndast fyrir voru samningar undirritaðir á bakinu á Pétri Magnússyni, sem er betur þekktur sem „fallegi smiðurinn“.

Líkt og hefð hefur myndast fyrir voru samningar undirritaðir á bakinu á Pétri Magnússyni, sem er betur þekktur sem „fallegi smiðurinn“.

Flugfélag Íslands hefur styrkt Aldrei fór ég suður frá upphafi, en fyrirtækið var stofnað árið 1997 í kjölfar samruna samruna innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands. Fyrirtækið var rekstrareining innan FL Group en er í dag hluti af Icelandair Group. Meirihluti flugferða eru á milli Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar.

Landsbankinn – áður Landsbanki Íslands – er meðal gamalgrónustu fyrirtækja landsins og upprunalega stofnað árið 1885, en þá á annarri kennitölu. Undir sínu fyrra nafni fór bankinn í þrot um og upp úr „hruninu“ – en felldi niður þjóðernið samfara þjóðnýtingu og tók upp ákveðinn greini. Landsbankinn er stærsta fjármálafyrirtæki landsins með víðtækasta útibúanetið. Landsbankinn veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasamböndum.

Að því er fram kemur á heimasíðu Orkusölunnar er hlutverk fyrirtækisins að framleiða, kaupa og selja rafmagn til heimila, fyrirtækja og stofnana um allt land. Fyrirtækið ku leggja „áherslu á samkeppnishæft verð, einfalda þjónustu og jákvæða þjónustuupplifun.“

Orkubú Vestfjarða rekur 7 vatnsaflsvirkjanir, sem framleiða u.þ.b. 90.000 MWh á ári, sem er um 60% af orkunotkun Vestfjarða. Flutningskerfi Orkubúsins samanstendur af 1,036 km löngum rafmagnslínum og jarðstrengjum og er viðhaldið af starfsmönnum þess.Fyrirtækið starfrækir gæðakerfi sem samræmist kröfum í ISO 9001: 2008. Fyrirtækið var fyrsta rafveitan, sem fékk viðurkennt öryggisstjórnunarkerfi vottað af Mannvirkjastofnun árið 1999. Fyrirtækið rekur einnig innra eftirlitskerfi með sölumælum samkvæmt heimild frá Neytendastofu.

Samskip eru íslenskt skipafélag sem stofnað var árið 1991 á grunni skipadeildar Sambandsins. Skipadeildin sinnti millilandasiglingum til og frá landinu í rúmlega hálfa öld. Einskorðaðist starfsemi Samskipa fyrst við millilandasiglingar til og frá Íslandi og þjónustu tengda þeim en fljótlega voru opnaðar eigin skrifstofur í Danmörku, Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Noregi og Svíþjóð. Hefur vöxtur félagsins verið mikill síðan þá og starfrækir félagið skrifstofur í Evrópu, Asíu, Norður- og Suður-Ameríku auk Ástralíu. Á heimasíðu Samskipa kemur fram að fyrirtækið taki samfélagslega ábyrgð og sýni það í verki með virkri þátttöku í samfélaginu, enda séu flutningafyrirtæki einn af máttarstólpum samfélagsins og gegni þýðingarmiklu hlutverki.

Líkt og á undanförnum hátíðum verða svo nokkrar „hljómsveitir“ að spila. Þær eru:

Retro Stefson
Helgi Björnsson og stórsveit Vestfjarða
Maus
Mammút
Grísalappalísa
Tilbury
Hermigervill
Sigurvegarar músíktilrauna 2014 (að því gefnu að þeir vilji koma)
Dj. Flugvél og geimskip
Glymskrattinn
Highlands
Cell7
Contalgen Funeral
Rhythmatic
Markús and the Diversion Sessions
Lón
Kött grá pjé
Þórunn Arna Kristjánsdóttir og búgíband Skúla mennska
Dusty Miller
Sólstafir
Lína Langsokkur
Hemúllinn
Rúnar Þórisson
Kaleo
Snorri Helgason