Eagleton um menningu

Culture

Eitt af því sem hægt hefur verið að ganga að vísu hvert haust síðustu ár, og undirritaður hefur a.m.k. alltaf verið ágætlega spenntur fyrir, er ný bók frá írska bókmenntafræðingnum Terry Eagleton. Þrátt fyrir að menntun hans og sérsvið sé bókmenntir þá, eins og allir lesendur hans kannast við, er hann óhræddur við að færa sig inn á önnur svið og hafa bækur hans um heimspeki og samfélagsmál verið mjög vinsælar og gert hann áberandi í vestrænni samfélagsumræðu. Hann er gríðarlega afkastamikill höfundur en af nýlegum bókum hans hafa Why Marx Was Right (2011), sem hann skrifaði í skugga fjármálakrísunnar, og Reason, Faith and Revolution (2009), þar sem hann ræðst á Richard Dawkins, Christopher Hitchens og aðra nýtrúleysingja samtímans, vakið hvað mesta athygli. Eagleton, sem er yfirlýstur marxisti annars vegar en einnig undir greinilegum áhrifum frá hinni kristnu hefð hins vegar, er ávallt áhugaverður, skemmtilegur og óhræddur við að taka stöðu gegn ríkjandi hugmyndum, hvort sem þær eru pólitískar, bókmenntafræðilegar eða heimspekilegar.

Í nýjustu bók hans Culture, fjallar hann um titil hugtakið. Ég verð að játa að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég heyrði titilinn á nýjustu bók hans þar sem það er ekki nema tvö ár síðan að hann gaf út hina fínu bók Culture and the Death of God, nokkurs konar framhald á hugleiðingum hans um trúleysi samtímans og stöðu menningarinnar á 21.öldinni. Ég taldi að Eagleton hefði þar komið á framfæri skoðunum sínum á menningu og að nýjasta bókin væri að mestu leyti endurtekning á gömlu efni, eins og er algengt meðal stórra fræðimanna og heimspekinga sem komnir eru á efri ár (Noam Chomsky er kannski besta dæmið). En ég varð ekki fyrir vonbrigðum þar sem reyndin er sú að Eagleton hefur mun meira áhugavert að segja um menningu.

Til þess að varpa ljósi á menningu í dag, og stöðu hennar, ræðst Eagleton í það sem mætti kalla ákveðna sifjafræði hugtaksins. Ritið er þó stutt og er því ekki um neina yfirgripsmikla og nákvæma söguskoðun að ræða, hann einblínir á nokkra hugsuði sem hann telur að hafi annaðhvort mótað hugtakið, eða haft fram að færa skilning sem við getum enn lært af í dag. Þannig, með því að fókusa á fáa höfunda nákvæmt, reiðir hann fram bæði mjög áhugavert yfirlit yfir minna þekktar skoðanir á hugtakinu, á sama tíma og hann sneiðir framhjá öllum klisjunum sem umræðan um „menningu“ (sem enginn skortur er á í dag, þótt skortur sé á innihaldi) þjáist af.

Það fyrsta sem hann telur nauðsynlegt að ræða er munurinn á menningu (culture) og siðmenningu (civilization). Oft hefur þessu tvennu verið ruglað saman og lagt að jöfnu, sérstaklega á nýlendutímanum. Eagleton ræðir mismunandi skilninga á hugtökunum, en vill meina að hlutir eins og iðnaður, framleiðsla, viðskipti, byggingar, samgöngur, o.s.frv. heyri undir siðmenningu á meðan að menning sé mun sleipari og dularfyllri fyrirbæri. Menning er í rauninni ómeðvitaður veruháttur okkar, sú leið sem við notum til að finna okkur leið í gegnum tilvistina. Að sjálfsögðu eru til margar ólíkar hugmyndir og leiðir, og því ólíkir menningarheimar. En Eagleton er þó ekki afstæðishyggjumaður eins og Stanley Fish eða Richard Rorty (algeng skotmörk hans). Með núanseraðri hugsun færir hann rök fyrir því hvernig það sé engin togstreita milli þess að viðurkenna að sumt sé menningarlega ákvarðað og afstætt, þótt allt þurfi ekki að vera það. Að bera út ungabörn er t.d. eitthvað sem hægt er að færa rök fyrir að sé siðferðislega rangt, á meðan að það sé ekkert rétt svar við því hvort sé réttara, að heilsast með handabandi eða hneigja sig. Suma hluti gerum við bara án ástæðu, og hallar Eagleton sér hér að Wittgenstein eins og oft áður, en hann benti eins og frægt er á að „Explanations come to an end somewhere“, sumt er bara á ákveðinn veg, og það er tilgangslaust að kafa dýpra í það.

