Hvaða ástæður sem liggja að baki útgáfu þessa verks, Sakfelling (2018), þá eru fyrstu viðbrögð efasemdir um tilverurétt þess. Ástæðan fyrir því að slíkar efasemdir koma upp er einföld: Með því að gefa verki sem þessu — áhugaverðri og ótrúlegri ádeilu á stjórnarhætti og vanhæfni N-Kóreysku ríkistjórnarinnar, sveipaðri átakanlegri raunasögu heillar þjóðar — hljómgrunn og samkenndarlega áheyrn, er ekki hægt að líta undan lengur. Óheyrilegur og óskiljanlegur reynsluheimur þeirra rúmlega tuttugu og fimm milljóna sem búa við harðstjórn þessa illkvittna, lágfætta sadista blasir við.[1] Óskiljanleikinn er slíkur að í stað þess að takast á við hann keppast vesturlandabúar við að gera lítið úr og grínast með nafn og hveitibrauðskallalegt útlit þessa kvalara milljóna manna og kvenna.[2]
Það fyrsta sem sló undirritaðan við lestur sagnanna var trúleysi, að sögur sagðar af slíkri kostgæfni og innsýn í þjóðfélagsstöður og vandamál hinna ýmsu þegna í mismunandi aðstæðum (bæði þjóðfélagslega og stjórnmálalega),[3] gætu verið skrifaðar af einum og sama manninum. Hin ýmsu tól einræðisherrans og áhrif þeirra á sögupersónurnar eru framsettar í verkinu á hátt sem gerir lesandanum kleift að öðlast skilning á þeim án þess að missa trúna á heiminn og góðvildina sem við viljum öll svo innilega trúa að búi innra með okkur.[4] Þessi vilji, sem hefur vitaskuld eitthvað með það að gera hvernig við vinnum úr eigin sektarkennd og skömm, liggur svo til grundvallar þessara sagna að ómögulegt þykir að lesa nokkurra þeirra án þess að hann læðist að — þess ber að nefna að oft er ekki augljóst að í setningunum búi samkennd persónu (eða höfundar) til viðfangsins, sem oft er nágranni, hinn alvitri leiðtogi eða einhver holdgervingur þeirrar harðstjórnar sem hann stendur fyrir, þannig læðist skilningurinn í hugskot lesandans og lætur til sín taka þegar lesandi gerist síðar sekur (eins og við gerum öll, endrum og eins) til að ganga skilningsleysinu og hleypidómunum á hönd.
Hliðsetning þessarar dýrlingslegu samkenndar við gjörðir og grimmilegt skilningsleysi langræknar valdstjórnarinnar úrslitast í sýn lesanda á landið sem, við nokkra íhugun, virðist vera meitluð af hálfu höfundar til fullkomnunar. Sýn lesandans verður, að undirritaður áliti, í langflestum tilvikum sú sama og sýn þeirra sem búa við harðræðið í N-Kóreu.[5] Hver saga sýnir nýja aðferð ríkisstjórnarinnar til kúgunar þegna sinna. Forréttindi okkar, sem ekki búum við slíkt og látum sem heimurinn muni farast vegna þess að nágranni okkar keyrir um á Range Rover og borðar steik á hverju kvöldi, eru ekki síst fólgin í því að við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund þá kvöl og eymd sem fylgir því að vera ekki frjáls ferða sinna; þurfa að grátbiðja um ferðaheimild til að heimsækja dauðvona móður sem á engan að og vera synjað trekk í trekk.
