Ég held ég sé ekkert að ýkja þegar ég segi að Dunkirk sé sú mynd og bíóupplifun sem olli mér hvað mestum vonbrigðum. Það þarf allavega að leita langt aftur svo ég muni eftir sambærilegu dæmi. Vonbrigði ráðast auðvitað af væntingum, eitthvað sem ég er oftast góður í að stilla mjög í hóf í tilfelli langflestra leikstjóra. Ég hef heldur aldrei verið neinn eldheitur Nolan aðdáandi og ég ætla að ræða hér hvers vegna. En þegar mynd kemur í bíó sem fær ekki einungis einróma lof næstum allra gagnrýnenda, heldur er því einnig slegið á föstu að með myndinni standi Nolan nú jafnfætis Kubrick og að fleiri en einn gagnrýnandi segir myndina ekkert meira en minna en bestu stríðsmynd allra tíma, þá er svolítið erfitt annað en að vera með nokkuð háar kröfur. Mér finnst þessar viðtökur sem myndin hefur fengið einfaldlega vera óskiljanlegar.
Það ætti ekki að þurfa að rekja um hvað Dunkirk fjallar. En þar má þó helst nefna að Nolan ákveður að segja frá þessum fræga sögulega atburð frá þremur mismunandi sjónarhornum – frá landi, sjó og háloftum – sem eiga sér einnig stað á þremur mismunandi tímalínum í myndinni sem skarast svo og renna saman í lokin. Hún segir þannig frá óbreyttum hermönnum föstum á ströndinni, ásamt yfirmanni þeirra sem er að reyna að skipuleggja björgunaraðgerðina (Kenneth Branagh), óbreyttum borgara sem svarar kalli breska hersins sem vantar skip í aðgerðirnar (Mark Rylance) og orrustuflugmanni (Tom Hardy). Þarna er Nolan samur við sig, en að brjóta frásögnina upp á ýmsan hátt og flækja er eitt helsta vörumerki hans.
Afgreiðum fyrst það jákvæða. Eins og alltaf er Nolan tæknilega óaðfinnanlegur leikstjóri, líklega einn sá fremsti í heiminum í dag. Uppfinningasemi hans, frumleiki og dirfska þegar kemur að kvikmyndatöku verðskuldar vissulega allt lofið. Með næstum hverri mynd brýtur hann blöð í kvikmyndagerð og reiðir fram ógleymanlegar senur sem brennimerkja sig í vitund áhorfandans og menningarinnar almennt. Þá á ég við senur eins og heljarstökk vöruflutningabílsins á götu í miðbæ Chicago í The Dark Knight, senan á hótelganginum í Inception, svartholið í Interstellar, bara svo einhver dæmi séu tekin. Það sama er uppá teningnum í Dunkirk, en loftbardagasenurnar er stórmerkilegt kvikmyndalegt afrek. Það sem gerir afrek Nolans auðvitað enn merkilegri er að hann, eins og frægt er, forðast í lengstu lög að nota tölvutækni og reiðir sig frekar á hugvit og uppfinningasemi í kvikmyndagerð sinni. Tæknibrellur eru þannig gerðar á gamla góða mátann eins mikið og mögulegt er. Þar fyrir utan eru myndirnar hans einnig skotnar á filmu, frekar en með stafrænum myndavélum eins og er orðið standard í kvikmyndum í dag, en ásamt leikstjórum eins og Spielberg, Tarantino, Paul Thomas Anderson, o.fl. telur hann filmu hafa mikla yfirburði yfir stafræna kvikmyndagerð og neitar ekki einungis að skipta yfir, heldur hefur hann gert hvað mest til að vekja athygli á mikilvægum atriðum sem kvikmyndalistin tapar við þessi umskipti.
Annað sem Nolan á hrós skilið fyrir í Dunkirk er djarfur frásagnarmátinn þar sem samtöl eru í algjöru lágmarki. Þannig hafa gagnrýnendur rétt fyrir sér í því að myndin er gríðarlega cinematic, þar sem Nolan reiðir sig að mestu á einstaka möguleika kvikmyndamiðilsins til að segja frá atburðum Dunkirk aðgerðarinnar. Það er alltaf frábært að sjá svona tilraunir í myndum af þessari stærðargráðu.
En þá eru jákvæðu atriðin líka upptalin. Ef við færum okkur yfir í það neikvæða, þá ætti kannski að byrja á að nefna að myndin er hreinlega bara hundleiðinleg. Ef við setjum ofangreind atriði innan sviga, þá standa eftir gríðarlega óspennandi og flatar persónur. Sá frábæri leikari Mark Rylance leikur einhverja klisjukennda útgáfu af sjálfsmynd Breta (stiff-upper-lip og allt það). Kenneth Branagh, Cillian Murphy og Tom Hardy eru fullkomlega óeftirminnilegir. Það er þó ekki við þá að sakast, en það er einfaldlega ekki mikið hægt að gera með persónur sem eru ekkert annað en óáhugaverðar klisjur. Í tilviki Tom Hardy situr hann auðvitað í flugvél allan tímann gæti einhver sagt. En þá má benda á að hann lét slíkt ekki stoppa brilliant frammistöðu í Locke (2013) – þar sem hann sat í bíl alla myndina.