Fyrsti hugsuðurinn sem Eagleton ræðir er Edmund Burke. Hann hefur kannski haft mest áhrif á heimspekisöguna í gegnum hugtakið hið háleita (sublime), en rit hans A Philosophical Enquiry into the Origin of Our Ideas of the Sublime and Beautiful hafði mikil áhrif á Kant og alla listheimspeki til okkar tíma. Þar fyrir utan er hann þekktur fyrir rit sitt um frönsku byltinguna, Reflections on the Revolution in France (1790). Útfrá því hafa margir stimplað hann sem talsmann heimspekilegrar íhaldsstefnu sem er á móti byltingum og róttækum stjórnmálastefnum. Eagleton bendir þó á að þetta sé misskilningur á hugsun Burke. Þrátt fyrir að hann hafi verið á móti frönsku byltingunni hafi hann ekki verið á móti byltingum sem slíkum. Til dæmis studdi hann vopnaða uppreisn á Írlandi og var harður andstæðingur þrælahalds.Vandamálið við frönsku byltinguna var það að leiðtogar hennar tóku einmitt ekkert tillit til lykilatriðis sem alltaf þarf að hafa í huga í öllum samfélagsmálum: menningarinnar. Fyrir Burke var menningin lífrænt, sjálfsprottið og rótgróið fyrirbæri sem þróast á vissan hátt í samspili og daglegu lífi borgaranna og í samskiptum þeirra við yfirvaldið. Hugtakið vísar þannig til daglegra venja og talsmáta, siða og kurteisis, ásamt hugmynda um samfélagið sem í gangi eru. Franska byltingin skeytti engu um þetta og sleit gjörsamlega á tengslin á milli fólksins og umhverfis þess og samfélagsins. Leiðtogar byltingarinnar vildu umbreyta og kollsteypa samfélaginu gjörsamlega eins og að rífa af plástur, eitthvað sem Burke sá að myndi óhjákvæmilega leiða til erfiðleika og upplausnar. Samkvæmt honum gerðust raunverulegar breytingar hægt, með því að taka tillit til og virða líf og veruhátt borgaranna. Stjórnmál og menning eru nátengd og þarf að hugsa saman. Burke var ekki á móti byltingum, hann taldi að ef kóngurinn gerði það sama, og virti ekki menningu borgaranna, þá missti hann einnig réttmæti sitt og borgararnir hefðu þá fullan rétt til að steypa honum af stóli. Þannig spilaði menningin lykilhlutverk hjá Burke og var fyrirbæri sem þarf að hlúa að og virða, eitthvað sem hann taldi að margir samtímamenn sínir áttuðu sig ekki fyllilega á.

Burke á fastan sess í upplýsingastefnunni, og situr þar við hliðin á hugsuðum eins og Rousseau, Diderot, Voltaire og Thomas Payne. Annar hugsuður sem Eagleton ræðir, Johann Gottfried Herder, kom úr annarri átt, rómantísku stefnunni sem var svar, og á vissan hátt mótmæli, við hugsjónum upplýsingarinnar. Ólíkt Burke þá studdi Herder frönsku byltinguna, en Eagleton bendir á að þeir eigi þó það sameiginlegt að leggja ofuráherslu á mikilvægi menningarinnar og trúarbragða. Skilningur Herder er þó nokkuð ólíkur, en hann fókuseraði fyrst og fremst á tungumálið sem uppsprettu menningar, ásamt því að vera einn af kenningasmiðum þjóðríkisins eins og við þekkjum það í dag. Samkvæmt Herder er hver þjóð einstök, þar er tungumálið mikilvægt, en einnig landsvæði, veðurfar, saga, o.s.frv. Hann benti á gildi þjóðsagna og þekkingarinnar sem leynist í daglegu lífi og tali þjóðarinnar. Áhersla hans á þjóðina gekk svo langt að hann hélt því fram að innan þjóðarinnar væri aðeins ein stétt, Volk, og trompaði þau tengsl öll önnur. Herder er vanmetinn og lítt lesinn hugsuður í dag miðað við áhrif hans á nútímann, en þau augljósu tengsl sem hugmyndir hans hafa á fasisma 20.aldarinnar skýra þessa vanrækslu kannski að einhverju leyti.[1]

