Steinunn Eldflaug Harðardóttir hefur í sér einhverja svona orku sem er mjög mikilvæg og skemmtileg, og sem skilar miklu til nærumhverfisins. Hún er líka mjög ævintýragjörn í allri listsköpun og þræðir grensuna eins og sérstakur sérfræðingur. Ég sá hana fyrst koma fram með hljómsveitinni Skelkur í bringu í gamladaga og var bara „vá, rosalegt!“ Og svo fór hún að gefa út sólóefni undir nafninu DJ Flugvél og geimskip og koma fram svoleiðis og svo komst ég meiraðsegja að því þegar viðtalið var hálfnað að hún er líka með aðra hljómsveit (!) sem heitir Sparkle Poison.
Og svo er hún líka myndlistarkona.
Vá. Við öll sem erum alltaf að tala um að fara að gera eitthvað megum skammast okkar.
Nema hvað, það er mikilvægt að fólk hlusti á Steinunni Eldflaugu og því ákvað ég að senda henni spurningar í tölvupósti, svo lesendur þessa ágæta vefrits gætu gert svoleiðis.
Ég hef tekið nokkur ímeilviðtöl áður, en ég held ég hafi aldrei nokkurntíman á ævinni þurft að forsníða svoleiðis svona mikið. Steinunn sendir mjög litríka tölvuósta, sem eru allir útí dansandi brosköllum og lituðum texta og útúrdúrum; tölvupóstarnir ríma einmitt mjög vel við fagurfræðina hennar (við tölum um þetta neðar í viðtalinu ef þú ert forvitin). Ég vildi óska þess að ég hefði getað bara límt þá inn í vefsíðuna eins og hún sendi þá, því þá myndu litirnir skila sér, en raunar er það sem hún skrifar kannski alveg nógu litríkt.
Nema hvað, Steinunn hefur rosa margt gott að segja. Farðu og lestu það, þú hefur alveg tíma.
—
Hæ,
viltu vera með í ímeilviðali? Fyrir vefritið Starafugl?
Það er svona langt og ítarlegt spjall. Þú getur kíkt, ég setti inn viðtal við Svavar Pétur úr Skakka á laugardaginn. Langar að gera svipað.
Láttu vita.
Og kær kveðja.
Haukur
Hæ Haukur!
Mér finnst gaman að svara spurningum svo ég er til í viðtal. Ég er alltaf að bíða eftir því að Gallup hringi í mig til að spurja mig að einhverju, en þeir gera það aldrei
Ég tjekkaði á viðtalinu við Svavar Pétur og það er lengsta viðtal sem ég hef séð, svo ég las það reyndar ekki, en ég las setningar inná milli og þær voru flottar.
Bestu kveðjur,
Steinunn
OK frábært! Byrjum þá bara!
Hæ Steinunn! Hvað er að frétta?
Sæll félagi!
Það er allt og ekkert að frétta, gott og vont fer bara eftir því hvernig á það er litið, já bara allt fínt og mjög gott bara semsagt. 🙂
Mér finnst voða gaman að hlusta á þig. Og ég er viss um að öðrum finnst það líka. Hver myndirðu segja að væri galdurinn að baki Flugvél og geimskipi?
Sko, ég held það sé enginn galdur bakvið Flugvél og geimskip, það er bara eitt sem er mikilvægt og það er að láta sér og öðrum ekki leiðast—nema að það sé galdurinn…
Og það gleður mig að þér finnist gaman að hlusta á tónlistina, takk fyrir það og mjög mikils virði að heyra það. Ég vona að einhverjum öðrum finnist það gaman. Gaman er mjög mikilvægt fyrir mig. Gaman og skemmtilegt er uppáhaldið mitt.
Ég hef verið svo heppinn að fá frá þér allmarga tölvupósta gegnum tíðina, svona um tónleika og plötur og eitthvað. Það er alltaf jafn skemmtilegt—þeim fylgir alltaf boð í einhvern töfraheim. Finnst þér kynningin eða, þúveist, orðfærið skipta máli þegar kemur að músík? Er orðaforðinn og orðfærið óaðskiljanlegt því sem þú gerir?
Gaman að þú kunnir að meta tölvupóstana, ég vissi ekki að ég hefði sent þá, bara stundum þegar ég eða við í hljómsveitum sem ég er í gerum eitthvað sem við viljum deila með öðrum þá sendum við svona póst til allskonar fólks sem ég veit ekki alveg hvernig er valið, en ég hef fengið e-mail hjá ýmsum og sendi þeim, greinilega þér líka.
Boð í töfraheim er samt mjög skemmtilegt vegna þess að heimurinn ER töfraheimur þannig að boð í hann er meira bara svona spurning: má bjóða þér?
