Á heimasíðu Forlagsins segir um skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, Segulskekkju, að hún sé „saga um lífsviljann og þá krákustíga sem manneskjan fetar í leit að sátt við eigin tilvist.“ Hildur von Bingen er við uppgröft í Karijoki í Finnlandi þegar móðir hennar fellur frá og hún ferðast til Flateyjar um miðjan vetur til að mæta í jarðarförina. „Í vetrareyjunni rekur sálma, drauma og minningar á land sem þvinga hana til að rýna í sitt eigið sár og horfast um leið í augu við hina goðsagnakenndu Siggý – móðurina sem rís reglulega úr ösku með sólina í höfðinu.“
Segulskekkja er fyrsta skáldsaga Soffíu, sem er þó enginn nýgræðingur í bókmenntum – allt í senn menntuð í bókmenntafræði, ritlist og leikhúsfræðum – og hefur þess utan skrifað leikrit. Starafugl las Segulskekkju og skrifaðist svo á við Soffíu frá mánudegi til föstudags í nóbelsverðlaunaviku – afraksturinn má sjá hér að neðan.
Skáldskapur er tilraun um sannleika
– Segulskekkja – bls. 87-88
Eiríkur: Stemningin í Segulskekkju er dálítið áhugaverð – einhvern veginn áfeng eða höfug, mér datt í hug Duras, Brautigan eða Woolf, Gyrðir á köflum, Kalman á köflum – textinn sjálfur jafnvel í aðalhlutverki. Mig langar að byrja á að spyrja einfaldlega – eða kannski alls ekkert einfaldlega, kannski fullt af flækjum og útúrdúrum – hver sé afstaða þín til stíls? Ekki endilega versus plott – heldur bara hvernig þú hugsir um textann sem slíkan, hvað hann eigi að gera, hvert sé hlutverk hans í gangverki bókarinnar, hvaða áhrif hann eigi að hafa á lesandann?
Soffía: Texti er auðvitað svo margt. Allur heimurinn. Texti er seiður ekki ólíkur andardrættinum. Best er þegar texti nær tökum á okkur með undirtexta, hljómi, marglaga táknum. Það getur oft verið betra að skynja fremur en skilja vefnaðinn, sem og alla aðra list. Eða bara hreinlega að elska hann eða elska hann ekki ef maður vill vera beisik. Merking og skilningur er oftar en ekki til trafala þó að hausinn á okkur komist ekki undan merkingunni. Já, texti getur verið hreyfing sem færir lesanda úr stað, dregur hann á óvæntan stað innra með sér. Það eru líklega þau áhrif sem mig langar að texti hafi. Að hann ölvi eins og sagt er í ljóðinu góða, svo ég er glöð með vímuna sem Segulskekkja mögulega veitir.
Svo er það þetta með stíl. Ég hef alltaf átt erfitt með að skilgreina hvað stíll er og hvernig hann verður til. En líklega er stíll eitt það persónulegasta í skrifum. Hann verður til úr höfundinum og er svona hæfilega mikið af efni og anda. Ef það væri lykt af stílnum þá væri það líklega sama lykt og er af blóði þess sem skrifar.
Þú nefnir nokkra höfunda. Woolf er drottningin. Hún er mín María mey. Texti hennar er flókinn vefnaður og góður fyrir heilann. Hún var sterk persóna sem gott er að hafa vomandi yfir skáldskapnum. Hún minnir mig á einhvern hátt alltaf á það hvað raunverulega skiptir máli. Ég veit samt ekki alveg af hverju. Gyrðir hefur löngum verið einn af mínum eftirlætis höfundum þegar litið er til íslenskra skálda. Texti hans er einstaklega næmur og það þarf að gefa honum gott andrými.
