Ef þú hyggst baða þig, Juanilla, segðu mér til hvaða baðhúsa þú ferð.
Söngbók frá Uppsölum
Þessi orðrómur gekk: frá komu Darvúliu baðaði greifynjan sig í mannablóði til að varðveita æskuþrótt sinn. Reyndar trúði Darvúlia á endurnýjunarkraft „mennskra líkamsvessa“, eins og góðri norn sæmir. Hún mærði ágæti blóðs úr stúlkum — helst hreinum meyjum — og mátt þess til að sigrast á djöflum hrörnunarinnar. Greifynjan féllst á þessi meðul, eins og um væri að ræða afturendaþvott.
Niðri í pyntingasalnum einhenti Dorkó sér í að skera á æðar og slagæðar. Blóðinu var safnað í krukkur, og þegar hinar skornu voru orðnar blóðlausar hellti Dorkó rauðum og volgum vökvanum yfir líkama greifynjunnar sem beið róleg, svo hvít, svo upprétt, svo þögul.
Þrátt fyrir óumbreytilega fegurð Erzsébetar skildi tíminn eftir nokkur vanaleg merki um framrás sína. Undir 1610 hafði Darvúlia horfið með dularfullum hætti, og Erzsébet, sem nálgaðist fimmtugt, kvartaði við nýju nornina sína yfir gagnsleysi blóðbaðanna. Í sannleika sagt gerði hún meira en að kvarta, hún hótaði að drepa hana ef hún stöðvaði ekki þegar í stað ummerkin um bannsetta ellina. Nornin ályktaði að árangursleysið stafaði af því að notast væri við blóð úr almúga. Hún fullyrti — eða spáði fyrir um, og röddin skipti um tónfall — að ef notað væri blátt blóð í stað rauðs myndi ellin hörfa undan, skömmustuleg á hlaupum. Og þannig upphófust veiðar á heldrimannadætrum. Til þess að lokka þær að spunnu hjálparhellur hennar upp sögu um að hefðarkonan af Čachtice yndi sér ekki í einsemdinni í auðnarlegum kastala sínum. Og hvernig mátti yfirvinna einsemdina? Með því að fylla hvern myrkan kima af stúlkum af göfugum ættum. Að launum fyrir félagsskap þeirra myndi hún veita þeim lexíur í heldri kvenna glæsileik, kenna þeim að hegða sér af fágun innan um aðal. Af þeim tuttugu og fimm „námsmeyjum“ sem þustu að til að læra aristókratíska siði voru tveimur vikum síðar ekki nema tvær eftir: önnur dó skömmu síðar, blóðtæmd; hinni auðnaðist að svipta sig lífi.
Hermann Stefánsson þýddi úr spænsku. Brot úr prósaljóðinu „Blóðuga greifynjan“ úr væntanlegu safni ljóðaþýðinga Alejöndru Pizarnik. Una útgáfuhús gefur út.