Ég veit ekki alveg hvað þú meinar með hvort orðfæði sé óaðskiljanlegur hluti af tónlistinni. Í fyrsta lagi veit ég ekki hvað tónlist er og í öðru lagi ekki alveg hvað orðfæri er.
Og svo eru ekki orð og textar í allri tónlist.
En ef þú ert að tala um texta og þanig þá hlusta ég oftast ekki á texta í lögum fyrr en eftir svona tvö ár. Þá heyri ég þá allt í einu þegar ég er búin að heyra allt hitt. En þá skipta þeir auðvitað máli, það er glatað ef þeir eru þá bara um einhvern maðk eða eitthvað. Eða bíl sem keyrði til hægri og búið.
Og ef þú ert að spá í tónlistinni sem ég geri og þannig þá geri ég ekki texta endilega… stundum er ekki söngur eða texti, en ef það er texti þá geri ég hann bara á meðan ég tek sönginn upp oftast. En ef ég vanda mig að gera texta þá er hann alltaf dulkóðaður. Af því þá vil ég syngja um eitthvað sem skiptir mig miklu máli—og þá skiptir það mig það miklu máli að ég get ekki sagt það berum orðum—EÐA að það er eitthvað sem er bara ekkert gaman að tala um berum orðum. Betra ef þeir sem hlusta geta svona: “Aha! ég skil! Nú fatta ég!” (og skiptir engu máli hvort það er það sem ég var að pæla eða ekki).
Mér finnst texti s.s. ekki mikilvægur nema hann sé til staðar, þá er fínt að hann sé ekki leiðinlegur eða óspennandi.
En varðandi það!!! Þá sko gerði ég einu sinni tilraun. Þá gerði ég texta og leyfði fólki að lesa hann um mann sem var inni í húsi að borða morgunnmat. Og svo spurði ég alla: hvað morgunnkorn var hann að borða, á hvaða hæð bjó hann, hvað var fyrir utan gluggann (allskonar sem var ekki í textanum)? og þá voru eiginlega allir búnir að ímynda sér það nákvæmlega sama og ég, þótt það hafi ekki staðið í textanum! (korflex, 5. hæð, tún)…
Vá langt og ítarlegt svar! Nice! Ég vil samt skýra eitt sko, þegar ég var að tala um orðfæri, þá var ég vissulega að tala um texta með músík og svona, en ég var líka að tala um hvernig þú talar og tjáir þig og hvernig það eru alltaf litir og broskallar og svona í ímeilunum frá þér. Sjálfum þykir mér það gæða póstana lífi og líka kallast á við hvernig þú fremur þína tónlist—mér finnst það passa æðislega vel. Og kannski var ég að meina: er þetta meðvitað, hvernig þú tjáir þig í tölvupóstum (og svona tölvupóstsviðtölum!), er því kannski ætlað að undirstrika eitthvað sem er til í músíkinni þinni og verður til þegar þú fremur hana?
Eða er kannski eðlilegri túlkun að það sé sama manneskja að skrifa tölvupóstana og sem semur lögin og spilar þau á sviði? Og hvorutveggja séu þá einhverskonar útbrot manneskjunnar, útfærsla á? Það meikar örugglega meira sens svona þegar ég spái í því. Hvað finnst þér?
Þú spurðir um tölvupóstana, af hverju þeir séu skrautlegir og hvort það sé meðvitað og hvort það sé til að undirstrika eitthvað í tónlistinni.
Sko þegar ég sendi tölvupóst til fólks þá er hægt að velja allskonar broskalla til að setja inní og gera textann í mismunandi litum og setja inn halastjörnur og vínglös og þannig. Mér finnst bara miklu flottara þegar maður notar þetta í e-mailunum. Þá er það ekki bara svartir stafir á hvítum grunni, það er svona eins og ef maður getur valið að mála íbúðina sína eða ekki eða lita á sér hárið eða ekki eða kannski: viltu hafa lífið þitt í lit eða bara svarthvítt og boring.
Mér finnst líka eins og ég sagði í einu svari áðan – allur texti frekar leiðinlegur ef hann er langur þótt hann sé mjög spennandi og í rauninni skemmtilegur. Ef hann lítur út fyrir að vera langur og með engum brosköllum á milli eða litum þá hugsa ég: hver nennir að lesa þetta?
Líka einmitt bara gaman fyrir aðra að fá skrautleg skilaboð. Ef ég get ýtt á nokkra takka í tölvunni til að gera heiminn fjörugri, þá geri ég það.
