Ein af bestu og vanmetnustu kvikmyndum síðasta árs var The Selfish Giant (Clio Barnard, 2013). Þrátt fyrir að myndin hafi verið í áttunda sæti á lista Sight & Sound Magazine yfir bestu myndir ársins 2013 fékk hún ekki verðskuldaða athygli hjá almennum kvikmyndaáhorfendum.
The Selfish Giant er innblásin af samnefndu ævintýri Oscar Wildes og segir frá vinunum Arbor (Conner Chapman) og Swifty (Shaun Thomas) sem búa í niðurníddu fátækrahverfi í Bradford í Norður-Englandi. Arbor glímir við mikinn athyglisbrest sem kemur honum oft í vandræði og af þeim sökum á hann erfitt uppdráttar í skólanum. Dag einn eru nokkrir krakkar að stríða Swifty á grimmilegan hátt og þegar Arbor kemur honum til hjálpar hefjast slagsmál sem enda með því að þeim er báðum vikið tímabundið úr skólanum. Í framhaldinu áttar parið sig á því að þeir geta grætt pening á að safna saman og selja brotajárn til manns í hverfinu, Kitten (Sean Gilder).
Í fyrstu gengur þeim allt í haginn og finna söguhetjurnar sig vel í nýja hlutverkinu. Kitten græðir peninga á því að keppa í veðreiðum áhugamanna og þegar að hann áttar sig á því hversu laginn Swifty er með skepnur býður hann honum að keppa fyrir sína hönd. Þessi samskipti hafa neikvæð áhrif á Arbor. Auk þess að verða afbrýðissamur yfir því hversu vel Kitten líkar við Swifty verður hann einnig sífellt peningagráðugri. Endar þessi togstreita með skelfingu fyrir alla.
The Selfish Giant fellur inn í sterka hefð enskra sósíal-realístískra mynda líkt og Kes (Ken Loach, 1969) og núna nýlegar Fish Tank (Andrea Arnold, 2009). Þessi frásagnarhefð nær alla leið aftur til Dickens og eru áhrifin þaðan augljós í myndinni, bæði í samúð leikstjórans með hinum undirokuðu sem og í aðalpersónunum sem bera skýr einkenni hins mikla enska rithöfundar. Raunar hefur leikstjórinn, Clio Barnard, þegar verið nefnd arftaki Ken Loach af nokkrum kvikmyndagagnrýndendum. Það er kannski fullsnemmt að taka svo djúpt í árinni (The Selfish Giant er fyrsta leikna kvikmynd hennar í fullri lengd, en fyrir utan hana hefur hún gert heimildarmynd, The Arbor sem kom út 2010, auk þriggja stuttmynda), en titillinn er þó alls ekki fjarstæðukenndur.
Sögusviðið er England David Camerons, England óheftrar markaðshyggju, kapítalisma og niðurskurðar. Myndin sýnir þannig kostnaðinn sem þessar stefnur hafa haft í för með sér án þess að draga neitt undan. Landslagið er fullt af vonleysi og eymd, atvinnuleysi, ofbeldi og alkóhólisma, en þrátt fyrir þennan skítuga og ruslfyllta bakgrunn nær leikstjórinn samt sem áður að sýna fegurðina í honum. Það er alltaf einhver vonarglæta á bak við svartsýnina og þetta endurspeglast hvað best í söguhetjunni Arbor. Við fylgjumst með inngöngu hans í samfélag kapítalisma og græðgi og færast í átt til einhvers konar hjálpræðis í lokin. Þannig má segja að myndin hafi bæði marxískar og kristilegar rætur.
Þrátt fyrir að marxismi og kristni séu vissulega gjörólíkar hefðir, má samt sem áður greina augljós tengsl þar á milli. Báðar hefðir einblína á réttlæti, baráttuna gegn kúgun, von eftir endanlegum friði í framtíðinni, hjálpræðis hinna undirokuðu o.s.frv. Margir hafa reynt að hreinsa marxisma af öllum kristilegum undirtónum þar sem litið er á slík áhrif sem skaðleg eða hreinlega neyðarleg. Ég tel þó þessi tengsl vera styrk frekar en veikleika. Því er það mikill misskilningur að þessar hefðir séu á einhvern hátt andstæðir pólar, eins og The Selfish Giant útlistar á áhrifaríkan hátt með því að sækja áhrif sín til beggja.
Samfélagið sem birtist í myndinni er samfélag kapítalismans þar sem „allir gamlir og grónir lífshættir hafa liðið undir lok, ásamt fornhelgum hugmyndum og lífsskoðunum, sem eru þeirra fylgifé“, svo gripið sé til orðalags Marx. Öll samskipti byggjast á tortryggni og græðgi. Mikilvægi menntunar og menningar er ekkert. Hið æðsta markmið er uppsöfnun og gróði. Þetta er samfélag harðneskjulegrar samkeppni þar sem „hinir hæfustu komast af“ með því að traðka aðra niður í drulluna. Söguhetjurnar okkar lifa á úrgangi kapítalismans, rusli og brotajárni sem enginn annar kærir sig um. Þetta rusl, sem Arbor og Swifty þurfa stundum að hætta lífi sínu og limum fyrir, kaupir Kitten síðan á slikk.
