Segðu mér, Björk, hvað ert þú að gera á Ísafirði?
Ég er að kenna videolist á LÚR, sem er skammstöfun fyrir Lengst Útí Rassgati, það er listahátíð sem haldin er 12-15 júní. Ungmennahópur sem starfar í Menningarmiðstöðinni í Edinborg stendur fyrir hátíðinni og ég er hér að kenna fólki frá Rúmeníu, Finnlandi og Íslandi videolist.
Það er hægt að skoða þetta nánar hér.
Hvað eruð þið að vinna með?
Taboo er viðfangsefni hátíðarinnar í ár og það getur verið allskonar, eins og að vera einmana eða ganga berfætt á götum bæjarins. Fólkið í hópnum er frá mismunandi löndum svo það er mismunandi hvað er taboo í þeirra löndum.
Á miðvikudag vorum við að vinna hugmyndavinnu og fara yfir tækniatriði en á fimmtudag förum við að taka upp videoin og á föstudag klippum við og sýnum niðurstöðurnar svo þetta er frekar stíft prógram en rosa gaman. Flestir hafa litla sem enga reynslu að vinna með video en ég hef mikla trú á hópnum og hlakka til að sjá hvernig niðurstaðan verður.
Svo ertu að farað sýna í Berlín á föstudaginn, geturu sagt mér aðeins frá því?
Þessi sýning heitir Plastic Poetics og verður haldin í Salon Mutlu. Hrafnhildur Gissurardóttir er sýningarstjóri og valdi saman nokkur verk. Meðal sýnenda eru Árni Már Erlingsson, Boris Fauser, Gunnar Jónsson, Hanna Mattes, Hrefna Hörn, Hrund Atladóttir, Ingibjörg Jara og Petra Valdimarsdóttir.
Hvað ert þú að fara að sýna þarna?
Verkið mitt heitir Eardrum og er video tekið í íslenskri náttúru, fjall, foss og ísjakar sem saman mynda ótrúlega fallega heild. En hljóðið er hljóðverk unnið úr samansettum hljóðum vindsins, ísjakana og fossins, útkoman er að hljóðið verður svo mikið áreiti að hljóðhimnan titrar af krafi náttúrunnar. Videoið og hljóðið er unnið á mjög svipaðan hátt, þar sem ég set saman ólík myndbrot og hljóðbrot og vinn þau áfram.