Líka! Þegar maður var lítill var stundum í skólabókum mynd af einhverju í textanum í staðinn fyrir orð. Mér fannst það lang best. Ég væri til í að skrifa minna og setja myndir í staðinn. Svo gefa myndirnar líka stemningu í e-mail skilaboð sem er ekki hægt að lýsa öðruvísi. T.d. að skrifa eithvað og setja vínglas fyrir aftan gefur ákveðna stemningu í setninguna, smá partýfjör án þess að skrifa það—það á ekki alltaf við að setja inn stemningu í setningarnar með orðum, en myndirnar virka kannski smá eins og reykelsi eða lýsing eða eitthvað þannig.
Það er samt synd í í gömlu tölvunni minni gat ég stækkað broskallana en það er ekki hægt í nýju, þannig allir fá bara litla broskalla…
En ég hef ekki velt því fyrir mér hvort það undirstriki neitt sérstakt í tónlistinni, ég hef ekki velt fyrir mér hvort það sé tenging þarna á milli, en þegar þú minnist á það þá hugsa ég að ég mundi nota meira af stjörnum ef ég er að senda e-mail sem
DJ Flugvél og geimskip en meira af víglösum ef það er t.d. Skelkur í bringu…..
En já, það er sama manneskja sem skrifar tölvupóstana og er á sviðinu, það hafa aðrir spurt um það líka, hvort DJ Flugvél og geimskip sé einhver karakter, en það er bara ég með skrauti… Því eins og ég sagði, þá finnst mér best að skreyta það sem hægt er. Sama þegar ég spila með Skelk í bringu eða Sparkle Poison, þá er t.d. smá rokkhressing í loftinu á skelks tónleikum og eitthvað auka-rugl þegar Sparkle Poison spilar.
Semsagt, maður bætir ósjálfrátt einhverju við t.d. með fötum og skrauti og fasi og stemningu og innri hugarástandi held ég. Bara óvart blandnar maður smá svona skrauti við sjálfan sig—t.d. á rokktónleikum; þá uppveðrast allir saman bæði á sviðinu og líka í salnum í svona rokk-gír.
Hvað geturðu sagt mér um vélmenni frá framtíðinni?
Með vélmenni frá framtíðinni, þá munu þau örugglega eiga erfiðast með að sanna að þau séu meðvituð um sjálf sig og hafi meðvitund og raunverulegar tilfinningar. Bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Ég var að tala um þetta við einn vin minn um daginn sem er að búa til vélmenni, hann heldur að vélmenni geti það ekki. Og sérstaklega af því við (mennirnir) erum að búa þau til og hvað gagnast það okkur að vélmenni sé meðvitað um sjálft sig og t.d. rétt sinn?
Þannig við mundum ekki búa til þannig vélmenni.
En það sem ég er að spá er s.s. að við erum núna búin að gera ágæstis vélmenni og þau geta talað og brugðist við áreiti og borðað og búið til önnur vélmenni og lært ýmislegt hjálparlaust. ÞANNIG AÐ HVERNIG VITUM VIÐ HVORT ÞAU HAFI ÞESSA EIGINLEIKA, eins og t.d. skynjun og hugsun og tilfinningar? ef þau skynja og hugsa á „vélrænan“ hátt, hver er þá munurinn á því og alvöru. OG HVAÐ ER ALVÖRU. Og til dæmis, við vitum ekki einu sinni hvort blóm hafa þessa eiginleika, hvað þá hvort vélmenni hafa þá…
Svona helsta pælingin mín með þetta var að kannski eru vélmenni að verða það vel gerð og hátæknilega að þetta gerist bara samhliða því, alveg sama hvort við setjum það í þau eða ekki, svona þetta galdradót sem gerir t.d. menn að lífverum, hvernig vitum við að vélmenni þrói það ekki með sér?
Svo var ég líka að velta fyrir mér með sálir, t.d. ef einhver deyr og var svo ömurlegur í fyrra lífi að hann fær ekki að fara í annann líkama, getur hann þá valið sér að fara í einhverja vél í staðinn? hvað með til dæmis ísskáp – eða síma… Hvort mundir þú vilja vera sími eða ísskápur í næsta lífi?
Ég myndi örugglega vilja vera sími því hann fær að fara útumallt en er ekki bara fastur í eldhúsinu einhverstaðar. Og þá er líka auðvelt að njósna um fólk og hrekkja það. Ísskápur getur ekki tjáð sig mikið, nema með því að láta ljósið blikka og kannski æla ísmolum útumallt ef hann er með svona ísmolavél.
En ég var að fatta að það vita kannski ekkert allir af hverju ég er að spyrja þig um vélmenni frá framtíðinni. Viltu segja smá af hverju?
