Þeir Íslendingar sem svekkja sig á Nóbelsverðlaunum bandaríska þjóðlagasöngvarans Bobs Dylan, sem margir vissu ekki einu sinni að sýslaði við bókmenntir fyrr en sænska akademían leiðrétti þann misskilning snarlega með yfirlýsingu sinni í síðustu viku, ættu að geta huggað sig við að nýlega kom út fyrsta íslenska þýðingin á verki eftir „alvöru rithöfund“ – það vill svo skemmtilega til að sá er nafni Roberts Zimmerman: Roberto Bolaño – en Bolaño er yfirburðahöfundur sem sannarlega hefði mátt hljóta Nóbelsverðlaunin og mín vegna nú í ár, þrettán árum eftir að hann skipti lyklaborðinu út fyrir líkkistu, enda öðluðust verk hans fyrst fylgjendur á alþjóðavísu í kjölfar dauða hans og þá sérstaklega þegar bækurnar tóku að vekja athygli lesenda (og yfirlýstra menningarvita) á enskumælandi svæðum. Það er nær ógerningur fyrir erlendan höfund að brjótast af krafti inn á enskan markað – mér skilst að útgefnar þýðingar á ensku spanni um 2-3 % af heildarútgáfu enskra bóka, sem er sláandi lágt hlutfall – og raunar lýsandi fyrir það tröllatak sem enskumælandi heimurinn hefur á ímyndunarafli okkar og menningu samtímans, og kemur einmitt svo sterklega fram í því að Dylan fær Nóbelinn.
Roberto Bolaño söng á spænsku, að vísu með bleki á pappír frekar en með blússkala yfir vinnukonugrip, og hann er kannski uppáhaldshöfundurinn minn. (Ég legg að vísu nokkuð sterka áherslu á orðið kannski, enda á maður í rauninni aldrei að eiga sér uppáhalds-neitt, það er svo smásálarlegt.) Og nú er komin út íslensk þýðing – loksins – á skáldsögu eftir hann; Verndargripur, nóvella að stærð, þ.e. „skáldsaga í hæfilegri lengd“, eins og mér finnst skemmtilegra að kalla nóvellur. Verndargripur kemst alls ekki á stall meðal eftirlætisverka minna eftir Bolaño (smásögurnar eru bestar, smásögurnar eru alltaf bestar) en er þó sjálfsagt ágætis inngönguleið inn í veröld Bolaños. Sjálfur sagði Bolaño einhverju sinni að sá sem byrjaði að lesa César Aira – annan framúrskarandi, spænskumælandi höfund, frá Argentínu – vildi helst ekki hætta; það sama gildir um Bolaño. Maður skynjar höfundarverk hans í raun sem eitt risastórt verk, eina samhangandi ofurbók, og ég held meira að segja að hann hafi sjálfur lýst skrifum sínum þannig. En nóg um það; það gleður mig að segja frá því að þetta er hin stórfín þýðing, gerð af Ófeigi Sigurðssyni, sem má vera hreykinn af verkinu. Ég las bókina, sem ég hafði raunar lesið tvisvar áður (á ensku, því miður kann ég ekki enn að lesa á frummálinu, spænsku), í einum rykk, og svo hugsaði ég hlýlega til Ófeigs, og síðan hugsaði ég hlýlega til Roberto Bolaños, og næst hugsaði ég hlýlega til forlagsins Sæmundar, sem gefur bókina út, og loks hugsaði ég hlýlega til allra þeirra sem búa til góðar bókmenntir í heiminum. Og mér leið vel. Og síðan klappaði ég saman lófunum, sneri mér í hring og settist við tölvuna til að skrifa þessi orð.
Þetta verður hryllingssaga. Þetta verður glæpasaga, reyfari og frásögn af hryllingi.
