Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Um daginn fékk ég tölvupóst þess efnis að nemendamótsfélag Verzlunarskóla Íslands vildi fá gagnrýnendur á sýningu sem það eru að setja upp. Ég horfði í spurn um stund á nafn þessa félags áður en ég áttaði mig á því að Nemó er stytting á nafni nefndar sem hljómar eins og hún hafi verið starfrækt um árabil. Og þannig var mér þrýst inn í atburðarrás sem dró mig á 11 bekk í Háskólabíó, til að horfa á Nemósýningu, eitthvað sem ég hef ekki gert mér far um að gera síðan ég var sjálf á grunn- og menntaskólaaldri.
Til að vera hreinskilin sá ég þó þannig séð nýlega nemósýninguna Moulin Rouge, árið 2016, eiginlega fremur af skyldurækni en brennandi áhuga sökum aðildar systur vinkonu í verkinu, en gekk þaðan út með stjörnur í augunum. Þrátt fyrir að ég hafi þá getað sett út á suma hluti í uppfærslunni eins og söng hér eða leik þar stóð samt upp úr hversu glæsileg dansatriðin voru, hversu mikið var lagt upp úr búningum og útliti og hversu vel langflestir sungu og léku. Svo hafandi þá reynslu af nýlegri uppfærslu félagsins var ég mjög spennt og viss um að mín biði frábær kvöldstund, þrátt fyrir að ég þyrfti að verja þá trú mína fyrir allflestum sem fitjuðu upp á nefið þegar ég sagðist ætla á Nemósýningu. Hrokinn er víða.
En burt séð frá því. Ég mætti í Háskólabíó í hálffullan sal og sat þar stillt og prúð í þá rúmu tvo tíma sem sýningin tók, allan tíman með augun límd við sviðið af einskærum áhuga, fullkomlega hrifin með atburðarrásinni og svo stolt af þessum krökkum sem ég þekki ekki neitt fyrir að vera svona hæfileikarík og dugleg og með sjálfstraustið í lagi. Sýningin inniheldur meira en tuttugu söngatriði og yfir 200 búningaskipti og aldrei virtust leikendur eiga erfitt með að bregða sér í allra kvikinda líki og dansa og syngja eins og Broadway stjörnur eða missa dampinn eða orkuna af sviðinu. En nóg af því að tala niður til aðstandanda sýningar í búningi hróss sökum ungs aldurs þeirra, snúum okkur nú að verkinu sjálfu.
Framleiðendurnir er söngleikur eftir Mel Brooks frá 2001, byggður á samnefndri kvikmynd frá 1968, og endurkvikmyndaður af Brooks árið 2005. Broadway sýningin sjálf sló í gegn og var sýnd yfir 2000 sinnum, en kvikmyndin fékk misjafna dóma og var álitin hálfgert flopp, sem er ekki nema viðeigandi fyrir efni hennar.
Söguþráðurinn er í sjálfu sér einfaldur. Endurskoðandinn Leo Bloom er ráðinn til að fara yfir bókhald Broadway-Framleiðandans Max Bialystock og uppgötvar að með því að setja upp sýningu sem floppar væri hægt að græða meira en á sýningu sem gengur vel. Ef framleiðandi selur fleiri hluta í sýningunni en hann hefur að selja og græðir meiri pening en þarf í framleiðslu getur hann haldið umframfjármagninu fyrir sjálfan sig. Ef sýningin gengur vel myndi það uppgötvast og fjármagnarar vilja sinn skerf, en ef sýningin floppar gjörsamlega, og verður stöðvuð áður en langt um líður, sætta fjármagnarar sig við að hafa tapað fénu sem í hana fór. Bloom kastar þessu aðeins fram sem áhugaverðri staðreynd en hinn óheiðarlegi Bialystock grípur hugmyndina á lofti og saman leitast þeir félagar við að setja upp verstu Broadway sýningu allra tíma. Þeir hefjast handa við að finna að versta handritið, versta leikstjórann og versta leikritið. Þeir finna handritið Sólskin á Hitler, skrifað af nasistanum Franz Liebkind, leikstjórann Rogert DeBris og samtýning lélegra leikara. Sýningin, sem er söngleikjaútgáfa af risi Hitlers til valda þar sem Þjóðverjar vinna stríðið, slær auðvitað í gegn, Bialystock og Bloom enda í fangelsi fyrir fjárdrátt og halda áfram að framleiða sýningar, bara innan veggja Sing Sing fangelsisins en ekki á Broadway.
Í lýsingu Wikipedia (já ég kann að finna heimildir) á upprunalegu sýningunni segir að húmorinn sé aðallega dreginn af fáránlegum hreimum (eins og yfirdrifnum þýskum hreim Liebkind), fígúrulegum staðalmyndum af samkynhneigðum og nasistum og einkahúmor innan Broadway-bransans.
Ég hef ekkert á móti því að gera grín að nasistum, sérstaklega ekki á þessum síðustu og verstu tímum, en nasisti sýningarinnar er gerður að svo agressívri og fáránlegri stereotýpu að áhorfandi getur hallað sér þægilega aftur í þeirri vissu að enginn sem hann þekki sé nasisti eða sammála heimsmynd þeirra, því þú sæir það alveg ef nágranni þinn gengi í lederhosen með hakakross og talaði eins og hann væri að kafna á eigin munnvatni og staðalmynd, öskrandi hvert orð og lofandi Hitler. Við höfum þó hugsanlega lært það upp á síðkastið að svo þarf ekki að vera, það er alveg hægt að trúa á yfirburði hins hvíta kynþáttar í jakkafötum eða joggingalla, en það er kannski ekki á ábyrgð Verzlunarskóla Íslands að minna okkur á það.