Hæ heyrðu, vel valið að vilja vera sími!… haha ég held einmitt að það væri glatað að vera ísskápur, hver velur það eiginlega? Haha!
En þú sagðir: það vita ekki allir af hverju ég er að spurja þig um vélmenni frá framtíðinni, viltu segja mér af hverju?
Hmmmm….. ég er ekki alveg viss sjálf. Ég hef mikinn áhuga á vélmennum. Ég er líka listamaður, þannig að ég bý til listaverk og þá geri ég oftast vélmenni, ein sýning sem ég gerði var t.d. með vélmenni úr framtíðinni sem gat svarað öllum spurningum í heimi, kannski vissir þú um þá sýningu?
Eða er það af því að draumurinn minn er að vera með vélmennahljómsveit með mér að spila í geimnum?Ég er mjög forvitin sjálf hvernig þér datt í hug að spurja mig um framtíðarvélmenni???
Ég er nefnilega með mjög mjög mikinn áhuga á vélmennum og framtíðinni.
Já sko vinur þinn hann Geirharður sendi mér skemmtilegt viðtal sem hann tók við þig um vélmenni frá framtíðinni þegar þú varst með sýningu um daginn. Þannig frétti ég af áhuga þínum á svoleiðis (ég komst ekki á sýninguna, því ég er í útlöndum). Það viðtal mun birtast á öðrum vettvangi von bráðar og þá öðlast lesendur væntanlega frekari innsýn í þessar hugrenningar.
En hvað finnst þér um Eðlumenn?
Eðlumenn—sko ef þú ert að tala um reptilian, þá eru það ekki menn heldur eðlur, en ég veit ekki hvort það sé til í alvörunni en það er fyndið að skoða myndir af þeim á netinu og t.d. sjá vörð hjá Obama sem á að vera shapeshifter:
En eðlumenn, svona eins og í HP Lovecraft sögunni („Nameless City“) það er óhugnalegt. Og það er líka hægt að sjá það í Super Mario myndinni, ég mæli mjög mikið með henni. Mér finnst það mjög áhugavert að spá í því hvernig risaeðlurnar hefðu orðið ef þær hefðu þróast áfram (ekkert endilega þróast í einhverja „betri“ átt, en s.s. breyst með tímanum).
En Metallicu?
Sko, mér fannst alltaf Metallica leiðinleg þangað til í fyrra. Þá einmitt var ég að skoða plötukoverið og fattaði hvað það var skemmtilega cool á ókúl hátt. Þá fór ég að lesa textana inní (í fyrsta disknum, Kill ‘Em All) og þeir eru snilld! Þar var einmitt þannig sem við vorum að tala um áðan, hvort textarnir skipta máli… Þarna allavegana gaf ég Metallica séns útaf því að textarnir voru skemmtilegir og þá er þetta bara geðveikt flott tónlist og núna finnst mér Metallica mjög skemmtileg hljómsveit.
Hvernig er hægt að gera svona frábærann texta? :
„No life ‘till leather
We are gonna kick some ass tonight“Mér finnst þetta stórkostlegt.
Hvað finnst þér um plöturýni og viðtöl og svona? Lestu svoleiðis?
Sko stundum les ég plöturýni ef ég er t.d. að bíða eftir einhverjum á kaffihúsi og Grapevine er opið. En ég fer aldrei að skoða hvað einhver segir um einhverja plötu svona bara af því mér finnist það spennandi. Og ég nenni eiginlega aldrei að lesa viðtöl því þau eru svo löng oftast. Og til dæmis þetta viðtal á eftir að vera mjög mjög langt, ég var að skoða hvað ég er búin að skrifa mikið og það er svakalegt, ef þú ætlar ekki að klippa neitt út úr því þá veit ég ekki hver á eftir að lesa það eiginlega.
En það er nú hitt og þetta skemmtilegt í því, t.d. ábendingar um góða kvikmynd svo eitthvað sé nefnt.
En ef það er uppáhalds tónlistarmaðurinn minn (þeir eru alveg margir samt) þá nenni ég stundum að lesa viðtöl. Ég hef meira að segja Googlað: „Guitar Wolf interview.“ Og þá fann ég þetta sem eru núna boðorðin mín, hér er partur úr viðtali við hann og mér hlýnar bara að innan þegar ég les þetta, þetta er það sem ég lifi fyrir, allt það stórkostlega sem heimurinn hefur uppá að bjóða:
P: Even the live show seems to be getting noisier. Like maybe there is a longer period in between songs…
S: Oh really? But maybe from long time ago. I always, I like, I need noise. Because we are no skill. Our skill is no good. No technique. We need… Basic rock and roll is: Number one is looks; Number two is guts, tension; Number three is action; Maybe four, five nothing; Six is skill, technique.