„Það ríkti dauðaþögn á biðstofunni á Deild tvö. Ástæðan fyrir þrúgandi þögninni var ekki aðeins allur sá fjöldi fólks sem hafði troðist inn í pínulítið herbergið, […] [h]ún orsakaðist einnig vegna allra tilkynninganna um „Reglur um ferðaheimildir” […] loks voru það raddir tveggja manna […] hvassar raddir sem hreyttu hranalegum orðum í þann sem stóð skjálfandi á beinunum framan við rúðuna.”[6]
Lýsingarnar af deild tvö, hugarfóstur sem aðeins verður til við óhugnanlegan getnað stalínískra og kafkaískra martraða, eru nokkuð sem erfitt er að velta fyrir sér án þess að finna fyrir velgju og svima. Skorðrun frelsis fyrir tilstilli skrifræðis sem fylgt er eftir með hörku og þeirri sífelldu ógn um enn skertara frelsi og harðræði er nóg til að halda fjöldanum í hlýðnissporum sínum. Þessu er fylgt eftir með linnulausum áróðri um góðvild og takmarkalausa samvisku leiðtogans og valdstjórnarinnar.
Það er afar áhugavert að skoða í þessu samhengi þá ritskoðun sem á sér stað í N-Kóreu og þá er gott að hafa í huga orð George Orwell. Þá fyrst skilgreiningu hans á þeim baráttumálum og röksemdum sem snúa að ritskoðun og frelsi fjölmiðlanna:[7]
„Here I am not trying to deal with the familiar claim that freedom is an illusion, or with the claim that there is more freedom in totalitarian countries than in democratic ones, but with the more tenable proposition that freedom is undesirable and that intellectual honesty is a form of antisocial selfishness. […] What is really at issue is the right to report contemporary events truthfully, or as truthfully as is consistent with the ignorance, bias and self-deception from which every observer necessarily suffers. […] The enemies of intellectual liberty always try to present their case as a plea for discipline versus individualism. The issue truth-versus-untruth is as far as possible kept in the background.”[8]
Orwell bendir á þær rökvillur sem færðar voru fyrir því að skerða frelsi þeirra sem ætluðu að skrifa um pólitísk málefni í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.[9] Í sömu mund lýsir hann þeim veruleika sem fjölmiðlar landa á borð við N-Kóreu og Sovétríkin bjuggu (og búa) við. Skilningur undirritaðs, á getu alræðis til að þrífast, rammast kyrfilega inn í þá orðræðu sem Orwell skapar. Ekki síst með eftirfarandi orðum:
„The organized lying practised by totalitarian states is not, as is sometimes claimed, a temporary expedient of the same nature as military deception. It is something integral to totalitarianism, something that would still continue even if concentration camps and secret police forces had ceased to be necessary.”[10]
Þó að harðræði og mannfjöldastjórnun N-Kóreyskra yfirvalda sé mun frekar innt af hendi með hótunum, ofbeldi og fordæmisgefandi refsingum þegna sinna eru lygar, eins og Orwell bendir á, grundvallarstoð alræðis. Það verður svo skammarlega augljóst hve rækilega stjórnvöld hafa barið niður allan mótþróa og byltingaranda þegna sinna í sögum Bandi að ekki þarf að furða sig á því að stjórnarfyrirkomulagið helst. Sögurnar lýsa persónum sem eru óttaslegnar og algjörlega vonlausar; ekkert útlit er fyrir að bylting eða nokkurskonar valdabreyting muni eiga sér stað, félagslegur hreyfanleiki (e. social mobility) er enginn — þá er sér í lagi litið til þess hvernig stjórnvöld N-Kóreu skipa mönnum í réttir og stimpla út frá forsendum sem jafnvel hafa ekkert að segja um þann sem stimplaður er — og lífsgæðum er haldið í skefjum í nafni almannaheillar. Bókin inniheldur þó einnig góð dæmi um lygarnar sem Orwell telur óaðskiljanlegan (e. integral) hluta alræðishyggjunnar (e. totalitarianism):
