Óþelló 14–2 Jón Viðar

Ég fór bálreiður af Óþelló um daginn og alla leiðina heim kraumaði í mér löngun til að skrifa langa grein um þessa metnaðarfullu uppsetningu Vesturports – og um fordæmalausan, fáránlegan, kjánalegan, rætinn, tilgangslausan og innihaldsrýran pistil Jóns Viðars Jónssonar. Ég meina, Jón Viðar notar tækifærið í alllöngu ranti sínu til að takast persónulega á við Gísla Örn Garðarson (sem er orðinn svo frægur að hann heldur að hann geti gert hvað sem er) og Þjóðleikhússtjóra, sem er greinilega ekki starfi sínu vaxinn.

Mér rann reiðin, en eftir stendur fyrirsögn þessa pistils og eftirfarandi, sem ég verð að segja:

Óþelló í uppsetningu Vesturports er mögnuð sýning sem fer rólega af stað en nær smám saman á manni heljartökum. Ingvar Sigurðsson er djúpur Óþelló og leikmyndin er einföld og gríðarsnjöll, ekki síst undir lok sýningarinnar.

En stórstjarnan að þessu sinni er Nína Dögg Filipusdóttir sem rúllar upp hlutverki Jagós með glæsibrag og hefur aldrei leikið betur. Þegar allsjóaður og fullorðinn leikhúsgestur heldur niðri í sér andanum á lokametrum leiksýningar er alveg ljóst að einhvers konar snilld hefur tekist að sjóða saman.

Á meðan Jón Viðar fór endanlega út af sakramentinu hjá mér sem gagnrýnandi hefur Gísli Örn sannað sig rækilega sem leikstjóri á heimsmælikvarða.

Húrra fyrir honum, Óþelló – og Nínu Dögg. Þetta er sýning til að missa ekki af.

 

  • Svo verður að minnast á nýja þýðingu Hallgríms Helgasonar, að minnsta kosti svona neðanmáls.