Klisjur loða ekki bara við persónurnar sem slíkar. Frásögnin býður uppá lítið annað en sömu gömlu hetjudýrkunina, stríðsrómantíkina og þjóðernisrembinginn. Þær litlu tilraunir sem Nolan gerir til að flækja hlutina aðeins eru einnig klisjur sem við höfum séð milljón sinnum áður (í stríði geta hermenn snúist gegn hvor öðrum! Herforingjar fórna stundum óbreyttum hermönnum fyrir heildina!).
Spyrjum bara hreint út: hvað vakir fyrir Nolan með þessari mynd? Er hann að reyna að segja okkur eitthvað um stríð? Nú er það auðvitað alveg rétt að það er ekkert skilyrði að kvikmyndir, eða listaverk yfirhöfuð, þurfi að hafa skýran „boðskap“ til þess að teljast góðar. Margir leikstjórar gera meistaraverk sem veita áhorfandanum þó engin skýr svör og kvikmyndalistin nær til manns á einstakan hátt sem oft getur verið erfitt að færa í orð. En málið er bara einfaldlega það að Nolan er enginn David Lynch eða Alain Resnais. Allt við myndina gefur til kynna að hér er verið að segja eitthvað mikilvægt um stríð, frá einum stærsta og frægasta leikstjóra nútímans í þokkabót. Hann er að takast á við einn frægasta atburð í breskri sögu sem er enn mjög lifandi í breskri menningu og vitund. Og hvað er það sem hann reiðir fram þegar allt kemur til alls? Lapþunnar persónur, hetjuklisjur og fullkomlega óáhugaverð frásögn.
Ég var mjög spenntur þegar ég las hin gríðarlega jákvæðu viðbrögð sem Dunkirk fékk af því að mér fannst það hljóma eins og Nolan hefði loksins sigrast á stærsta veikleika sínum sem leikstjóri. En hún er mun verri en fyrri myndir hans ef eitthvað er. Myndir hans hafa auðvitað oft verið gagnrýndar fyrir að vera kaldar, að hinu mannlega sé ekki gerð nægileg skil. Sumir gagnrýnendur hafa sakað hann um að vanrækja þessa hlið á kostnað tæknilegs sjónarspils og stórra hugmynda. Ég tek undir þetta að einhverju leyti, en tel þetta þó ekki vera stærsta gallann. Því þessi gagnrýni á auðvitað einnig við um myndir Kubricks. Er til kaldari mynd en 2001: A Space Odyssey? Hann er frekar sá að það er bara ekki nógu mikið varið í þessar stóru hugmyndir hjá honum. Eða kannski frekar: hann tjáir þær einfaldlega ekki á nógu áhugaverðan og áhrifaríkan hátt.
Honum tekst best upp í Memento og The Prestige sem ég tel vera bestu myndir hans. En nýlegri myndir dulbúa skortinn á raunverulegri dýpt með tæknilegu sjónarspili annars vegar, og frumleika hins vegar. Ef við tökum Inception sem dæmi, þá er hún er í grunninn ekkert annað en ósköp standard „heist“ mynd í frumlegum búningi. Dramað sem slíkt er hvorki nýtt né sérlega áhugavert. Interstellar, sem reyndar fékk blendnari móttökur hjá gagnrýnendum, er svipuð. „Wow“ faktorinn, frumlegt plottið og ótrúlegar tæknibrellur, breiða yfir óáhugaverðar persónur og drama sem skortir alla dýpt. Raunar skaut Nolan lengra yfir markið þar en í fyrri myndum sínum, en frásögnin endar í einhverri óskiljanlegri og hreinlega neyðarlegri vitleysu, eins og margir hafa bent á. En þetta: að ótrúlega frumlegar hugmyndir séu settar fram og tjáðar í gegnum þunna, ófrumlega og óáhugaverða frásögn, er þó eitthvað sem einkennir flestar myndir hans.
Þjóðernisrembingurinn í Dunkirk er auðvitað líka sérstaklega óþolandi á þessum tímum, sem einkennast af Brexit, Boris Johnson og vaxandi þjóðernishyggju og rasisma. Það er vissulega ekki Nolan að kenna og því að einhverju leyti ósanngjarnt að dæma myndina út frá slíkum utanaðkomandi atriðum sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi verið ætlun hans að fjalla um. Og þó. Ég tel Nolan ekki vera alsaklausan í þessum efnum. Í fyrrum myndum sínum hefur hann nefnilega einmitt tekist á við pólitísk samtímamál á mjög vafasaman hátt sem gefur fullt tilefni til varfærni þegar kemur að myndum hans. Í The Dark Knight til dæmis, er eina leiðin til að stöðva Jókerinn tækni sem gerir Batman kleift að hlera alla farsíma og samskiptatækni Gotham borgar – eitthvað sem getur ekki verið annað en vísun í hleranir Bush stjórnarinnar og Nolan virðist réttlæta. Í The Dark Knight Rises, svipar málflutningur Bane og aðstæðurnar sem hann skapar í Gotham grunsamlega mikið til Occupy hreyfingarinnar – eitthvað sem Nolan virðist skilja sem hættulegan farsa af framsetningu hans að dæma. Nú er ég ekki að saka Nolan um að vera einhvern stuðningsmann Brexit og þjóðernishyggju og að Dunkirk sé ætluð sem einhvers konar lóð á þær vogarskálar. En pólitík hans er í besta falli mjög naív og án dýptar, og því er einfaldlega ekki hægt að halda fullkomlega aðskildu frá upplifun manns af myndinni.
