Bókamessunni er lokið og við ferðafélagarnir – ég og Hildur Knúts og hennar ektamaki – erum í lestinni á leiðinni til Stokkhólms.
Fljótlega eftir að ég skrifaði dagbók gærdagsins var skellt í lás á bókamessunni um stundar sakir – ef ég hefði ekki snúið aftur úr mótmælenum þegar ég gerði það hefði ég hugsanlega lokast úti á götu og misst af næsta dagskrárlið. Nasistarnir gáfu sig skömmu síðar og létu sig hverfa upp í rútur á vegum lögreglunnar, þrátt fyrir að leiðtogum þeirra hefði ekki verið sleppt. Það var skrítið og gleðilegt að lesa fyrirsögnina „Nasistarnir gefast upp“ í Gautaborgarpóstinum.
Niðurstaðan var fullkominn ósigur nasista. Í stað þess að marsera frjálsir og stoltir um bæinn sátu þeir fastir milli mótmælenda og lögreglunnar, höfðu hrakist frá einni matvöruverslun – þar sem þeir hófu gang – og króast inni við aðra, eftir að hafa verið með mótþróa við lögregluna og eftir að mótmælendur tóku yfir göturnar sem þeir ætluðu að marsera eftir.
Again, moment Nazi NMR in Gothenburg decided to assault their own police escort.
Police say “provoked by counter-demo”. 100% crap.
Watch it. pic.twitter.com/cohYPnDMIa— b9AcE (@b9AcE) September 30, 2017
Sænski blaðamaðurinn Niklas Orrenius orðaði það þannig á Facebook: „Það sem átti að verða dýrðleg og valdeflandi þjóðernissósíalísk kröfuganga varð í sjálfu sér aldrei meira en örlítið niðurlægjandi göngutúr milli tveggja matvöruverslanna“.
Gleðin var áþreifanleg þegar nasistarnir gáfust upp og mótmælin urðu næstum karnivalísk. Antifa gekk út með að lýsa yfir sigri – á motkraft.net var skrifað: „Í dag sýndi gervöll Gautaborg sínar andfasísku hliðar. Göturnar, kirkjurnar, messurnar eru okkar. Allir tóku þátt á eigin forsendum.“ Og svo: „Nasistarnir komust ekki einn metra inn í miðbæinn, tóku ekki eitt skref á þeirri leið sem þeir höfðu ætlað. Nú skríða þeir í burtu með skottið milli lappanna.“ Þeir vitnuðu meira að segja í lögregluna – talsmaður hennar sagði að þessu væri lokið og nú gæti fólk farið út að skemmta sér – og mæltu með sigurgleði. Það urðu engar óeirðir og bara minimal ýtingar – allir sem ég hef talað við eru sammála um að þetta hefði varla getað farið betur miðað við aðstæður.
Um kvöldið spurðist út að nasistarnir ætluðu að safnast aftur saman við Järntorget en sennilega hefur ekkert orðið úr því – það hefur þá verið of ómerkilegt til að ná í fréttirnar. Ríflega 20 manns voru handteknir yfir daginn – þar af einn úr röðum mótmælenda og tveir frá öðrum norðurlöndum. Það var nokkuð talað um að menn hefðu safnast saman frá norðurlöndunum en sú söfnun virðist ekki hafa gengið jafn vel og skipuleggjendur voru að vona – og höfðu lofað heimamönnum. Það mátti sjá á samfélagsmiðlum í gær að nasistarnir voru mjög ósáttir við forystuna. Talið er að um 500 manns hafi tekið þátt í göngu nasista en leiðtogarnir lögðu upp með að þar yrðu að minnsta kosti þúsund manns.
Lögreglan þykir hafa hanterað aðstæðurnar í gær vel – en margir eru þó enn mjög ósáttir við að hún skuli hafa gefið NMR leyfi fyrir göngunni til að byrja með. Fyrir sína parta segist NMR ætla að ganga meira á næstunni og gefa lítið fyrir að sækja um leyfi.
Þá má nefna að í ýmsum fjölmiðlum í Svíþjóð – m.a. Gautaborgarpóstinum og Dagens Nyheter – birtust fréttir um hversu mikla athygli mótmælin í Gautaborg hafði fengið í erlendum miðlum, sem stilltu þessu margir á forsíðu. Þar þóttist ég kannast við tendens sem margir halda að sé séríslenskur.
Bókamessan var alger markaðskatastrófa. Samkvæmt framkvæmdastjóra messunnar – Mariu Källsson – mættu 35% færri á laugardeginum en á meðalári, sem þýðir brjálæðislegt tekjutap og það er sennilega það eina sem eigendur messunnar skilja. Þá var óhemju lítið um fólk með annan húðlit en hvítan.
