Skeleton Tree er 16. hljóðversplata Nick Cave and the Bad Seeds. Hún er gefin út í skugga sviplegs fráfalls 15 ára sonar Nicks sem féll til bana í heimaborg Cave fjölskyldunnar, Bristol, á meðan upptökum plötunnar stóð. Ljóst er að öll lög höfðu verið samin og að mestu tekin upp og flestir textar höfðu verið skrifaðir þegar hann lést. Nick hefur eins lýst yfir að hann var ekki í neinu ástandi til að skrifa mikið eftir áfallið. Það þýðir samt ekki að missisins gæti ekki í verkinu. Hann breytti víst sumum textum og aðrir voru spunnir upp á staðnum.
Ekki að það skipti í raun miklu máli að svo komnu máli, en mig grunar að þegar vinna hófst við þessa plötu hafi hún átt að vera um hvað gæti orðið um mannskepnuna þegar mannkyn hefði haft svo mikil áhrif á umhverfi sitt að það sem einkenndi jörðina væri gerfi og ónáttúrulegt umhverfi og sigur mannsandans yfir því ástandi. Lykillag í þeim skilningi er lagið Anthrocene. Ég ætla hins vegar ekki að fara nánar út í það að svo stöddu.
Áður hefði Nick Cave, við slíkar aðstæður, aldrei látið línu eins og upphaf lagsins Jesus Alone vera. „You fell from the sky. Crash landed in a field near the river Adur“. Eða í Anthrocene þar sem segir „All the things we love, we love, we love, we lose. It´s our bodies that fall when we try to rise“. Síðast þegar Nick Cave tæklaði sorg var það í laginu Into My Arms sem hann samdi til föðurs síns u.þ.b. 20 árum eftir dauða hans. Og þá hélt Cave áheyrandanum í skefjum með því að dulbúa lagið sem ástarlag. Hér hleypir hann hins vegar hlustendum nær með því að klippa ekki út línum sem voru þegar komnar á blað og áttu sér allt annað samhengi. Það er kannski auðveldara.
Í öðrum lögum virðist sem hann sé að nálgast sorgina beint svo sem í lögunum Girl In Amber og Magneto. Í því fyrra kemur fyrir hending um hvað hann hélt að kæmi fyrir í dauðanum áður og hvað hann heldur núna auk þess að hann syngur um að heimurinn hafi hætt að snúast en lagið heldur áfram að snúast síðan 1984, en þá kom fyrsta sólóplata hans út. Eitt af mikilvægustu mómentum plötunnar er í lok lagsins þar sem þjáningin er svo sterk að hann biður um að vera ekki snertur. Lágpunktinum er náð. Í því seinna syngur hann um að æla í vaskinn á meðan hýenurnar fara með sálminn sinn fyrir utan húsið. Hýenurnar eru væntanlega blaðamennirnir sem létu fjölskylduna ekki í friði eftir áfallið.
Í laginu Distant Sky er öðrum lágpunkti náð, í dúett við dönsku söngkonuna Else Torp, er Nick syngur „They told us our dreams would outlive us. They told us our gods would outlive us, but they lied“. Það er ekkert eftir vonin er horfin. En samt, í lok titillagsins Skeleton Tree kemur mikilvægasta stund plötunnar er Nick syngur endurtekið „And it´s alright now“. Hlutirnir eru kannski ekki eins og best verður á kosið en samt allt í lagi. Það er vert að taka fram að í lok myndarinnar um gerð plötunnar (mynd sem ég komst því miður ekki að sjá) segir Nick í lokin að fjölskyldan hafi ákveðið að vera þrátt fyrir allt hamingjusöm. Sem hefnd.
Tónlist plötunnar er rökrétt framhald af síðustu plötu Nick Cave and the Bad Seeds, Push The Sky Away. Hér er gengið mun lengra með rafrænar tilraunir en gert var þá og lögin eru jafnvel einfaldari og ekkkert er reynt að höfða til hlustenda sem vilja grípandi lög. Hér er ekkert Jubilee Street né Dig Lazaruz Dig hvað þá Nature Boy. Tónlistin er í raun götótt og hriplek. Mann grunar að vinnuaðferðin hér hafi verið svipuð og var við gerð Yankee Hotel Foxtrott með Wilco. En þar var farið í teipin eftir á og tónlist fjarlægð og eins og Jeff Tweety lýsti því voru skildar eftir holur þar sem ætti að vera tónlist.
Lögin verða með þessari aðferð oft fjarlæg og jafnvel draugaleg en aldrei kuldaleg. T.d. annað lagið Rings of Saturn sem hljómar talvert eins og draugalegt bergmál af Cars laginu Drive og Alphaville laginu Forever Young með synthamottum líkum báðum lögum og hljómagang líkum því síðara en þó ekki hinum sama. Poppdaðrinu líkur ekki þar heldur henda þeir Millenial Whoop ofan á lagið í formi bakradda.
Girl in Amber sækir talsvert í titilag síðustu plötu en nær samt að þvinga fram sinn eigin karakter og er eitt af sterkustu lögum plötunnar þrátt fyrir líkindin. Aðrir hápunktar plötunnar eru I Need You, Distant Sky og titillagið Skeleton Tree. Í því síðasta er götótt ambientmiðuð tónlistin skilin eftir og við fáum heilt lag ef svo má kalla. Söngur Nicks er svo heill kapítuli fyrir sig. Röddin er algjörlega brostin en þrátt fyrir að vera algjörlega bugaður af sorg þá er hann enn máttugur.
Skeleton Tree á vel heima á meðal bestu platna Nick Cave and the Bad Seeds, enda varla veikur punktur á henni, og það verður að teljast með ólíkindum hvað vel honum hefur tekist að halda æfintýramennskunni vakandi sem tónlistarmaður eftir næstum 40 ár í bransanum. Og svo maður vitni í fyrrum Bad Seeds meðlim, Mick Harvey, þá kemur Nick Cave manni sífellt á óvart með hvað rík gæði verka hans eru og hvað vel honum hefur tekist að halda þeim uppi á löngum ferli.