Annars hef ég verið að fá þessar spurningar um stíl og það sem mér dettur fyrst í hug eru orð Þorvaldar Gylfasonar sem sagði eitthvað á þá leið að stíl væri ekki hægt að læra því hann væri persónan sjálf. En kannski orðaði hann þetta á annan hátt. Þetta er alla vega sú merking sem ég man eða setti í orðin. Skáldskapur myndar djúpa nánd við okkur sjálf og heiminn en einnig djúpa djúpa gjá á milli. Hann er samt það eina sem við höfum að halda okkur í, sveimérþá, kannski einmitt vegna þess að hann er tilraun um sannleika og á sama tíma þessi stórkostlega efasemd um hann. En ég held að það sé óhætt að segja að textinn sjálfur – skáldskapurinn leiki eitt af hlutverkum þessa verks.
Sturlunin leitar hana uppi
Eiríkur: Kannski verður maður það sem maður les, kannski var maður það áður en maður byrjaði að lesa, kannski bara rétt á meðan, og kannski er óhjákvæmilegt að eitthvað af þeim spurningum sem komi upp í hugann við lestur séu furðu sjálfhverfar – maður er þrátt fyrir allt einn með bókinni meðan maður les, þótt maður sé að búa sig undir viðtal við höfundinn. En sem sagt, verandi frá Ísafirði og hafandi búið í Finnlandi í tæplega fimm ár situr fast í mér spurningin sem Hildur von Bingen, sögumaður og -hetja bókarinnar, spyr sjálfa sig seint í bókinni, hvort sé betra að sturlast á hjara veraldar eða í gufubaði í Finnlandi.
Áttu við því nokkuð svar, tilraun til svars eða útfærslu á spurningunni? Er það kannski keimlíkt að vera á hjara veraldar og í gufubaði í Finnlandi – eru þetta einhvers konar afdrep? Ég þekki fólk sem hefur falið sig á svona stöðum, grafið sig á svona stöðum, til að sleppa undan heiminum og fá andrúm til að sturlast.
Soffía: Við getum upplifað okkur á hjara veraldar hvar sem er í veröldinni. Inni í eldhúsinu hjá ömmu, á afskekktri eyju, á næsta bar, uppi í fjöllum, inni í skógum og hjá næsta kaupmanni. Ein og með öðrum. Já, og líka í gufubaði, þess vegna. Reyndar vil ég nú meina að í gufubaðinu sértu nær þínum eigin kjarna, en það er annað mál. Á einhvern hátt erum við alltaf á hjara veraldar innra með okkur. En þarna inni í höfðinu og öllu því erum við alltaf á einhverjum endimörkum. Ísland er svo sem líka á mörkunum, hvað varðar staðsetningu og það er stór spurning hverju þessi þjóð í raun tilheyrir. Svo þykjumst við vera einhver miðpunktur, svona á vissum augnablikum.
Hildur von Bingen hefur verið á flótta undan tilverunni. Það er eins og sturlun eða þetta þunga blý elti hana uppi, hvert sem hún fer. Jafnt til Finnlands sem annað. Spurningin er auðvitað hvort staðsetning okkar í tilverunni skipti máli. Hún hlýtur að gera það en á sama tíma erum við öll í eilífum pólskiptum. Það er staglast á því nú til dags að vera í núinu. Það er ekki svo galið að minna fólk á hvar það er statt en samt erum við á sama tíma ávallt stödd á mörgum tímum í einu, og þar með á mörgum stöðum. Þessi tímaskekkja býr í okkur. Ég er ennþá 10 ára, bráðum 40 ára og svo er ég mögulega 95 ára. Allt á sama tíma. Ákkúrat núna.
„Ég er ekki ég, ég er annar“ (Megas)
Ég skil vel hana Hildi von Bingen að vilja sleppa frá heiminum en ég veit líka að það er hættulegt. Það að vilja sleppa undan því sem bindur hana við tilveruna og undan fortíð sinni, undan skömminni sem ofsækir hana eins og uppvakningur. Þetta er allt mannlegt. Það sem hefur gerst hjá Hildi von Bingen er að hún hefur fjarlægst sjálfan sig og þorir varla að taka ábyrgð á því að draga eigin anda. Hún liðast áfram eins og ánamaðkur í mold, slitin í sundur, hún er föst í þessu bili. Og hún ferðast um með eitthvað eldgamalt í farteskinu, eitthvað þungt og dimmt frá fyrri tíð, jafnvel langt fyrir hennar tíð.