Stemningin hafði líka talsverð áhrif á kaupgleði þeirra sem þó mættu. Ég ræddi við útgefendur sem voru vanir að velta nokkur hundruð þúsund krónum yfir daginn sem seldu rétt í kringum tíu þúsund kallinn. Maður fékk á tilfinninguna að það væru ekki síst litlu fagurbókmenntaforlögin sem hefðu komið út í tapi – og í Rum för Poesi och Översättning, þar sem eru upplestrar, fyrst og fremst á ljóðum, var næstum tómt allan tímann. Þar hafa margir átt sér athvarf frá ösinni – en svo má taka með í reikninginn að ljóðapúblikumið er gjarna líka pólitískt og vinstrisinnað og það fólk, sem ekki bojkottaði messuna af pólitískum ástæðum, eyddi líka bróðurparti laugardagsins úti á götu að mótmæla. Við sem þó tókum þátt í bókamessunni hlupum líka mörg út á milli eigin dagskrárliða í stað þess að sækja upplestra og samtöl hvert hjá öðru. Þá er enn ótalin samkeppnin frá Alternatífu bókamessunni á Heden og bókmenntadagskránni í Världskulturmuséet handan götunnar.
Hvað verður um bókamessuna er óvíst og margir sem ég talaði við töldu að hún ætti sér ekki endilega viðreisnar von. Einsog ég hef sagt ætla a.m.k. nokkur stór forlög einfaldlega ekki að mæta að ári ef Nya Tider verður aftur með – það kemur auðvitað ekki í veg fyrir að NMR mótmæli svona aftur, en stjórnmálamenn hafa margir ljáð máls á því að nú þurfi að herða lögin um hatursorðræðu og þjóðernissósíalískan áróður. Mörgum finnst samt skrítið að núverandi löggjöf dugi ekki – samtökin eru svo augljóslega ofbeldissamtök. Það er ekki nóg með að þeir boði ofbeldi – sem pólitíska stefnu og sem aðferð til áhrifa – heldur hafa þau iðulega gerst sek um gróft ofbeldi, sem hefur kostað fólk líf og limi.
Einhverjar raddir heyrði ég yfir helgina sem vildu meina að forlögin tækju þessu kannski fagnandi. Ef Bókamessan í Gautaborg leggst af eiga þau hægara með að byggja upp annan sams konar valkost í Stokkhólmi þar sem forlögin eru flest til húsa, með tilheyrandi sparnaði. Það er ósennilegt að Alternatífa bókamessan eða bókmenntadagskráin í Världskulturmusëet verði endurtekin – nema Nya Tider verði boðið að ári. En þá er þetta líka bara búið – komið út í algert rugl.
Þegar maður spurði fólk hvernig það hefði það fékk maður engin einföld svör. Fólk sagðist líða undarlega, það sagðist gleðjast yfir sigrum dagsins, óttast morgundaginn, vera niðurlútt, úttaugað, þreytt – kannski umfram allt þreytt, lúið og ánægt með niðurstöðuna. Gautaborgarbúum er mörgum í fersku minni óeirðirnar 2001 þegar borgin var lögð í rúst, eftir leiðtogafund evrópusambandsríkjanna 2001 – viðbúnaður lögreglu hefur ekki verið meiri síðan þá og mörgum þótti víst að stefndi í sama. Fólki var mikið létt að vakna í morgun og átta sig á því að borgin stóð, enginn hafði látið lífið eða slasast – öll sár eru minniháttar og antifa hafði ekki „farið út að slást“ einsog borgaralegu dagblöðin höfðu fullyrt að myndi gerast. Og samt var nasistum ekki heldur sýnd nein linkind, það var ekki gefinn eftir sentimetri. Þetta er hægt – við sérstakar aðstæður, með heppni og samstöðu og kærleika.
Um kvöldið fór ég út að borða með forlaginu mínu, Rámus, og bássystkinum þeirra hjá Ellerströms. Þar var meðal annars tyrkneski andófsrithöfundurinn Asli Erdogan sem var afar leið að hafa ekki komist út að mótmæla sökum viðtala og vinnu inni á messunni. Útgefandinn okkar Per Bergström hélt ræðu yfir matnum þar sem hann fagnaði sigri dagsins og samstöðu Gautaborgarbúa og minnti á að fyrir ári síðan hafði hangið yfir básnum borði með orðunum: „Frelsið Asli Erdogan“ sem þá sat í fangelsi í Istanbul í boði nafna síns Receps Tayyip Erdogan. En nú sæti hún þarna með okkur og við mættum aldrei gleyma mikilvægi andspyrnunnar og samstöðunnar í baráttunni við fasismann, hvar sem hann skýtur upp kollinum. Sú sama stemning ríkti hvívetna í borginni. Sigurinn er ekki unnin – en það er orðið svo sjaldgæft að sjá öfgahægrimenn hopa, svo sjaldgæft að sjá samfélög standa saman um að reka þá út – að góðum úrslitum er tekið með miklum fögnuði, jafnt þótt það sé bara í einni orustu af mörgum.