Himinninn yfir Helsinki

Brot úr bók í vinnslu

rigningin hellist yfir
strætin víkka
þessir metrar á milli húsa
óyfirstíganlegir

eftir teinum renna vagnar
til að ferja okkur
úr einni sjálfheldu í aðra

tætingslegur maður
skolast um borð í sporvagninn
með tætingslegt
hundblautt dýr í eftirdragi

það pompar niður
við miðstöðina

vagninn fyllist
heitum fnyk
af blautum hundi

fljótlega flæðir vatnið yfir
hundurinn flýtur ýlfrandi
út um gluggann

eigandinn situr sem fastast
með sama ýldusvipinn

kveikir sér í sígarettu

eins og tímaglasi væri snúið
færist allt á hvolf

enginn bærir sig samt
enginn gerir neinar glósur við þetta

við erum ekki hingað komin
til að tala saman

þótt þetta sé óvanalegt að vísu

við tökum að sökkva niður
í himininn yfir Helsinki
þar sem sígarettur
og glerbrot
verða að stjörnum

við
sem skópum himintunglin
vissum ekki
hvað við gerðum

borgarljósin fjarlægjast
við sökkvum í myrkrinu
sameinumst hyldýpinu

kannski ef
við sökkvum nógu djúpt
finnum við nýjan botn
til að standa á

og stjörnurnar okkar
gull fyrir götusópara
hinumegin

með réttri viðspyrnu er máski hægt
að koma sér tilbaka
ná tangarhaldi
á húsþaki

hér
í miðju heimsins
er ekkert til
sem heitir að vera maður

við erum týnd
í myrkrinu