Eiríkur: Hvernig lestu sjálf – rekstu svona á sjálfa þig í bókum annarra?
Ég les bæði af köllun og líka af skyldu. Best finnst mér þegar ákveðin verk tæla mig til sín, næla í mig óvænt. Koma kannski á hárréttum tímapunkti til mín. Og þá skil ég ekki af hverju textinn rataði ekki fyrr til mín. En allt hefur sinn tíma. Stundum set ég mér nú líka bara fyrir og ákveð að ég verði að klára þetta og hitt. En ég les alveg hryllilega hægt og þarf að aga mig. Með aldrinum virðist ég þurfa að fara af landi brott til að sökkva mér af alvöru ofan í bækur.
Jú, ég finn mig auðvitað í bókum eins og líklega aðrir, en meira út frá stemmingu og tilfinningu. Ekki beint í persónum. Síðasta bók sem höfðaði á þann hátt sterkt til mín var bókin: Allt er ást eftir Kristian Lundberg. Hún talaði óvenjusterkt til mín. Þetta rými fyrir orð, tíminn, endurtekningarþemað. Auðvitað ástin og allur heimurinn sem þessi saga birtir. Við erum alltaf að endurtaka okkur, erum stödd í einhverju tungumáli, í tímavillu. Tungumálið er líka bölvuð þráhyggja. Mögnuð og falleg bók.
Fjarvera dauðans breytist í nærveru
Eiríkur: Ég les líka mjög hægt – yfirleitt, oftast nær, ekki alltaf, einstaka sinnum er einsog ég fyllist einhverjum óþekktum krafti og ryð þá í mig miklum fjölda bóka á stuttum tíma. En almennt les ég hægt og fyllist fyrst vanmáttartilfinningu – þegar ég skil ekki, þegar ég sóna út – og svo skömm yfir að liggja alltaf svona mikið á.
Þú hefur skrifað ritgerð um fagurfræði dauðans í skáldskap – aðgangur er lokaður á Skemmu, svo ég hef ekki lesið hana, en í útdrætti stendur meðal annars:
Í Segulskekkju er það dauði móðurinnar, sköpunarkraftsins, sem vofir yfir öllu og kallar Hildi heim frá Finnlandi. En ofan í dauðann er líka erótískur, trúarlegur og rómantískur tónn í bókinni. Á leiðinni til Flateyjar kemur Hildur t.d. við í Hallgrímskirkjuturni þar sem hún verður vitni að því að maður fróar konu með öllum tíu fingrum – skömmu áður hefur Pétur, bróðir Hildar, lofað henni að hún geti ekki brugðist Guði, einsog hún óttast, og tvítekur varíant af „tíu fingur upp til guðs“ romsunni (án þess að vilja nefna guð, frekar en djákninn á Myrká). Þegar Hildur kemur svo út í Flatey verður hún ástfangin – eða í það minnsta mjög hugfangin. Sem kallar aftur upp í hugann orð Siggýjar – sem segist eina stundina ekki geta lifað án þess að vera ástfangin, en aðra að ástin sé ofmetin og útjöskuð hugmynd, en kynlíf aftur á móti grunnþörf sem hættulegt sé að vanmeta.
Kannski er ekki hægt að spyrja stærri (og ósanngjarnari) spurningar en hvert sé samband dauða, fegurðar, ástar og kynlífs í Segulskekkju – eða almennt – en ég er að hugsa um að gera það bara samt.