ATH! Allt viðtalið hér:
Guitar Wolf er æði. Ég er sammála, þetta er frábært viðtal.
Fyndið að ég geti bætt við spurningum sem mig langar að svara! Haha Þá langar mig mjög mikið að bæta við einni spurningu: Hvað borðar þú í morgunnmat?
Svar: sand og hey.
Ég átti nefnilega draum þegar ég var að gera geisladiskinn Glamúr í geimnum að það mundi ganga svo vel að einhver mundi hringja í mig og spurja mig um þetta. En svo gerðirst það aldrei, þannig að þetta er fullkomið tækifæri.
Músíkin sem þú gerir er alveg frekar skrýtin og sérstök svona. Ég get alveg ímyndað mér að einhverjum svona venjulegum þætti frekar erfitt að hlusta á hana lengi eða vera á tónleikum með henni (það er kannski bara rangt samt). En ég meina, hún býr í allt öðrum heimi en t.d. Retro Stefson eða Skálmöld.
Samt er fólk mjög mikið að fíla þig hefur mér sýnst, og er það vel. Kemur það þér eitthvað á óvart?
Þetta sem þú sagðir að venjulegum finnist erfitt að hlusta lengi á tónlistina mína, þá veit ég ekki alveg hvernig venjulegir eru, en ég held ég hafi hitt nokkra á Kalda-bar þar sem ég vinn.
Og ég hef einmitt hitt fólk eftir tónleika sem sagði: „það er of langt að hlusta á svona mörg lög í röð sem þú spilar.“ En þessvegna er ég líka með ljósashow og backdrop vídjó og þannig…
Gaman að þú minntist á að tónlsitin sem ég geri búi í öðrum heimi en Skálmöld, það er því það eru svo margir heimar í einum heimi held ég. Alveg frábært!
En nei það kemur mér ekki á óvart að einhverjir hafi gaman af tónlistinni minni því mér finnst hún mjög skemmtileg meðan ég er að búa hana til. Ég hugsa bara: „þetta er geðveikt flott hljóð og góður bassi…“—Þannig að mér finnst frekar undarlegt þegar einhverjum finnst það ömurlegt. En þá fatta ég að það eru ekki allir eins og eins og þú sagðir, við erum öll í sitthvorum heiminum.
Mér þætti ótrúlega skrýtið að heyra í þér á Bylgjunni. Eða Xinu. Eða Rás 2. Eða eiginlega bara í útvarpinu, nema kannski í einhverjum þætti á Rás eitt (þetta er ekki diss). Hefurðu verið spiluð mikið í útvarpinu? Langar þér til þess? Er draumur þinn að ná til allra íslendinga eða allra jarðarbúa kannski?
Með að vera spiluð í útvarpinu þá finnst mér einmitt mjög gaman að ég spilaði einu sinni um dagjinn live, í Kiss FM. Það var snilld því ég hugsaði: Margir sem hlusta á Kiss FM heyra núna tónlistina mína í útvarpinu og þá hugsa þeir kannski með sér að þetta sé líka útvarpstónlist en ekki bara eitthvað grín.
En svo var lagið mitt líka í vondulaga keppni á X-inu það var nú ekki gaman.
En já, það er einmitt stundum eitthvað spilað á Rás 1 og 2 því ég fór með diskinn þangað.
Mér finnst gaman að tónlistin sé spiluð í útvarpinu því þá er hún hluti af útvarpsheiminum. Mér finnst gott hjá henni að leggja land undir fót og athuga hvað hún kemst langt, það eru 20 geisladiskar í Japan sem er mjög gott. Nesti og nýjir skór fyrir tónlistina og henda henni svo út, hún er tilbúin að fara út í heim.
En það er ekkert markmið að ná til allra, frekar svona að sem flestir geti heyrt tónlistina, því þá ef einhverjum finnst hún skemmtileg en hefur ekki vitað að hún er til, þá er það tækifæri fyrir það fólk að heyra hana í útvarpinu eða ramba óvart á hana á YouTube.
En svo fær maður líka borgað fyrir þegar lögin eru í útvarpinu, eitthvað 300 krónur eða eitthvað þannig og ég er mjög hrifin af að fá peninga og breyta þeim í eitthvað annað sem mig langar í.
En þú ert að spurja hvort það sé draumur að ná til allra, Ég hefði fyrst sagt nei, en þegar ég spái í það þá ef allir í heiminum heyra tónlistina mína þá eru allir sem mögulega hafa gaman af henni búnir að fá tækifæri til þes að heyra hana sem er auðvitað það besta sem hægt er að hugsa sér. Þannig að já, hér með er það markmið.
