Á menningarvefum birtast myndir. Þessar myndir eru alla jafna af því tagi að telja megi til kynningarefnis listamanna eða liststofnana. Stundum eru það einfaldlega myndir af höfundum eða umfjöllunarefnum og stundum af listaverkum þeirra.
Í gær barst Starafugli kröfubréf frá samtökunum Myndstef þar sem fullyrt var að ljósmynd hefði verið birt í leyfisleysi á vefnum og fuglinn væri skyldugur að greiða fyrir notkun hennar með 100% álagi og taka hana svo niður. Um er að ræða ljósmynd Ásgeirs Ásgeirssonar – Geirix – af endurreisnarskáldinu Sölva Fannari og birtist hún í umfjöllun um Sölva Fannar sem margir töldu heldur harðorða og afdráttarlausa. Svo mjög raunar að fjallað var um það sérstaklega í öðrum fjölmiðlum.
Það var og er mat ritstjóra að umrædd mynd, sem birst hafði samhliða ljóðum Sölva í ótal miðlum, væri óaðskiljanlegur hluti af því póstmóderníska listaverki sem Sölvi Fannar hefur framið í fjölmiðlum undanfarið misseri, og myndbirtingin sé þar með ekkert annað en tilvitnun í heildarverkið sem var til umfjöllunar. Hin íkoníska ljósmynd er raunar svo óaðskiljanleg frá höfundarverki Sölva Fannars, einsog það hefur verið kynnt almenningi, að furðum sætir að athafnaskáldið hafi ekki greitt ljósmyndaranum sérstaklega fyrir notkun í kynningarstarfsemi – líkt og menn greiða hönnuðum plötuumslaga eða þeim sem taka aðrar kynningarmyndir listamanna.
Í höfundalögum, öðrum kafla, 15. grein stendur auk þess skrifað:
Heimilt er að birta í blöðum, tímaritum, sjónvarpi og kvikmyndum myndir eða teikningar af birtum listaverkum í sambandi við frásögn af dægurviðburðum.
Öll umfjöllun um póstmóderníska list Sölva Fannars sem horfir framhjá þessari ljósmynd – sú umfjöllun sem getur ekki leyft sér að birta hana – er ekki bara hjákátleg heldur bókstaflega ómöguleg. Hún er geld og bundin í báðar skó. Við slík starfsskilyrði getur enginn menningarfjölmiðill unað, síst af öllu sjálfboðamiðill; þau eru óþolandi.
Tekið skal skýrt fram að það er ekki ritstjórnarstefna á Starafugli að ljósmyndarar eigi ekki að fá greitt fyrir verk sín. En taka verður hverja ljósmynd fyrir sig og skoða í hvaða samhengi hún birtist. Starafugl birti ekki mynd Ásgeirs Ásgeirssonar eina og sér sem sjálfstætt verk, lét ekki prenta hana á boli eða birti hana samhengislausa á annan hátt. Hún var birt sem hluti af umfjöllun um verk sem hún tilheyrir – því fjölmiðlaleikriti sem Sölvi Fannar hefur sett á svið.
Við þetta má bæta að þegar það er háð duttlungum hvort innheimt sé fyrir notkun mynda af þessu tagi þá þýðir það að dýrara verður að birta neikvæða eða flókna umfjöllun um listaverk/fólk en jákvæða. Því auðvitað rukkar enginn fyrir einfalt lof um sjálfan sig.
Starafugl er menningarvefur sem fram til þessa hefur verið rekinn í sjálfboðaliðavinnu. Tilfallandi kostnað hefur ritstjórn tekið á sig. Vefurinn er rekinn án styrkja og auglýsinga. Þurfi Starafugl að eiga yfir höfði sér að í hvert sinn sem hann fari afdráttarlausum orðum um listaverk verði send rukkun er einfaldlega ekki í þessu standandi nema fyrir fjár- og mannaflasterkar stofnanir. Kannski var þetta aldrei sjálfbært.
Á meðan ritstjórn tekur ákvörðun um framhaldið verður vefurinn lokaður.
Með kærri þökk fyrir lesturinn og von um skjóta upprisu.
Fyrir hönd ritstjórnar,
Eiríkur Örn Norðdahl