Djásn, eftir Sif Sigmarsdóttur, er framhald af bókinni Múrnum sem kom út í fyrra en með henni lýkur Freyju sögu. Freyju saga gerist á Íslandi eftir rúmlega 100 ár. Á þessum hundrað árum hefur margt breyst á Íslandi. Í kringum árið 2033 hvarf strandlengja Íslands undir sjó og Íslendingar fluttu upp á miðhálendið, í kringum eldfjallið Ginnunga. Sjötíu árum eftir landflutningana gaus Ginnunga og Íslendingar skiptust í níu ættbálka sem stofnuðu níu borgir sem í fyrri bókinni eru kallaðar lönd og Ísland heimsálfa. Ættbálkur Freyju stofnaði borgina Dónol og var fljótlega byggður feiknarstór múr kringum borgina alla sem hamlar ferðafrelsi íbúa borgarinnar og kemur í veg fyrir að utanaðkomandi komist inn. Borgin er kynt með kolum, er grá og hrörleg og öll þægindi nútímans eru horfin. Í Djásni kemur í ljós að ástæða hvarfs strandlengjunnar var hamfaraflóð, kallað Hegningarflóðið, sem sumir telji að hafi orsakast af loftsteinahrapi. Íslendingar eru eina þjóðin sem lifði flóðið af – þó reyndar sé opnað fyrir möguleikann á öðrum eftirlifendum í síðasta kafla Djásns.
Í Djásni hefur Freyja flúið Dónol og fundið föður sinn. Í stað grámans í Dónol býr hún nú í Vanheimum, sem á yfirborðinu virðist vera fyrirmyndarríki. En brátt kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist og að Freyja hafi flúið úr einu fasistaríkinu yfir í annað. Þrátt fyrir flóðið, landflutningana og einangrunina búa íbúar Vanheima við öll þau þægindi og munað sem Íslendingar 21. aldarinnar gera. Þar eru snjallsímar, tölvur, internetið, urmull af marmara, efniviður í að byggja háhýsi og margt fleira. Í Vanheimum er Freyju fagnað sem lausnara hins sameinaða ríkis Íslands í heimatilbúnum trúarbrögðum föður hennar, forseta Vanheima og hins sameinaða ríkis, og þarf hún að ákveða hvort hún ætli að lifa áhyggjulaus í vellystingum og forréttindum í forsetahöllinni eða bjarga vinum sínum í Dónol og íbúum Íslands alls.
Freyju saga er dystópía. Dystópíur hafa sem bókmenntagrein notið mikilla vinsælda síðastliðin ár, dugir þar að nefna hinn gríðarlega vinsæla þríleik The Hunger Games eftir Suzanne Collins og Divergent þríleikinn eftir Veronicu Roth, en úr báðum þessum þríleikjum hafa verið gerðar afar vinsælar kvikmyndir. Sif Sigmarsdóttir hefur sjálf sagt um Freyju sögu að hún sé nokkuð í anda Hungurleikanna (Fréttatíminn 22. nóvember 2013) og þótt ekki hafi mikið farið fyrir líkindunum í fyrri bókinni má sjá augljósar samsvaranir í seinni bókinni – stundum helst til of nánar.
Persónusköpun í bókinni er góð og tekst Sif vel upp með það. Freyja er sannfærandi unglingur sem nær að stíga fram þegar þörf krefst án þess þó að verða að ósannfærandi ofurmanneskju. Flestar persónur eru flóknar og margþættar, það eru aðeins illmennin sem er nokkuð þunn og einhliða ill. Þá er söguþráðurinn spennandi, nokkrum sinnum fór hjartað að banka hraðar og ég datt reglulega í lesturssvindl, að gjóa augum neðar á blaðsíðuna því ég gat ekki beðið eftir að vita hvað gerðist næst. Samfélagsmyndin sem birtist í sögunni var myrk, en þó ekki ótrúleg. Geðþekkur og sterkur leiðtogi hefur, með hjálp oftrúar á meinta yfirburði Íslendinga, trúarbragða og neysluhyggju, náð algjörri stjórn á landinu og kemst upp með hvað sem er meðan fólk horfir með andakt á hann upphefja sjálfan sig í vikulegum beinum sjónvarpsútsendingum.