Þannig má líta á samskipti Kittens við Arbor og Swifty sem dæmisögu um efnahagsleg samskipti undir kapítalisma. Arbor og Swifty selja líkama sína og vinnu til Kitten, sem arðrænir þá með því að borga þeim lúsarlaun fyrir án þess að taka neina áhættu sjálfur. Í fyrstu á Arbor mjög vel heima í slíkum samskiptum en þegar líður á myndina fer gróðahyggjan smátt og smátt að ná yfirhöndinni yfir vinskapinn við Swifty sem er ónæmari fyrir áhrifum hennar. Þegar Swifty reynir að hjálpa Arbor úr klandri sem hann hefur komið sér í kostar það hann lífið.
Eitt af því athyglisverða við myndina er að hún útlistar ekki aðeins eyðileggingaráhrif kapítalismans á fólkið á botninum, öreigana Arbor og Swifty og fjölskyldur þeirra. Hún sýnir einnig hversu neikvæð áhrifin eru á kapítalistann sem græðir á þeim, Kitten. Kapítalisminn hefur líka gert hann ómennskan og samskipti hans við alla ráðast af græðgi og svindlum. Þrátt fyrir að hann sé þorpari myndarinnar, og sá sem veldur dauða Swiftys, er augljóst að samúð leikstjórans nær einnig til hans. Myndin útlistar þannig fullyrðingu Marx um að undir kapítalisma séu bæði öreiginn og kapítalistinn firrtir. Það er enginn sigurvegari.
Þrátt fyrir að leikstjórinn hafi sagt að myndin sé aðeins mjög lauslega byggð á ævintýri Oscar Wildes má greina lykilþema sögunnar í myndinni. Því er ástæða til að ræða það stuttlega.
Saga Wildes segir frá risa (Kitten) sem á fallegan garð þar sem börnin í hverfinu (Arbor og Swifty) vilja leika sér þegar þau eru á leið heim úr skólanum. Risinn bregður sér frá í sjö ár til að heimsækja frænda sinn og þegar hann kemur aftur verður hann brjálaður út í börnin og byggir vegg sem kemur í veg fyrir að þau geti leikið sér í garðinum hans. En þá hættir sumarið að koma í garðinn hans, það stoppar við vegginn sem hann hefur reist. Dag einn verður hann var við að sumarið hefur náð í gegn, enda hafi börnin fundið leið í garðinn. Hann sér eftir gjörðum sínum og hleypur í átt að börnunum til að taka á móti þeim. Þá hlaupa þau öll í burtu nema einn strákur sem verður um kyrrt, sitjandi uppi í tré. Risinn segir við strákinn að börnin eigi núna garðinn og rífur niður vegginn. Uppfrá þessu leika börnin sér oft í garðinum, en þessi tiltekni strákur kemur aldrei aftur og veldur það risanum nokkurri sorg. Þegar risinn er orðinn gamall sér hann strákinn á ný. Hann tekur eftir að strákurinn er með sár á höndum og fótum og fyllist í fyrstu reiði yfir að einhver hafi gert honum mein. En strákurinn, sem við sjáum nú að er enginn annar en Jesú Kristur, segir við hann að fyrst risinn hafi eitt sinn leyft honum að leika sér í garðinum sínum mun risinn nú fá að leika sér í garði stráksins, paradís.
Ævintýri Wildes er því einskonar kristileg dæmisaga og það þema má einnig finna í kvikmyndinni, þó ekki sé það nærri eins augljóst. Í lok myndarinnar, eftir dauða Swiftys, finna bæði Kitten og Arbor eins konar bjargræði, hvor á sinn hátt, þótt samskiptin hafi lagt líf þeirra beggja í rúst. Þannig er Swifty kristfígúran úr dæmisögunni. Fórn hans leiðir til frelsunar hinna persónanna. Kitten fyllist sektarkennd yfir örlögum Swiftys, tekur byrðina á sig og gefur sig fram við lögregluna. Arbor vill ekki ræða við neinn fyrren hann fær fyrirgefningu frá móður Swiftys. Þannig ná þeir báðir að losna undan eigingirninni sem titill myndarinnar vísar í. Þessi lausn er þó ekki útlistuð með nákvæmum hætti svo hún er að miklu leyti undir túlkun áhorfandans komin. En henni fylgir eins konar von fyrir söguhetjurnar, þvert ofaní svartsýnina, eymdina og eyðileggingarmátt græðginnar sem við höfum orðið vitni að.
***
Það er synd ef The Selfish Giant fær ekki þá athygli sem hún á skilið. Ég leyfi mér að fullyrða að fáar myndir hafa, á síðari árum, sýnt á jafn afdráttarlausan hátt líf hinna undirokuðu í síðkapítalísku ríkjum nútímans. Skilja má myndina sem eins konar sósíalíska dæmisögu, en vegna tengsla hennar við sögu Oscar Wildes, er einnig viss ævintýrablær yfir henni, með sterkum kristilegum undirtónum.