Líturðu upp til einhverra músíkanta? Og hverra þá? Og af hverju? En bara einhverra svona almennt?
Ég lít upp til margra sem búa til tónlist. Fyrst þá var fyrirmyndin mín Henrik í Singapore Sling og Guitar Wolf. Þeir lifa fyrir rokk. Ég líka. Svo eru þeir líka mjög cool, rock-solid.
Svo bættust í hópinn Sigríður Níelsdóttir og Asha Bhosle. Sigríður Níelsdóttir var með fullt af diskum í 12 tónum sem hún gerði sjálf of það var mikil hvatning fyrir mig og sannaði fyrir mér að allir geta gert það sem þeir vilja.
Svo syngur Asha Bhosle svo fallega, ég var alltaf að hlusta á hana þegar ég var yngri og æfa mig að syngja eins og hún og syngja með (hún söng í meira en 1000 bollywood myndum, systir hennar líka).
En jú- fyrsta og líklega mikilvægasta fyrirmyndin var Yma Sumac. Ég vissi að hún var inka-prinsessa og bjó í skógi og söng með dýrunum og var öll í gullskrauti og gat gert öll hljóð í heimi. Það voru til plötur með henni heima. Það var það sem mig langaði að vera, ég vildi vera hún.
Martin Denny gerði tónlist sem virkaði þannig að þegar ég hlustaði á hana fór ég í annann heim, ég hélt að það væri Ástralía þegar ég var lítil því það var exótískasta land sem ég gat hugsað mér, ég vissi ekkert um Ástralíu þannig að ef tónlist fór með mig eins langt og hugsast getur, þá hlaut það að vera Ástralía.
Sama með Nino Rota.
Svo má ekki gleyma Joe Meek. Elsku besti Joe Meek!!! Hann var með stúdjó heima hjá sér og bjó til tónlist sem er svo ótrúlega framandi og falleg og hljómar eins og töfrar úr öðrum heimi. Plata sem hann gerði heitir líka: I HEAR A NEW WORLD.
Það er held ég eitthvað sem skiptir mestu máli af öllu, allavegana fyrir mig. En það skiptir svo miklu máli að ég get ekki talað um það eða útskýrt það.
Ég lít líka upp til margra, til dæmis vina minna Gullu og Sigga. Þau eru fyndin og skemmtileg og koma á óvart og ég er líka svolítið hrædd við þau því þau eru hættuleg og óútreiknanleg.
Heimurinn er mun meira hressandi og hefur nýjar víddir með þeim.
Ég lít líka upp til Ketils Larsen. Hann er einhver sá skemmtilegasti sem ég hef hitt og fullur af ævintýrum. Það er risastór heimur inni í honum. Þegar maður talar við hann þá er veröldin endalaus og óskiljanleg og framandi.
Ef einhver er ennþá að lesa viðtalið þá mæli ég með að fara og hitta hann, hann er oft á Mokka kaffihúsinu.
Fyrir hvern ertu að búa til músík svona helst?
Fyrir hvern bý ég til tónlist?
Fyrir sjálfa mig, því mér finnst það gaman. Og svo fyrir þá sem njóta þess að hlusta á hana, sem er líka ég—og svo nokkrir aðrir og kannski margir, kemur í ljós þegar fleiri hafa heyrt hana. En nokkrir hafa sagt það við mig svo ég geri það fyrir þau líka.
Stundum hef ég samt gert lög og fattað eftirá að einhver var í huganum mínum allann tíman. Einhver sem mér þykir vænt um eða hefur einhverja tengingu við hugann minn. En það er leyndarmál, þeir vita það sem hlusta, ef lagið er handa þeim… Ég held það sé eins og leyni-skilaboð inni í tónlistinni, þeir sem hún á við hljóta að fatta það.
En Ísak kærastinn minn má samt vita að hann á tvö lög. Hitt er leyni.
Takk aftur ég hef mjög gaman af þessu viðtali.
—
Hey, varð bara að senda þér þetta, þetta er úr viðtalinu við Guitar Wolf:
S: Then we were working in Harajuku. Billy was working in punk rock shop. I was working in used clothes shop, in front of his shop. So just, I and Billy are friends. So, let’s do it. Yeah! Play rock and roll. Cool band!
P: How did you find Toru?
S: The first drummer is Narita. He was working with me. He suddenly quit the band, because he said suddenly, “I wanna be fortune teller.”
Hefur þú einhvern áhuga á því að tala um hvernig þú rímar við aðra tónlist sem fólk er að skapa í þínu nærumhverfi um þessar mundir? Hvað t.d. finnst þér æði og hvað finnst þér ömó. Og af hverju?
