Endanlegt form sögulegra verka

Innsæishöggmyndir á endanlegu formi – Eða, Siggi Gúmm var miklu meiri pönkari en Bubbi Morthens

sg mountain – Mountain eftir Sigurð Guðmundsson er eitt af hans þekktustu verkum.

Allar myndir í meðfylgjandi umsögn eru af vef i8 gallerísins í Reykjavík

um Dancing Horizon, yfirlitsbók um ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar 1970-1982. Crymogea 2014.

 

„I often say in my lectures that a work of art that can only be interpreted in one way is an inferior work of art. A good work of art can be interpreted in countless ways.“

                                                                                    Sigurdur Gudmundsson (p.205)

 

Áhrifamikil ljósmyndaverk í klassískri framsetningu 

Ég veit ekki hvað það var sem gerðist í hausnum á mér í fyrsta skipti sem ég sá ljósmyndaverk eftir Sigurð Guðmundsson – artisté emeritus – holdgerving hugmyndalistarinnar á Íslandi í mínum huga, en það eru að verða liðnir tveir áratugir síðan og mig kitlar enn í magann af því rifja það upp. Og þó tíminn hafi liðið og allskonar fyndni og kaldhæðni og írónía og hrár húmor og gálgahúmor og aulahrollur hafi farið um mig og orðið á vegi mínum þá toppar ekkert þessa blöndu af undrun, aðdáun, gáska og djúpri alvöru sem þetta verk hafði á mig. Ég var yngri og vissi þá ekkert hvaða status Sigurður hefði svona í listinni, hringdi í hann að ég held til Hollands og spurði frekar blátt áfram svona einfaldlega „heyrðu ég er með svona eitthvað svona í gangi og langar til að nota þessa mynd þína sem mér finnst svo fyndin sem auglýsingu fyrir þetta dæmi“ – sem er náttúrulega argasti dónaskapur ef eitthvað listaverk er heimsfrægt og maður hefur ekki einusinni rænu á því að þykjast ætla borga eitthvað, heldur vill bara fá að nota það fríkeypis því maður sé svo stórkostlegur og auðvitað nánast að gera manninum greiða að misnota verkið hans. Og enn bætti í virðingu mína og undrun þegar maðurinn sagði hinumegin á línunni eftir þetta ungæðislega frumhlaup sautján ára unglings „já, gjörðu svo vel, ekkert mál, prentaðu bara eins mörg hundruð þúsund eintök og þú vilt“. (Þetta var kannski ekki alveg svona, en tilfinningaminni mitt staðfestir að frásögnin er ekki mjög fjarri lagi.)

sg event 1975

Event, 1975 er myndin sem um ræðir að ofan. Í Dancing Horizon má finna fleiri sögur af því hvernig myndin hefur verið notuð.

Mér var sagt að í viðtali við Sigurð vegna útkomu bókarinnar Dancing Horizon hafi hann lýst létti sínum yfir því að nú þyrfti hann aldrei að hugsa um þessi verk meira aftur á ævinni. Og frá því ég kynntist honum síðar, eftir þessi óeiginlegu kynni í æsku, hefur það alltaf verið tilfinning mín að honum leiðist að margir hverjir geti ekki hætt að tala um þessi verk og hversu stórkostleg þau séu. Yfirlit yfir þau hafa komið út tvisvar áður, fyrst í stórri yfirlitsbók sem nú er ófáanleg og síðan árið 2010 í bókinni Situations sem kom út í tilefni af sýningu í Listasafni Reykjavíkur sama ár. Sú bók var alveg falleg, soldið svona hress og dáldið barn síns tíma ef við miðum við þá útgáfu sem nú hefur litið dagsins ljós frá Crymogea-útgáfunni. Situations hefur að geyma inngang og ritgerð á íslensku, auk nokkuð greinargóðs yfirlits yfir ljósmyndaverk hans frá árinu 1971-1982. Dancing Horizon ber með sér að vera hin endanlega útgáfa þessara verka og er því „tímalaus“ – klassískur gripur – stílhreinn, áferðarfagur og sómir sér á hverju heimili/kaffihúsi/safni/kósetti osfrv. Einn helsti kosturinn við Dancing Horizon er sá að verkin eru í tímaröð svo hægt er að skoða öll verkin frá hverju ári fyrir sig í samhengi, en einnig má nefna að ljósmyndaverkin njóta sín betur þegar ekki er verið að klessa heitum myndanna ofaní þær (eins og gert var í Situations). Mest er þó um vert að þetta er hin endanlega útgáfa, þarna eru öll verkin og sum hver hafði a.m.k. ég ekki hugmynd um að væru til (t.d. Joining the Ten Commandments, 1974). Þetta er því bók sem ætti að vera skyldueign á hverju heimili.