„Hann gat einfaldlega ekki horft framhjá þeirri hugsun að jafnvel þó að fyrirskipunin kæmi úr rauða múrsteinshúsinu og því ætti að hlýða henni umsvifalaust, þá komu þær stundir að það var hreinlega ekki hægt að framleiða það sem krafist var […] [þ]að voru hátt í þrír mánuðir síðan sojabaunamauksframleiðslan í bænum hafði hætt að vera tilfallandi og hrunið niður í ekki neitt, en samt var ætlast til að Yunmo skrifaði grein um að starfsemi verksmiðjunnar væri nú aftur komin í eðlilegt horf — rétt eins og að tilkynna um fæðingu áður en getnaður hefði átt sér stað!”[11]
Dæmin sem tekin hafa verið úr bók Bandi lýsa vel því sem undirritaður tók eftir en komast ekki í hálfkvisti við það sem býr í samhenginu öllu. Dæmin um okurvald stjórnar landsins raðast með eindæmum vel saman, úr verður samhangandi lýsing — innan hverrar sögu — á þeim erfiðleikum sem þegnar landsins upplifa; þannig eru hlutskipti manna og kvenna sem búa við mismunandi aðstæður gerð skil svo úr verður heildarmynd af aðstæðum í landinu.[12] Ennfremur tekst sögunum að vefja sér saman svo að samhengi þeirra verður ósögð ályktun og halda má því fram að um einskonar „sagnasveig” sé að ræða. Enginn vafi er á því að ef persóna einnar sögu gengi inn í aðstæður annarrar sögu myndu allar sömu reglurnar eiga við. Úr verður einskonar ótrúlegt raunsæi sem rekja má til einstakrar sagnagáfu Bandi og þess brennandi eldmóðar sem hann býr yfir. En við lestur eftirmála sögunnar þar sem eftirfarandi orð koma fram varð undirrituðum enn einu sinni hugsað til George Orwell:[13]
„Rithöfundum er skylt að vera meðlimir í Bókmennta- og listasambandi Norður-Kóreu og þeir fá leiðbeiningar um hvað þeim er ætlað að skrifa frá Áróðurs- og baráttudeildinni, en sú deild ritskoðar einnig verk þeirra. […] Undir slíkri harðstjórn og nákvæmu eftirliti eru hæfileikar til bókmenntaskrifa langt frá því að vera eina skilyrðið fyrir því að geta orðið rithöfundur í Norður-Kóreu. Rétt eins og í öllum hærri embættum eru mikilvægustu forsendurnar samfélagsstaða og fjölskyldusaga.”[14]
Þegar ofangreind málsgrein er skoðuð í samhengi við eftirfarandi orð Orwells ætti tilurð verksins sem reynt er að gera sanngjörn skil í þessari rýni að vera morgunljós og, það sem meira er, ástæða þess að verk þetta er óhjákvæmilegt ætti einnig að vera skiljanleg.
„the imaginative writer is unfree when he has to falsify his subjective feelings, which from his point of view are facts. He may distort and caricature reality in order to make his meaning clearer, but he cannot misrepresent the scenery of his own mind: he cannot say with any conviction that he likes what he dislikes, or believes what he disbelieves. If he is forced to do so, the only result is that his creative faculties dry up. […] It follows that the atmosphere of totalitarianism is deadly to any kind of prose writer,”[15]
Sakfellingin, þessi ógn sem yfir öllum í N-Kóreu vomir, er nefnilega orðin þematísk ekki aðeins í fyrrnefndum skilningi þess að hún sé verkfæri stjórnvalda til kúgunar og að kalla fram hlýðni; þess í stað er hún einnig orðin myndhverfing bókarinnar sjálfrar sem vissulega er óvægin sakfelling á ástand landsins alls og þeirra aðstæðna sem hafa fengið að grassera þar um áratugabil.
