Fyrir þá sem ekki vita þá bý ég í BNA, í Connecticut fyrir nákvæmnissakir. Hér í landi hefur eins og annars staðar verið talsverð ólga meðal vinnandi fólks en ólíkt Íslandi eiga flestir vinnandi menn hér ekki góð verkfæri til að sækja rétt sinn og því síður til að auka kjör sín. Verkföll hér eru því fátíð og þykir tíðindum sæta að það sem af er þessu ári hafa orðið þrenn kennaraverkföll í West Virginia, Oklahoma, Colorado og líkur eru á því að það fjórða hefjist í Arizona (þegar þetta er ritað).
Í Oklahoma lét ríkisstjórinn, Mary Fallin, hafa eftir sér að kröfur kennara fylkisins væru eins og kröfur unglings sem vildi fá betri bíl. Hvað í ósköpunum átti hún við með þessu? Kennarar þar eru að eiga við vandamál eins og að í sumum bæjarfélögum eru ekki til fjármunir til þess að borga rafmagnsreikninga skólanna. Því hefur verið brugðið á það ráð að hafa skóla í aðeins fjóra daga í viku hverri. Algengt er að nemendur þurfi að deila námsbókum sem margar hverjar vantar blaðsíður. Eins er mikill atgervisflótti á meðal kennara þar vegna þess að mikill munur er á launum kennara í Oklahoma og nágrannafylkja.
Ég veit ekki með þig lesandi góður, en mér þykir vera mikill munur á þessum kröfum kennara og ósk unglings um betri bíl. Nemendur í Oklahoma eiga rétt á því að skólar þeirra séu opnir fimm daga í viku. Þeir eiga rétt á því að hafa námsgögn sem koma þeim að fullu gagni. Kennarar eiga líka rétt á því að krefjast mannsæmandi launa. Afnot af bifreið, jafnvel hjá fullorðnu fólki, eru forréttindi.
Nú væri hægt að afskrifa þessi ummæli ríkisstjórans sem lélegan brandara í ætt við skrif Davíðs Oddssonar ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra í þá áttina að Katrín Jakobsdóttir væri gluggaskraut, þ.e. viljalaust verkfæri Steingríms J. Sigfússonar. En nei, það held ég ekki, þessi ummæli eiga nefnilega meira skylt við ummæli Bjarna Benediktssonar um fjármálalæsi.
Það sem bæði ummæli Mary Fallin og Bjarna Benediktssonar eiga sameiginlegt er að með þeim sýna þau okkur að þau líta á almenning sem börn. Fullorðið fólk sem á erfitt með að ná endum saman af launum sínum eru í þeirra augum ekki fullgildir meðlimir samfélagsins. Ennfremur sýna slík orð og hugmyndir okkur það að fólk eins og Fallin og Bjarni telur almenning ekki hafa mikið fram að færa í efnahagslíf þjóðar. Í þeirra augum er almenningur aðeins akur fjárplógsmanna.
Fjármálalæsi Bjarna hefur svo ekkert með það að gera að raunverulega hjálpa einum né neinum. Heldur er það tilraun til þess að búa til þá tálsýn að aðstoð sé á borðinu. Eina gjörðin sem raunverulega getur hjálpað tekjulágum einstaklingum er að laun þeirra nái utan um í.þ.m. grunnútgjöld þeirra. Ekkert námskeið í fjármálalæsi getur breytt veruleika fólks sem hefur ekki nógu há laun til að greiða fyrir bæði okurleigu og mat. Eina breytingin sem kemur fólki í slíkri stöðu að gagni er aukning á ráðstöfunarfé.
Raunveruleg gjörð sem einhver í stöðu Bjarna Benediktssonar getur tekið sér fyrir hendur er að hækka persónuafslátt á skatta, þannig að fólk á lágmárkslaunum, bótum og lífeyri borgi helst enga slíka. Hann gæti, með öðrum orðum, beitt sér fyrir réttlátara skattkerfi. Það er löngu kominn tími til þess að þeir sem fá meira úr samfélaginu borgi meira til þess. Og þá er ég að tala um prósentur. En Bjarni og aðrir í hans stöðu hafa engan áhuga á slíku.
Það er verið að búa til stöðu þar sem stór hluti af vinnuaflinu hefur varla í sig og á. Það hefur rétt svo efni á húsaskjóli hvað þá meira. Það á sér enga von um bætt ástand í framtíðinni. Það hefur ekki ráð á því að senda börnin sín í framhaldsskóla. Fólk í slíku ástandi er ekki börn heldur þrælar. Fjármálalæsi mun ekki breyta því.
Ekki skulum við gleyma kaldhæðninni í því hver það er sem færir okkur þessi skilaboð. Þetta er jú pabbastrákur sem á síður en svo glæsilega fjármálasögu að baki, maður sem fékk aðstoð sterkefnaðs föður síns við að greiða niður tugmilljóna skuldir sínar af vanhugsuðum áhættufjárfestingum. Maður sem kom að vafasömum fléttum til að koma sér og sínum frá ábyrgð á lánum sem enginn vilji var til að greiða. Fólkið sem hann vænir um slæmt fjármálalæsi hefur enga aðstöðu til þess að beita slíkum brögðum. Margur heldur mig sig.
Það er greinilegt að þeir sem sitja í topplagi stjórnmála og fjármála heimsins líta á hinn vinnandi mann sem ungling sem leggur ekki mikið til heimilisins. Þeir sjá hann sem heimtufrekann og skapillann sóða sem á fátt gott skilið. Allt sem plagar hann er honum sjálfum að kenna en engum öðrum. Á meðan stritar þetta fólk, við litlar þakkir, í illa launuðum en mikilvægum störfum sem við gætum ekki verið án í nútímasamfélagi við kringumstæður sem oft eru ekkert annað en nútímaútgáfa af þrælahaldi. Því ef tekjur manns sjá manni fyrir engu öðru en nauðþurftum þá er maður ekki barn, kannski frekar vel haldinn þræll.