 

(Fragment, 1977)sg fragment 1977

 

Verk fyrir alþjóðlegan markað

Þó að segja megi að Dancing Horizon sé grundvallarrit um ljósmyndaverk Sigurðar þá er það ekki hafið yfir gagnrýni og eins má velta því fyrir sér hvort hún hafi aðeins verið hugsuð fyrir erlendan markað þar sem allur texti er á ensku. Helsti gallinn er sá að hún bætir í sjálfu sér ekki miklu við (í inngangs-ritgerð og viðtali í eftirmála) ef fólk hefur kynnt sér verk og lífsviðhorf Sigurðar áður. Bæði verð ég að segja að inngangs-ritgerð Lily van Ginneken sökkvi sér ekki djúpt í þann áhugaverða hugmyndafræðilega jarðveg sem Sigurður sprettur úr ef horft er til hins evrópska samhengis sem hann hrærist í og þeirri áherslu á sjálfskoðun – jafnvel andlegan og tilvistarlegan grundvöll listarinnar – sem ljósmyndaverkin eru sannarlega sprottin úr. Ritgerð van Ginneken er þó mun kjötmeiri en inngangur Michaelu Unterdörfer sem leiddi inn í Situations, svo kannski ber að fagna því frekar en að segja að það sé að nokkru leyti miður að inngangurinn sé ekki fullkominn í ljósi þess að þetta er hin endanlega útgáfa verkanna. Enda sýnist sitt hverjum.

Stærsti gallinn á verkinu, ef fólk þyrstir í nýtt efni frá þessum fjölhæfasta hugsuði íslenskrar listasenu (á efri árum vatt hann sér yfir í bókmenntirnar og hafa tvær síðustu bækur hans verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta) er sá að viðtalið í enda bókarinnar er hálfgerð upprifjun á endurteknu efni auk þess að vera greinilega ensk þýðing á viðtali sem fram fer á íslensku. Hér er ekki um eiginlegan galla að ræða heldur verður þessi blanda af „spjalli“ og greiningu Kristínar Dagmarar Jóhannesdóttur listfræðings og Sigurðar hálf ástríðulaus texti (sem er eiginlega bannað þegar kemur að jafn ástríðufullum manni!). Vísað er til frekar nýlegs efnis um verk hans en lítið til áhrifavalda á þeim tíma sem verkin verða til auk þess sem margt af því áhugaverðasta sem Sigurður hefur sett fram um listina og vinnuaðferðir sínar – og er að finna í ritverkum hans – er einhvernveginn ekki undir, heldur t.d. glefsur úr viðtalsbók eftir annan höfund. Slíkt efni getur verið fróðlegt en gerir viðtalið sjálft ekki að atburði í sjálfu sér. Vel hefði mátt leggja meira í að kalla fram „ný sjónarhorn“ með því að gefa t.d. yngri listamanni undir áhrifum frá Sigurði tækifæri á að kryfja verk hans, heldur en að vísa í fyrri svör hans við almennum spurningum og bæta því við „hvort hann sé ennþá sammála viðhorfinu“. Ritstýring Kristínar er þó almennt til fyrirmyndar þegar horft er til þess að hér er um að ræða þá útgáfu af ljósmyndaverkunum sem eigulegast er.

Rómantísk ljóð og hyldjúpur húmor

Sigurður er listamaður sem hefur endurnýjað sig allrækilega síðan þessi ljósmyndaverk voru meginviðfangsefni hans, án þess þó nokkurntíma að hann hafi hætt að vera bara við sama heygarðshornið, með sama þankaganginn. Lily van Ginneken víkur að því í lok inngangs síns hvað Sigurður sé að fást við í dag í þeim verkum sem sprottið hafa uppúr því andlega ferðalagi sem Sigurður tók sér á hendur með ritun bóka eins og Ósýnilega konan (SG-tríóið leikur og syngur) og Dýrin í Saigon. Sigurður hefur húmor fyrir sjálfum sér og innsýn í að djúp þekking á harmi (melancholies) hefur mikið með það að gera að vera fyndinn án þess að þurfa hlæja. Það er ágætlega rakið í því efni sem fylgir myndunum úr hvaða anda og umhverfi þau spretta, hvernig leikur með orð og ígrunduð úrvinnsla úr hugmyndum sem spretta af íhugun djúprar lífspeki, geta skilað sér í þessum tæru rýmis- og höggmyndakenndu verkum sem þessi einföldu ljósmyndaverk eru. Staðreyndin er sú að þau eru ekki bara tilraunir til að vera eitthvað fyndinn heldur abtraktsjónir sem hreyfa við manni á einhvern djúpan og ómótstæðilegan hátt. Það er mælikvarði á tilfinningagreind fólks að athuga hvernig það tekur þessum verkum Sigurðar. Þessvegna skaltu hafa þessa bók á stofuborðinu. Sumum þarftu kannski ekkert að bjóða aftur í heimsókn. Því ef þeir sjá ekki fegurðina í þessu, tja… þá bara…

Gleðileg jól með SG tríóinu

 

sg composition 1978 Composition, study 1978

 

 

Arnaldur Máni Finnsson