Þú spurðir hvort ég hefi áhuga á því að tala um hvernig tónlistin mín rímar við annað sem er í gangi núna. Ég nenni því eiginlega ekki haha. Fyrst ég get valið væri ég til í að sleppa því. En mér finnst K-Pop mjög skemmtilegt og líka mörg raftónlist. Svo er líka fullt af skemmtilegum rokkhljómsveitum sem spila trippy tónlist og svo finnst mér mjög gaman af þeim sem eru brjálaðir og spila mjög hratt og mjög hátt allir í einu.
Hefurðu fylgst með Reykjavíkurdætrum? Hvernig upplifirðu þeirra töku af rapptónlist?
Ég hef fylgst með Reykjavíkurdætrum og mér finnst gaman að það séu stelpur að gera rapp og vera með sólgleraugu og vera töff, því sumir fatta ekki að stelpur geta það líka, því margir hugsa: rapp=strákar. Núna breytist þetta kannski í: rapp, cool, sólgleraugu=hver sem er.
Sumum finnst það skrítið því fólk er vant því að strákar séu með svona töffarastæla en hefur ekki séð stelpur í sama gír. Ég er alls ekki viss en ég held að markmiðið þeirra sé bæði femínískt (áfram stelpur—allt er hægt—allt má) en líka hljóta þær að hafa gaman af að búa til tónlist, annars hefðu þær valið því annan farveg. En hvort kom á undan tónlistin eða hugmyndafræðin er ég ekki viss um. Og svo má vel vera að ég sé að misskilja þetta allt saman.
Þegar þú stígur fram, hvort heldur er með Flugvél og geimskip eða með Skelk í bringu, þykir þér þú vera stíga inní einhverja hefð? Finnst þér þú vera að heiðra—eða vanvirða—eitthvað sérstakt?
Skelkur í bringu heiðrar rokk og sýru og allt sem því fylgir. Við berum líka mikla virðingu fyrir ‘60s garage og japönskum rugluhljómsveitum eins og Boredoms, Acid Mothers Temple og Melt Banana—og ekki má gleyma doom metal eins og t.d. Electric Wizard. Ég hef aldrei hugsað um að ég sé samt að stíga inní neitt þegar ég fer á svið, eða kannski bara að stíga inní ævintýri. Maður veit aldrei hvað gerist, mér finst það alltaf frekar spennandi.
En Sparkle Poison hljómsveitina stofnuðum við Gulla af því okkur fannst oft leiðinlegt á tónleikum, þannig þegar við spilum fylgjum við ekki í neinni hefð heldur gerum bara það sem okkur sýnist.
Við hugsuðum með okkur: „Af hverju er enginn hljómsveit hérna á Íslandi sem gerir bara eitthvað rugl?· (kannski eru þannig hljómsveitir en þá vissum við allavegana ekki af þeim). Af hverju leiðast okkur á tónleikum? Af hverju er bara ein tegund af tónlist spiluð í hverri hljómsveit? Og þá gerðum við þessa hljómsveit sem fylgir alls engri hefð eða reglu eða neinu og stundum spilum við kannski ekki einu sinni tónlist á tónleikum.
En að vanvirða eitthvað finnst mér vera óþarfi. SPARKLE POISON vanvirðir þó djass eftir fremsta megni.
Ef maður vanvirðir eitthvað vísvitandi þá leyfir maður því að hafa áhrif um leið, svo ef maður vanvirðir það er maður í raunini að gefa því vægi. Svo ég held það sé best að bara vanvirða ekki neitt EN gefa skít í fullt. Virða sérstaklega það sem er hressandi og fjörugt og hafa gaman af vitleysu og gera eins mikið af tilgangslausum hlutum og mögulegt er. Ég hugsa stundum um það að hinar dýrategurnirnar virðast yfirleitt bara gera eitthvað sem þjónar tilgangi. Þar greinir okkur menn frá hinum—meðal annars…held ég…. Svo fyrst ég er maður þá vil ég gera eins mikið og ég get af því sem líf mitt sem maður hefur uppá að bjóða…
Ef eðlumenn eru til, væru þeir í íslensku ríkisstjórninni? Eða ekki? Af hverju/af hverju ekki?
Vá, ég veit það ekki. Ég hef heyrt þeir séu hér og þar en það er örugglega fínt fyrir þá að vera hér, enginn sem trúir á þá svo þeir gætu leikið lausum hala. Því miður hef ég ekki kynnt mér þá nógu vel… Veit bara að þeir eiga að vera í Ameríku og í Vatíkaninu.
Mælirðu með einhverju skemmtilegu að lesa eða horfa á eða hlusta á svona undir lokin?