Svo nokkrum orðum sé vikið að þýðingu bókarinnar er ekki úr vegi að byrja á tilvitnun í Ástráð Eysteinsson og vekja þar með athygli á þeirri málsgrein er vakti athygli undirritaðs á mikilvægi þýðenda og þess að líta til þýðingarinnar og möguleg áhrif hennar á texta verksins og skilning lesenda á efni hans:
„Þessi algenga afstaða, sem hvorki felur í sér skilning á tengslum þýðingar og frumtexta né starfi þýðanda almennt, kemur líklega gleggst fram í ritdómum, þar sem fjallað er um stíl, framsetningu og allan texta þýddra bóka rétt eins og lesið hefði verið verk hins upprunalega höfundar. Ritdómarinn sér ekki þýðandann; hann virðist oft hafa steingleymt því að textinn sem hann er að fjalla um er verk þýðandans. Þá er sem þýðandinn sé á vissan hátt „ósýnilegur fáviti”, svo aftur sé vísað í söguna af tölvunni.“[16]
Ingunni tekst listilega að snara bókinni yfir á íslensku. Setningauppbygging, orðaval og andinn sem þyrlast eins og ryk frá einni setningar til annars — þessi sem engin leið er að benda á og stendur fyrir þetta ómælanlega í verkinu — er ennþá til staðar. Þýðingar eru flókið fyrirbæri, enda þörf á að koma texta í horf sem gerir lesanda í öðru landi, öðrum menningarheimi, kleift að skilja, tengja og samsama sig því sem stendur á síðunni. Á sama tíma þarf að yfirfæra kjarna verksins, ljóðrænu prósans og þessum fyrrnefnda anda. Á sama tíma og verkið er skiljanlegt og nærri lesandanum er það órafjarri og augljóslega hluti af menningar- og reynsluheimi sem er gríðarlega frábrugðinn okkar. Þýðing Ingunnar tekst að koma öllu þessu til skila á hátt sem gerir hana vissulega að „ósýnilegum fávita” eins og Ástráður orðar það; því textinn er svo þjáll að engan myndi undra þó útgefandi hefði haldið því fram að bókin hafi verið skrifuð upprunalega á íslensku. Ingunn á hrós skilið fyrir fagleg vinnubrögð og að hafa fært þessar mikilvægu sögur nær okkur — íbúum vesturlandanna — svo við getum séð hvernig þetta fólk lifir og mögulega gert eitthvað í því.[17]
Allt í allt er bókin listilega skrifuð, full af yndislegum sögum sem hafa miklu mun meira gildi en aðeins hið byltingarlega sem undirritaður hefur hamrað á. Sögurnar innihalda persónur sem búast má við að rekast á út í búð; menn og konur sem kannast má við í aðstæðum sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Sögurnar eru ljúfsárar á besta mögulega hátt, kímnar og jarðbundnar í bland við ótrúlegt óréttlæti og tregafulla atburðarás. Lesning sem opnar huga manna fyrir þeim raunveruleika að dystópía sé ekki orð sem eigi aðeins við um bókmenntir og kvikmyndir heldur aðvörun um það sem getur átt sér stað ef fjöldinn er ekki var um sig.
[1] Samkvæmt nýjustu áætluðu tölum Sameinuðu Þjóðanna, fimmtudaginn 18. apríl 2019. http://www.worldometers.info/world-population/north-korea-population/ (sótt 18. apríl 2019).
[2] Viðbrögð þessi: írónísk kómedíugerving átakanlegra, illkvittinna og sársaukafullra sannleika eða persóna er þjóðþekkt og dregur úr upplifun eða þörf til að taka á óþægilegum tilfinningum. Sbr. hvernig orðræða í alræmdu, viðbjóðslegu og átakanlegu kynferðisbrotamáli snérist upp í hnyttni og lítilsvirðingu gerandans sem skilaði sér einvörðungu í lítilsvirðingu þeirra brota sem áttu sér stað og andlegum áhrifum þeirra á fórnarlömb. Hið eina sem fólk man er síðan gælunafn gerandans og einhver ógeðfelld myndbönd sem, ef mig misminnir ekki, komu fram í áramótaskaupi eitthvert árið.
[3] Það er fljótlært við lestur bókarinnar að stjórnmálalegur ágreiningur, jafnvel ágreiningur sem á sér stað milli löngu dauðra forfeðra og stjórnvalda, dregur dilk á eftir sér í Kafkaísku skrifræði N-Kóreu sem ekki er losnað við svo glatt.
[4] Góðvild vitaskuld býr innra með öllum, jafnvel Kevin Spacey gefur papparassinum sem situr um húsið hans pizzu. Góðvild er nefnilega ekki háð því að við spyrjum okkur hvað býr að baki. „Einu gildir hvaðan gott kemur“, eins og skáldið sagði.