Þannig hefst frásögn Auxilio Lacouture, sögumanns Verndargrips, og ég segi nú bara: Geri aðrir betur. Ég man hvar ég stóð þegar ég las þessa byrjun fyrst (og já: ég stóð) og ég hef oft hugsað til þessara orða síðan. Á eftir kemur brjálæðisleg, ljóðræn og tilfinningaþrungin lýsing Auxilio á villtri ævi sinni sem „móðir mexíkóskrar ljóðlistar“; svalli hennar, bóklestri og heimshornaflakki, en hún lítur yfir farinn veg á meðan hún felur sig inni á kvennasalerninu í Mexíkóháskóla þegar herinn ræðst þar til atlögu í september árið 1968. Bókin er ríkulega skreytt því sem mest er gefandi í lífinu: lestri, ferðalögum og kynlífi – í raun allt sami hluturinn, ef marka má Bolaño, sem er lunkinn við að splundra mærum, hvort sem þau skilja á milli landa, hugmynda eða hegðun, og áminnir lesandann margsinnis um að í huga þess sem les bækur er samtíminn gímald sem geymir í senn fortíð, nútíð, framtíð, ekki aðeins hina stóru, freku, fyrirferðarmiklu líðandi stund, sem er, ef marka má streymið í snjalltækjunum okkar, allt sem skiptir máli, jafnvel þó að gegndarlaus streymislestur á síma fylli mann oftar en ekki blússandi, og sálarnístandi, tilfinningu fyrir því að ekkert skipti máli, ekki einu sinni líðandi stund. Bolaño minnir okkur aftur á móti á að í huga þess sem les bækur er samtíminn árið 1241, þegar Sturla var veginn; og árið 2016, þegar Ófeigur gaf út þýðingu sína á Verndargrip; og árið 2666, en þangað sendir Bolaño okkur einmitt í bókinni, á blaðsíðu 88, og vísar þar með til titilsins á stærstu bók sinni, meistaraverkinu 2666, sem er bók sem yrði mér ofviða að skilgreina. Bækur Bolaños virðast eiga afar auðvelt með að smjúga milli landamæra, milli tungumála, og halda slagkrafti sínum, fegurð, erindi og töfrum óskertum, auk þess sem þær spanna stórt veraldarsvið, bæði í tíma og rúmi. Ég ætla ekki að þröngva lestraraðferðum upp á lesendur Starafugls, en góð og gild aðferð til að kynnast Bolaño er á þessa lund (og hefur iðulega reynst mér vel): Maður opnar rauðvínsflösku, dregur fyrir gluggana, slekkur á sérhverju raftæki og segir vinum sínum og vinnuveitendum að maður sé með flensu, og berst svo inn í annan og innleitnari heim en þann ytri sem við sitjum annars föst í; hliðlæga veröld Bolaños, sem manni finnst í raun og sannleika vera alþjóðleg og gjörólík okkar litla, samanskroppna hversdagsheimi, sem er eins ó-alþjóðlegur og hægt er – fullur af sífelldum áminningum um ólíkt þjóðerni okkar: vegabréfum, landsleikjum í fótbolta, stríðum, inn- og útflutningsbönnum, „flóttafólki“. Í verkum Bolaños eigrar uppflosnað og rótlaust fólk – skáld, morðingjar, draumóramenn, kúrekar, bókmenntafræðingar, hórur, lesendur – um minnst þrjár heimsálfur og maður fær tilfinningu fyrir því hvað tíminn er stór, hvað mannslíf er smátt, hvað möguleikar skáldsögunnar eru óþrjótandi, og hvað möguleikar þeirrar litlu, huggulegu stafrænu veraldar, sem nokkur stórfyrirtæki eru óðum að sníða í kringum tilveru okkar, eru litlir og takmarkandi, í samanburði við ímyndunarafl alvöru heimsklassarithöfundar.
Þú ættir að lesa Verndargrip, á íslensku, og svo ættirðu að lesa fleiri bækur eftir Bolaño á einhverju öðru tungumáli sem þú kannt. Og svo skulum við vona að Ófeigur sé aðeins rétt að hefjast handa við að íslenska Bolaño og að bókaútgáfan Sæmundur haldi áfram að dæla verkunum út.
Ég vil ekki spilla reynslunni, aðeins ýta þér úr vör:
Þetta verður hryllingssaga. Þetta verður glæpasaga, reyfari og frásögn af hryllingi …