Berglind, sem leikur nasistann með glæsibrag, nær þó ótrúlegum tökum á persónunni og gerir henni góð skil þrátt fyrir að vera föst í fyrirframskrifuðum fígúruganginum. Hún heldur undarlegri holningu og svipbrigðum Liebkind út verkið og er alltaf í karakter. Einnig hefur hún fallega söngrödd og stendur sig almennt svo vel að persóna hennar, sem er skrifuð eins og gagngert til að ég þoli hana ekki, hætti að fara í taugarnar á mér merkilega fljótt.
Einnig náði Versló að bjarga skrípamyndunum af samkynhneigðum fyrir horn, sem er eitthvað sem upprunalega verkið lagði sig síður en svo fram um að gera. Leikstjórinn Roger og elskhugi hans Carmen eru staðalmyndir af kvenlegum samkynhneigðum mönnum, þeirri staðalmynd samkynhneigðra sem hefur hvað oftast verið stillt upp sem fáránlegum í gegnum kvikmyndasöguna, og koma á svið sem fígúrur. Roger er í kjól, enda ekkert fyndara en karlmaður í kvenmannsfötum, og á svið þeysast aðstoðarmenn Rogers sem eru hver öðrum samkynhneigðari staðalmynd. Þrátt fyrir að söngatriðið sem kynnir þessar persónur til leiks stæði aðeins öfugt í mér fyrrigaf ég uppsetningunni fljótt því Roger og Carmen urðu fullmótaðri persónur í fyllingu tímans, auk þess sem önnur aðalpersónan er, í uppsetningu Versló, samkynhneigð kona án þess að vera staðalmynd eða einhliða persóna.
Í upphaflega verkinu er aðeins ein kona í veigamiklu hlutverki, en það er Ulla, staðalmynd af sænskri kynlífsdúkku sem borðar síld í alla mata og talar með því sem á að vera sænskur hreimur. Í Nemósýningunni verður Ulla að aðeins veigameiri persónu, auk þess sem hún hljómar nokkuð frjálslynd og hlustar ekki á fólk sem segir henni að haga sér eins og dama eingöngu vegna fegurðar sinnar.
Það sem hefur mesta vigt er að í útgáfu Versló verður Leo Bloom að Leu Bloom og nasistinn Franz að Francescu, og eru konur í báðum hlutverkum, sýningunni til mikilla bóta.
Með því að breyta annari aðalpersónunni, Leu, í konu og breyta eingöngu kyni og fornöfnum en engu um persónuna nær Verzló því sem ekki er allra, það að sýna samkynhneigða persónu þar sem kynhneigð hennar er ekki í aðalhlutverki og skiptir í raun ekki máli. Hún er bara venjuleg kona og öll vandamál sem hún á við að stríða koma ekki frá kynhneigð hennar heldur öðrum hlutum, því því eina sem er breytt við persónuna er líffræðilegt kyn hennar, allt annað heldur sér. Ég var einnig ánægð með búningavalið því Lea er í jakkafötum og frakka, líkt og karl væri ef hann færi með hlutverkið. Ástarviðfang Leu er áfram kona og samkynhneigða parið fær í þokkabót farsæl endalok, eitthvað sem Hollywood á enn erfitt með að láta viðgangast í dag.
Allir leikarar standa sig vel, hvergi fannst mér neinn standa niður úr, og öll lögin voru vel sungin. Lea og Ulla geta stært sig af ótrúlega fallegum röddum og allir leikararnir af valdi á því að syngja og dansa samtímis og missa aldrei neitt úr.
Dansatriðin voru svo glæsileg og stórfengleg að mér leið eins og ég væri í raun á Broadway sýningu, búningarnir, ljósin og fjöldi dansara sem fyllti sviðið eins og fagmenn og flæddu um – allt var ótrúlega vel gert, jafnvel betur en á söngleikjauppsetningum á vegum fagleikhúsa landsins. Dansstjórinn getur verið meira en stoltur af sér, og ég tel mig geta fullyrt að ekkert muni standa jafn mikið upp úr á þessu leikári og hópur menntaskólanema að dansa í hakakross.
Söngvarinn sem söng Sólskin á Hitler var einnig glæsilegur og ekki skemmir fyrir að hann lítur út eins og staðalmynd af nasista, hvort sem það er genetískt eða dregið fram með sviðstöfrum, og enn og aftur velti ég því fyrir mér hvar Verzló grefur upp allt þetta hæfileikafólk.
Einnig er verkið vel þýtt, það er trútt upprunalega textanum en staðfærir þó aðeins og hvergi hljómar textinn augljóslega þýddur eða kjánalegur. Til að henda svo punktinum yfir i-ið tók ég með mér óíslenskumælandi elskhuga minn á sýninguna og hann skemmti sér álíka vel og ég. Það að einhver sem skilur ekki orð í málinu sem leikið og sungið er á geti átt ánægjulega kvöldstund og verið heillaður af sýningunni er afrek út af fyrir sig en útgeislun leikarana, gleðin og metnaðurinn skín svo sterkt í gegn að maður getur ekki annað en brosað. Hvort sem maður talar íslensku eða ekki.
Þannig get ég hiklaust mælt með uppsetningu Nemó í ár og hvet hvern sem vettlingi getur valdið til að skella sér í leikhús, fyrir ekki nema 3200 kr. Á sama tíma hvet ég fólk til að sleppa því alveg að horfa á kvikmynd Mel Brooks, nema sá hinn sami hafi gaman að gríni á kostnað minnihlutahópa.