[5] Hér veltur upplifunin vitaskuld að einhverju leyti á því hversu móttækilegur lesandinn er fyrir því sem honum er sýnt. Að ógleymdum þeim fáu sem dottið gæti í hug að lesa þessa bók sem hafa fyrirfram ákveðnar hugmyndir um heiminn (utan vesturveldanna) og hvað „slíkt fólk” (þeir sem ekki eru hvítir á hörund) „á skilið” að lifa við. Undirritaður telur þó afar ólíklegt að slíkt fólk muni taka bók sem þessa, eða bók yfirhöfuð, upp.
[6] Bandi, „Svo nærri en þó svo fjarri,” í Sakfelling: Forboðnar sögur frá Norður-Kóreu, þýð. Ingunn Ásdísardóttir (Reykjavík: Angústúra, 2018), 124.
[7] Í þessu tilviki á höfundur við fjölmiðla sem regnhlífarhugtak í afar víðum skilningi, þ.m.t. rithöfundar og listamenn sem búa við skert tjáningarfrelsi.
[8] George Orwell, „The Prevention of Literature,” í Books V. cigarettes (London: Penguin Books, 2008), 24.
[9] Grein Orwells, „The Prevention of Literature,” er skrifuð eftir að hann sat fund PEN samtakanna þar sem minnast átti þrjúhundraðasta afmæli Areopagitica Milton’s og sér í lagi átti að ræða innihald ræðu Milton’s, frelsi fjölmiðla. Sú staðreynd að á fundinum hafi frelsi til fjölmiðlunar ekki fengið neina umfjöllun né hljómgrunn olli Orwell miklu hugarangri og varð til þess að hann skrifaði grein sem er, í senn, afar fagleg ádeila á harðræði, grunnforsendur fyrir því að það þrífist og frábær rök fyrir því frelsi sem fjölmiðlar og listamenn eiga rétt á og ættu að krefjast; með því verður til fyrsta vörn gagnvart alræði, í trausti almennings á miðlum sínum og getu miðlanna til að halda stjórnvöldum heiðarlegum.
[10] George Orwell, „The Prevention of Literature,” í Books V. cigarettes (London: Penguin Books, 2008), 27-8.
[11] Bandi, „Rauði Sveppurinn,” í Sakfelling: Forboðnar sögur frá Norður-Kóreu, þýð. Ingunn Ásdísardóttir (Reykjavík: Angústúra, 2018), 225.
[12] Sögurnar lýsa aðstæðum í höfuðborginni og á landsbyggðinni; Upplifunum húsmæðra, eldra fólks, kynslóðamunar og samskiptum við valdstjórnina. Heilt yfir má draga þá ályktun að reynt sé að gefa sem víðtækasta og ítarlegasta mynd af lífi innan landamæra N-Kóreu.
[13] Til útskýringar er best að nefna að stuttu fyrir lestur þessa verks, Sakfelling, hafði undirritaður lesið greinasafn Orwells, Books V. cigarettes, og var því sífellt að rifja upp þau atriði sem ríma þar á milli. Það þykir til marks um hve vel hugmyndir Orwells um tjáningarfrelsi og alræði eru settar fram að ekki var hjá því komist að nefna þær í sambandi þessa verks.
[14] Bandi, „Eftirmáli,” í Sakfelling: Forboðnar sögur frá Norður-Kóreu, þýð Ingunn Ásdísardóttir (Reykjavík: Angústúra, 2018), 279.
[15] George Orwell, „The Prevention of Literature,” í Books V. cigarettes, (London: Penguin Books, 2008), 31.
[16] Ástráður Eysteinsson, Tvímæli. Þýðingar og bókmenntir, (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, 1996), 16.
[17] Fyrsta skrefið í lausn allra vandamála er að gera sér grein fyrir því að það sé vandamál á ferð. Af umtali heimsins, fasi bandaríkjaforseta og hrópandi aðgerðaleysi vesturveldanna í málefnum N-Kóreubúa að dæma er sem enginn geri sér grein fyrir vandamálinu. Vonandi er þessi bók liður í breytingu þar á.