Eftir að hafa fjallað um einn upplýsingarhugsuð og annan úr rómantíkinni, leitar Eagleton til eins umdeildasta menningarfrömuðar síðustu aldar, T.S. Eliot. Þrátt fyrir að ljóðlistarhæfileikar hans séu óvéfengjanlegir, þá verður ekki sama sagt um hugmyndir hans um menningu eða bókmenntagagnrýni. Eagleton fer ekki mikið yfir þá sögu, en Eliot spilaði lykilhlutverk í mótun bókmenntafræðistefnu, new criticism, sem hafði mikil áhrif fram á síðari hluta 20.aldarinnar. Sú stefna kvaðst leggja ofuráherslu á náinn lestur textans, og skeytti engu um ætlun höfundarins eða sögulegan bakgrunn. Útfrá þessum sjónarmiðum útskúfaði Eliot mörgum skáldum úr kanónunni og jafnvel heilu stefnunum eins og rómantíkinni, sérstaklega Milton og Shelley. Voru áhrif hans svo sterk að þau skáld voru lengi vel talin annars flokks og ekki metnaðarfullum bókmenntafræðingum og skáldum sæmandi.

Ástæðan fyrir því að Eagleton telur Eliot mikilvægan í þessu samhengi er sú að hugmyndum hans um mikilvægi menningarinnar svipar mjög til hugmynda Burke og Herder, hversu mikið sem hann var ósammála þeim að öðru leyti. Eliot, sem var yfirlýstur íhaldsmaður og kristinn, taldi heiminn vera í mikilli upplausn á fyrri hluta 20.aldarinnar, og aðeins með því að leggja áherslu á menninguna, rótgróna siði og venjur sem hver þjóð á að baki sér, væri hægt að afstýra hörmungunum sem Eliot sá merki um í stefnum og hugmyndum samtíma hans. Eina leiðin áfram að hans mati var í gegnum hefðina, uppsprettu gilda okkar og skilnings á samtímanum. Ævi hans sjálfs er þó auðvitað athyglisverð að þessu leyti, en hann var ameríkani sem settist að í Englandi. Einnig kváðu fagurfræðihugmyndir hans á um að ljóð ætti ekki að lesa með huganum og skynseminni. Hélt hann því fram að óskalesandi hans fyrir ljóð sín væri ómenntaður og fáfróður um bókmenntir (hann sagðist sjálfur hafa lesið og notið fullkomlega Guðdómlega Gleðileik Dantes á ítölsku, þrátt fyrir að kunna ekki stakt orð í tungumálinu). Þrátt fyrir það eru ljóð hans einhver þau flóknustu og margræðustu af öllum stóru ljóðskáldunum, og vísanir þeirra og orðaleikir óþrjótandi auðlind fræðimanna.

Eagleton finnur þannig og togar í tiltekinn þráð sem finna má hjá þessum ólíku hugsuðum. Hann helgar einnig heilan kafla Oscar Wilde. Wilde hélt fram fagurfræðikenningu sem kvað á um að list þjónaði nákvæmlega engum tilgangi. Var slagorð hans „art for art’s sake“, og innifalið í þessari speki var sú stefna að gera ætti lífið að listaverki, eitthvað sem Wilde varð alræmdur fyrir að gera með klæðnaði sínum og hegðun. Þessi fræga hugmynd Wilde um listina fer þó leynt með, að mati Eagleton, hversu gríðarlega róttæk pólitísk afstaða hún er. Í heimi sem leggur alla áherslu á auð, stöðu, titla, o.s.frv., eins og Bretland Wilde var, var það að hampa mikilvægi listar, ekki af neinni praktískri ástæðu, heldur einungis sjálfs hennar vegna, afstaða sem gengur þvert á ríkjandi gildi og boðar allt annað gildismat. Wilde, sem var auðvitað írskur og þannig utanaðkomandi í ensku menningarlífi, leitaðist við að snúa viðteknum hugmyndum á hvolf – eins og leikrit hans bera augljós merki um. Fagurfræðistefna hans var mikilvægur liður í því og vill Eagleton meina að hugsun okkar um Wilde í dag missi oft af þeirri róttæku pólitík sem hann boðaði. Eitt besta ritið til að kynnast þessari hlið af Wilde er hið minna þekkta The Soul of Man under Socialism, en þrátt fyrir að Wilde ráðist þar á óréttlæti og fátækt samfélagsins, gerir hann það á afar frumlegan (og á tíðum miður smekklegan) hátt sem við getum enn dregið lærdóm af í dag.