Soffía: Ég veit ekki hvort ég eigi að fara út í þessa sálma. Ég sekk við tilhugsunina. Ærist. Það er rétt að ég hef fengist við fagurfræði og samband skáldskapar og dauða. En þetta samband skáldskaparins við dauðann er mér mjög hugleikið. Dauðinn birtist okkur í skáldskap og í hugsun okkar í formi fantasíunnar. Hann er myndhverfing grafin inn í mannlega tilveru og verður til út frá margvíslegum hugmyndum um líkama, anda, trú og fleira. Hann er handan við okkur og það er einfaldlega annsi flókið að gera sér mynd af stærð hans. Ég held það sé samt mjög mikilvægt og veiti okkur aðgang að okkur sjálfum og eigin tilveru. Sú tilgáta hefur verið sett fram að við lifum einungis mennsku lífi þegar við lifum kveðjandi. Það eru kannski örlög Hildar von Bingen í Segulskekkju að hún er að kveðja til þess að geta endurnýjast, til að eiga möguleika á mennsku lífi. Annars var það ekki meðvituð hugsun mín með skrifunum. Ég er nú bara að velta þessu upp núna. Ég skrifa að mestu úr undirvitundinni og þar liggur væntanlega allt það efni sem maður hefur fengist við og upplifað og skynjað á einn eða annan hátt.
Eftirlætis bók í æsku margra er Bróðir minn Ljónshjarta. Þar deyja bræðurnir ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Árið 1973 þegar bókin kom út þá vildi fólk jafnvel banna hana. Þetta þótti ekki boðlegt. Slíkt gerir þessa gersemi auðvitað bara betri ef eitthvað er. En það er auðvitað einungis í skáldskap sem hægt er að deyja tvisvar. Svo það má segja að skáldskapurinn sigri dauðann í Bróðir minn Ljónshjarta. Eins er það með Evridísi hans Orfeusar í goðsögu Óvíds. Hún deyr jú tvisvar. En sorg okkar er dýpri varðandi lífið sjálft heldur en dauðann. Kannski er falin ákveðin þverstæða í því.
En við erum jú að tala um skáldskaparrými sem getur verið ákveðið rými dauðans og þar er þráin eftir fegurð umtalsverð. Sú þrá fjallar kannski helst um glímuna við að vera á lífi. Að vera manneskja sem dregur andann. En gæti einnig verið þráin eftir holdtekju skáldskapar. Fjarvera dauðans úr daglegu lífi á það til að breytast í nærveru þegar kemur að bókmenntum. Það má sjá þá nærveru sem uppsprettu gleði og lífsvilja þar sem nálægðin við dauðann gefur lífinu gildi. En fagurfræði dauðans felur einnig í sér að við hylmum yfir þeirri staðreynd að við eyðumst, rotnum og hverfum. Og nágranni og vinur Siggý á erfitt með að fanga þessa hugsun og spyr einmitt: Hvert hverfur heimurinn?
Glíma bæði Hildar og Siggý er fyrst og síðast glíman við ástina. Ástin á sjálfum sér, öðrum og heiminum. Best að segja ekki meira um það að sinni. Varðandi hina brútal senu í kirkjuturninum góða þá undirstrikar hún Hildi sem áhorfanda í veröldinni og segir okkur einnig til um að kannski langar hana að fá að vera með í þessu sem kallast líf og lífsgredda. Þar birtast bæði trúarþráin sem og sú holdlega. Þær sameinast kannski í þrá eftir að hafa aðgang að hjartslætti. En það er hættulegt að fara að greina eigið verk um of. Kynlífið tengist lífinu, dauðanum og ástinni. Það er líklega augljóst. Annars er Siggý með ýmsar hugmyndir um heiminn til að réttlæta sig og jafnvel til að komast af. Hún prentar það vel inn í dóttur sína Hildi að allar tegundir muni deyja út.
Með annan fótinn í ímyndun en hinn í moldugum hversdagsleika
Eiríkur: Ég trappa mig niður – og langar að vita um tengsl Hildar við nöfnu sína rithöfundinn og sjáandann Hildegard – og kannski líka tengsl Kafkas við Franz? Þau eru bæði uppnefnd svo af Siggý og kemur aldrei fram hvað Kafka heitir.