Já ég mæli bara með að horfa á allskonar heimildarmyndir á YouTube (t.d. the Pyramid Code). Svo var ég að finna bók sem ég hafði gleymt að væri til; The History and Practice of Magic eftir Jean Baptiste (sem hét samt Paul Christian held ég…).
Ég hef samt ekki skoðað hana síðan ég var 7 ára, en þá átti vinkona mín Hulda þessa bók og hún hafði mikil áhrif á okkur. Ég var búin að leita að þessari bók síðan þá, en vissi ekki hvaða bók ég var að leita að eða hvort hún væri til í alvörunni fyrr en um dagjinn þegar Sævar Markús setti inn mynd af henni á feisbook hjá sér. Þetta er mjög spennandi og dularfull bók.
Svo má alveg einhver finna út hvort það er eitthvað vit í Voynich handritinu. Það er hægt að downloada því ókeypis.
Sögur eftir Edgar Alan Poe og HP Lovecraft eru líka skemmtilegar. Og Biblían er fyndin og alveg mögnuð á nokkrum stöðum.
Og svo er til slatti af djöfullegum kvikmyndum frá ‘70s sem eru góðar.
Og já, The Cabinet Of Dr. Caligari fannst mér líka mjög skemmtileg—aðal gaurinn er alveg óborganlegur. Hann gerir frábæra svipi og látbragð.
Já svo er ein geðveik mynd frá Japan sem heitir Symbol og er frá 2009. Það er geðveik mynd.
Svo er ein mjöööööög löng bók um Gargantúa og Pantagrúl sem er fyndin og hressandi.
Ekki má heldur gleyma 1001 nótt. Þar er allt morandi ævintýrum og töfrum.
Skemmtileg tónlist til að hlusta á… ég mæli t.d. með 2NE1 frá Kóreu, en líka Ros Sereysothea, Pink Street Boys (geðveik hljómsveit), Gustaf Holst, Panther Burns, Carpe Noctem (íslensku hljómsveitinni) Cell7, Boredoms, Lightning Bolt, Hasil Adkins, Earl Sweatshirt og ‘60s garage tónlist.
Svo mæli ég með bókum um alkemista, táknfræði, dulspeki og allskonar furður úr forneskju, ég er alltaf eitthvað að gera tónlist um það svo fyrir þá sem hafa gaman af tónlistinni sem ég geri þá gæti svoleiðis fróðleikur dýpkað upplifunina.
Svo væri hægt að horfa á bíómyndir eftir Andrei Tarkovsky eða Kaurismaki bræður á rigningarkvöldi.
Svo er dnb líka mjög skemmtilegt – t.d. Black Sun Empire, Evol Intent og Noisia …
Nú stjórnar þú allri reynslunni. Hvað finnst þér að fólk ætti að taka með sér af DJF&G tónleikum?
Stemninguna kannski… Lifandi heim og sögur sem vinda uppá sig. Á tónleikum blanda ég ævintýrum inní heiminn, það væri gaman ef fólk nær að halda í það næstu dagana á eftir-helst alltaf… Því mér finnst allavegana heimurinn skemmtilegri þegar hann er takmarkalaus og lifandi.
Er öðruvísi að spila á hátíð eins og Airwaves en á venjulegum fimmtudagsbakkusi? Af hverju/af hverju ekki?
Það er öðruvísi að spila á Airwaves en á venjulegum fimmtudagsbakkusi því þá þarf ég að tala á ensku milli laga. Svo er maður nær áhorfendunum á svona litlum stöðum eins og Dillon og Bar 11 og þá myndast oft rafmagnaðra andrúmsloft. Eftir því sem staðirnir eru stærri og meira af fólki, þeim mun lengra bil er á milli mín og tónleikagestanna og það skilar sér stundum í minni tengingu. Á litlum stöðum magnast oft upp einhverjir töfrar.
Hvert er uppáhalds lagið þitt?
Ég á mörg uppáhalds, en þetta er samt eitt af uppáhalds:
(þetta er lagið Music Maker með DJ. Reality) Ef ég heyri þetta lag þá kemst ég alltaf í svaka stuð. T.d. ef ég ætlaði bara að vera heima á laugardagskvöldi þá er það ómögulegt ef ég hlusta óvart á þetta lag. Og í partýum ef það er ekki gaman þá bara set ég á þetta lag og allir tryllast-nema þeir sem tryllast ekki, t.d. þeim sem finnst þetta glatað lag—þeir fara bara, sem er fínt.
Takk fyrir gott viðtal og gott spjall. Hafðu það gott 4-Ever og ánægjuríka tilveru.
100 kveðjur, Steinunn Eldflaug.
ÁFRAM ROKK!!!