Dropar

Mig dreymdi, við vorum öll í sökkvandi húsi.
Ranghalar kjallarans
fullir af fólki. 

Hvert einasta skúmaskot troðfullt af fólki. 

Og vatnsborðið hækkaði. 

Þetta var ókunnugt fólk, alvöruþrungið og blautt.
Andlit þess voru gráhvít en vatnið sló á þau grænleitum bjarma.
Úr fötum þess fossaði vatn.
Vatn sem náði því rúmlega upp að mitti.
En það neitaði að yfirgefa kjallarann. 

Enginn fór þaðan út nema vera fársjúkur, eða það sem verra var,
með brostnar vonir.
Við fleyttum þeim út á flekum, herbergi úr herbergi. 

Fólkið færði sig upp að veggjunum.
Þjappaði sér saman, horfði á eftir uppgjöfinni fljóta framhjá.
Út, en enginn vissi hvert. 

Við þjöppuðum okkur saman. Horfðum á eftir flekunum. 

Og vatnsborðið hækkaði. 

Ekkert okkar vildi yfirgefa kjallarann.
Ekkert okkar reyndi að ausa, opna glugga. 

Það voru engir gluggar. 

Ekkert okkar vissi hvaðan vatnið kom. Það draup án afláts úr loftinu.
Ekkert okkar þorði upp á efri hæðina. 

Vatnsborðið hækkaði. Við þjöppuðum okkur þéttar saman. 

Þegar ég vaknaði var mig ekki að dreyma.