Ef til vill er þó ætlun hans með Dunkirk ekki að koma með neins konar djúprannsókn á stríði, eða persónuleg sýn, heldur einfaldlega nákvæma kvikmyndalega framsetningu og útlistun á þessum sögulega atburði. Að gildi hennar liggi því fyrst og fremst í sögulegri nákvæmni.
En ef svo er mistekst honum skelfilega. Í fyrsta lagi er nánast engin tilraun gerð til að setja áhorfendur almennilega inní atburðinn – myndin byrjar svo til í miðjum klíðum án skýringa. Opnunarsenan er heldur ekki sannleikanum samkvæm, en það voru engir bardagar í bænum við ströndina þar sem þýski herinn stöðvaði sókn sína í nokkurri fjarlægð. Í myndinni eru stórum herskipum breska sjóhersins einnig sökkt af þýskum flugvélum á dramatískan hátt. Því er það undir litlum bátum óbreyttra borgara komið að bjarga hermönnunum. Þetta er út í hött, en af þrjátíu og níu breskum herskipum náðu Þjóðverjar aðeins að sökkva sex. Herskipin björguðu tveimur þriðju af öllum hermönnunum. Einnig er áhersla Nolans á praktíska kvikmyndagerð, án tölvutækni, mikill löstur í þessu samhengi: en í raun og veru voru 330.000 hermenn á ströndinni og 933 skip af öllu tagi tóku þátt í aðgerðinni – skali sem Nolan kemst ekki nálægt að tjá í myndinni. Við sjáum þrjár Spitfire vélar breska lofthersins (þrátt fyrir að það voru að langmestu leyti Hurricane vélar sem tóku þátt í alvöru). Af ógninni sem Bretum stóð af Þjóðverjum sjáum við handfylli af Messerschmitt vélum þýska hersins, þrjár Stuka vélar og eina sprengjuflugvél. Svona mætti áfram telja.
(Svo má einnig bæta við að tvær indverskar hersveitir voru með í atburðunum, ásamt heilum hellingi af konum sem voru með þeim síðustu til að yfirgefa ströndina, svo það er einfaldlega víst sögulega ónákvæmt að einungis hvítir karlmenn sjást í myndinni)
En ef markmið Nolans var því ekki söguleg nákvæmni, og hann hefur ekkert áhugavert að tjá af þunnum persónum og frásögn að dæma – hvað vakir þá fyrir honum með Dunkirk? Ég ætla að giska á að honum langaði einfaldlega að leika sér með gamlar flugvélar og búa til flott skot. Honum tókst það líka – því er ekki að neita. En hann hefur augljóslega eytt mun minni tíma í að hugsa um önnur atriði sem eru ekki síður mikilvæg fyrir virkilega góða kvikmynd – hvað þá meistaraverk. Til að reyna að gera þetta þunna efni áhugaverðara ákveður hann, virðist vera, að flækja tímalínuna og rugla áhorfendur í ríminu með því. Það læðist einnig að manni sá grunur að þessi djarfa frásagnartækni sem ég minntist á ofar, að halda samtölum í lagmárki, sé ekki endilega listrænt stílbragð, heldur einfaldlega merki um skortinn á innihaldi.
Það tæknilega sjónarspil sem hann reiðir fram, þrátt fyrir að eiga fullt lof skilið, kemst einfaldlega ekki nálægt þeim kvikmyndalegum afrekum sem margir fljótfærir gagnrýnendur hafa verið að bera Dunkirk saman við. Hvað þá myndum Kubricks, en að einhverjir telji Dunkirk standa jafnfætis Paths of Glory eða Full Metal Jacket – og Nolan sjálfur sé jafnoki hans – er ekkert annað en svívirðileg vitleysa. Kubrick hafði eitthvað að segja, flóknar og óþægilegar spurningar og hugleiðingar um manninn og samfélagið sem hann notaði einstaka möguleika kvikmyndamiðilsins til að tjá á ógleymanlegan hátt.
Nolan notfærir sér vissulega möguleika kvikmyndamiðilsins á meistaralegan hátt. Vandamálið er bara það að í Dunkirk – og flestum myndum sínum – hefur hann ekkert áhugavert að tjá.