Ein af meginástæðum þess að íslenska tónlistarskólakerfið er eins sterkt og raun ber vitni er sá mannauður sem starfar innan skólanna. Menntunarstig stéttarinnar er hátt og nemendur hafa aðgang að færustu sérfræðingum á sínu sviði. Í fáum öðrum löndum kenna leiðandi hljóðfæraleikarar þjóðarinnar á framhaldsstigi og allt niður í grunnstig. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi hópur haldi áfram að kenna og miðla áfram dýrmætri þekkingu og reynslu. Þau eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir þá kynslóð tónlistarmanna sem er að vaxa úr grasi. Það er ekki hægt að ætlast til að sérfræðingar sinni kennslu í sjálfboðavinnu, hvorki í tónlist né öðrum greinum.