Eftir að hafa rætt menningarhugtakið í skilningi nokkurra vel valinna hugsuða (hann fjallar einnig lítillega um Matthew Arnold, William Morris og fleiri), ræðir Eagleton loks skilning okkar í dag. Hann bendir á að hjá Burke, Herder, Eliot og Wilde, þrátt fyrir ólíkar hugmyndir þeirra, hafi menning að mörgu leyti verið róttækt hugtak sem þeir nýttu sér í samfélagsgagnrýni. Menning og pólitík voru nátengd fyrirbæri. Það horfir öðruvísi við í dag þar sem kapítalíska samfélag nútímans hefur gleypt hugtakið með húð og hári og innlimað það inn í hugmyndafræði sína. Hvernig getur menningarhugtakið nýst í gagnrýni á kapítalisma þegar kapítalisminn leggur einmitt ofuráherslu á hversu einstakir ólíkir menningarheimar eru – túristasprengingin, flugfélög, hótel, veitingastaðir, og allur businessinn þar í kring veltur beinlínis á þeirri hugmynd.

Allt er menning í dag, hvort sem það er skyndibitastaðir, sjónvarpsþættir, skotvopn, stórfyrirtæki, fátækt, mótmæli eða hegðun stjórnmálamanna. Menning spilar að sjálfsögðu stórt hlutverk í sjálfsmyndarpólitík nútímans sem hefur náð miklu valdi á opinberri umræðu. Sú staðreynd er að sjálfsögðu ekkert slæm í sjálfu sér, og hefur sú barátta náð mikilvægum árangri á mörgum sviðum. En Eagleton bendir þó á að það sé eitthvað bogið við það að stór hópur fólks, í öllum samfélögum, hvað þá í þriðja heims löndum, búi við sára fátækt, eymd, kúgun og niðurlægingu. Slíkt er talið eðlilegt. Hins vegar þá fer allt í bál og brand og fjöldahreyfingar spretta upp samstundis ef einhver vogar sér að viðra fordómafullar skoðanir eða hugmyndir um þetta fólk, eða ef þau eru ekki sýnd á réttan hátt í sjónvarpi eða kvikmyndum. Að minnka lífsgæði þeirra, skera bætur, frysta eða lækka laun, útrýma störfum og hreinlega láta eins og þau eru ekki til er bara hversdags pólitík, en að nota niðrandi orð um þau er ófyrirgefanlegt ódæði sem getur gert út af við mannorð hvers sem er og nánast gert viðkomandi brottrækan úr mannlegu samfélagi.

Niðurstaða Eagleton er sú að í dag sé varla neitt svið fyrir utan kapítalíska hugmyndafræði þar sem hægt væri að móta hugmynd um menningu sem væri í andstöðu við ríkjandi hugmyndir. Þetta er engin afdráttarlaus niðurstaða, en það sem vakir helst fyrir honum er að benda á og ræða ólíkar hugmyndir um kunnugleg efni – eitthvað sem mikil þörf er á í dag. Eagleton er enginn bölsýnismaður, hann heldur enn í vonina um að hægt sé að breyta hlutunum til betri vegar, og menningarhugtakið gæti þar spilað lykilhlutverk. En þá þyrfti að endurheimta það úr höndum rasísku hægriflokkanna sem notað hafa menningu til að réttlæta kúgun, rasisma og mismunum. Eagleton minnir okkur á að innifalið í þessu algenga og hversdagslega hugtaki, leynist kraftur sem getur haft mikil áhrif ef það er notað rétt.

[1]    Herder til varnar þá varaði hann sjálfur við hættunum sem gætu stafað af rómantískri þjóðernishyggju sinni ef hún væri tekin of langt, ásamt því að hann talaði gegn mismunun gyðinga og taldi engan mun vera á kynþáttum.