Í dystópíum er gjarnan fjallað um umhverfishörmungar, fasistastjórnir og algjöra hnignun samfélagsins. Þetta eru því að jafnaði ádeilubókmenntir sem benda á hversu illa getur farið ef samfélagið hefur ekki varann á, hvort sem er gagnvart loftslagsbreytingum eða valdasjúkum stjórnvöldum. Sif tekur þetta með trukki og sparar ekki ádeiluna, raunar er það svo að hún fer yfir strikið og sagan rennur út í mjög augljósan áróður. Það er þunn lína milli ádeilu og áróðurs og byggist sú lína helst á lesandanum, gangi ádeilan of langt er hætt við að lesandi skynji listina ekki lengur sem list, heldur aðallega sem áróður höfundar. Fyrir mitt leyti varð það meira áberandi eftir því sem ég las lengra að hér var um að ræða áróður og listin leið fyrir það. Í upphafi lesturs var ég mjög jákvæð, hugsaði „jess, loksins hressandi ádeila sem rífur vel í!“, enda almennt hrifin af ádeilubókmenntum, en eftir því sem á leið varð ég leiðari og leiðari á hversu boðskapnum var troðið upp á mig. Þegar persónur voru farnar að halda einræður um skaðsemi stöðu samfélagsins komu upp hugrenningartengsl við viðvörunarsögur á borð við Strýhærða Pétur – ef þú passar þig ekki þá mun fara illa fyrir þér.
Sif er þekktur pistlahöfundur, hefur lengi skrifað pistla í Fréttablaðið og fer þar oft mikinn. Það er hins vegar mikill munur á að skrifa pólitíska pistla í dagblað og að skrifa bókmenntatexta, væntingar lesenda eru aðrar og þeir setja sig í ólíkar stellingar eftir því hvort þeir taka upp dagblað eða bókmenntaverk – hér virðist sem Sif hafi ekki náð að kúpla sig nægjanlega vel út úr hlutverki pistlahöfundar til að ádeilan gangi upp. Höfundurinn vék fyrir pistlahöfundinum, ádeilan fyrir áróðri.
Lengst af var ég, þrátt fyrir áróðurinn, sáttari við Djásn en Múrinn. Grunnforsendur heimsins trufluðu mig ekki jafn mikið og þær gerðu í fyrri bókinni, en þá gat ég engan veginn sæst við forsendurnar – enda voru þær aldrei útskýrðar, að hluta til reyndar vegna þess að Freyju og íbúum Dónol var meðvitað haldið frá slíkum upplýsingum. Vissulega trufluðu mig ennþá öll þessi kol, og í Djásni bættist við ótrúlegt magn málma og annarra frumefna, meðal annars svokallaðra lanþaníða, sjaldgæfra málma sem notaðir eru í ýmis nútímatækniþægindi eins og sjónvarps- og snjallsímaskjái. Þessir málmar, sem upp á ensku eru kallaðir „rare earths“, eru það dýrir og sjaldgæfir að vísindamenn keppast við að finna leiðir til málmvinnslu á smástirnum til að uppfylla óþrjótandi þörf jarðarbúa fyrir þessa málma. Hvergi var útskýrt hvernig á sléttu á hálendi Íslands fyndist skyndilega eftir 100 ár nægur málmur til framleiðslu á tölvum eða snjallsímum eða hvaðan þekkingin og tæknin til að búa til slík tól kom. Þetta vakti of margar spurningar sem erfitt var að svara – hefði ekki verið lögð svo mikil áhersla á að sagan gerðist á Íslandi eftir 100 ár hefði þetta ekki truflað mig. En ég var þó tilbúnari til að fyrirgefa þetta við lestur annarrar bókarinnar en þeirrar fyrri.
Þegar fjórar blaðsíður voru eftir af bókinni varð ég hins vegar fyrir gríðarlegum vonbrigðum er ég rakst á eina stærstu fléttuvillu sem ég hef séð í langan tíma. Erfitt er að fara út í hana án þess að spilla söguþræði fyrir lesendur en í stuttu máli má segja að til að áróðurinn næði hápunkti á lokametrum sögunnar „gleymdi“ aðalpersóna sögunnar, Freyja, atburðum sem áttu sér stað í kringum morð einnar persónu nokkru fyrr. Þessi fléttuvilla er það alvarleg í mínum augum að ég á bágt með að trúa að hún hafi óvart sloppið í gegnum ritstýringu. Mig grunar að hér hafi pistlahöfundurinn aftur náð yfirtökunum og leyft áróðrinum að ná yfirhöndinni yfir listfenginu og er það miður því bókin er alls ekki slæm tilraun til dystópískra fantasíuskrifa.
Það er gaman að fantasíuformið virðist vera að ná sér á strik á Íslandi, en það má ekki slá af kröfunum þegar um er að ræða unglingabókmenntir eða fantasíur. Að skrifa fantasíu krefst mikillar tækni og vinnu sem má alls ekki vanmeta. Meistari fantasíunnar, J.R.R. Tolkien, lýsti þessu vel í ritgerð sinni „On Fairy-Stories“ (pdf-hlekkur) og er ekki úr vegi að enda þessa rýni á orðum hans:
To make a Secondary World inside which the green sun will be credible, commanding Secondary Belief, will probably require labour and thought, and will certainly demand a special skill, a kind of elvish craft. Few attempt such difficult tasks. But when they are attempted and in any degree accomplished then we have a rare achievement of Art: indeed narrative art, story-making in its primary and most potent mode.