Nöfnin eru lýsandi fyrir Siggý og tengsl hennar við dóttur sína og vin sinn, sem og við annað fólk. Það er jú hún sem hefur gefið þeim þessi nöfn: Hildur von Bingen og síðan vinur hennar og nágranni sem hún kallar Kafka. Upplifun okkar af skáldsagnapersónum breytist töluvert eftir því hvaða nafn þær bera. Það gefur okkur eitthvað. Við erum nafn okkar og svo erum við auðvitað alls ekki nafn okkar. – Reyndar getur það verið banalt að lýsa persónum um of með nöfnum sínum. Ég hef samt stundum gaman að því sem er banalt og jafnvel klisjukennt. Þannig að Siggý fær að gefa þeim þessi nöfn, ég kem auðvitað ekki nálægt því. – Ég leyfði mér þó að hafa djáknann Þeófílus Ragnarsson á stjákli í bókinni.
Ljósvallagötu-Kafka kom einfaldlega bara til mín, svo maður haldi sig við góðar klisjur. En hann spratt þarna upp í stigaganginum hennar Siggý á Ljósvallagötunni. Hún var nefnilega ekki í sambandi við neinn nema köttinn til að byrja með en sá heimur varð annsi einsleitur og jafnvel sjálfhverfur. Svo einn daginn þegar Siggý var á leiðinni niður stigann þá mætir hún þessum manni sem minnir hana á rithöfundinn Kafka og hann fer að spyrja hana mikið um dagblöðin og hver skrifi þau og honum liggur mikið á hjarta. Og það myndaðist strax svo skemmtileg kemistría á milli þeirra nágranna sem ég varð að halda áfram með. En þetta er ekkert í bókinni, aðdragandi að þeirra vinskap kemur ekki fram. Svona gerðist þetta nú samt. Svo leiðir eitt af öðru og mér finnst í og með eins og ég sé að gera eitthvað sem ég má ekki, að taka svona stórfenglegt nafn og skella því í stigagang nálægt kirkjugarði. Ég hef gaman að því þegar persónur standa með annan fótinn á sviði ímyndunar og hinn í moldugum hversdagsleikanum.
Siggý kallar Hildi þessu eftirnafni – von Bingen, fyrst og fremst vegna trúarþorstans. Hildur von Bingen leitar líka í ljósið smám saman í Segulskekkju. Hún ferðast frá myrkrinu í sér, eða horfist í augu við það. Hildegard von Bingen frá 12. öld sá víst sýnir og heiminn í ljósinu. Tónlist hennar er undursamleg og veitir lífskraft, eða í það minnsta örlitla von og trú á fegurð í kosmísku samhengi. Siggý skrifar Hildi bréf og biður hana að hafa trú og passa upp á orðin.
Eiríkur: Hresst og skemmtilegt að lokum: Hvernig leggst fyrsta jólabókaflóðið í þig? Hvað finnst þér um jólabókaflóðið, sem fyrirbæri? Heldurðu að það hafi neikvæð áhrif á líftíma bóka, jákvæð áhrif á menningarumfjöllun, er það bara einsog það er – lífrænt ferli, einsog fjöllin og vatnið – eða skapað einsog bílastæðin í Kringlunni?
Jólabókaflóðið leggst hvorki vel né illa í mig. Það er eitthvað hressandi við það en á sama tíma skelfilegt. Þetta er söluvænlegur tími en hann hefur kannski ekkert mikið með bókmenntir að gera. Það er hætt við að menningarumfjöllun þynnist út í slíku kraðaki. Samt sem áður hef ég hreint ekkert á móti jólabókaflóðinu og spenningurinn fyrir nýjum bókum verður skemmtilega áþreifanlegur. Ég vildi sjálf gefa út að hausti. En vissulega er hætta á því að líftími bóka verði örstuttur og þeim sé bara skolað út. Ég sé fyrir mér Karíus og Baktus á viðarpramma. Maður er fastur í kjaftinum á Jens og er svo skolað út af tannburstanum, lengst út í ballarhaf.