Tua Forsström orðin meðlimur sænsku Nóbelsakademíunnar

Finnlandssænska ljóðskáldið Tua Forsström hefur verið valin í sænsku Nóbelsakademíuna í stað Katarinu Frostenson, eiginkonu hins alræmda níðings, Jeans-Claudes Arnault. Mikill styr hefur staðið um veru Katarinu í nefndinni, vegna vensla sinna og varna fyrir hönd Arnaults, og sættist hún loks á að setjast í helgan stein í skiptum fyrir föst listamannalaun. Tua Forsström sest í stól númer 18. Hún er fædd árið 1947 og á að baki langan og farsælan feril og ekki ofsögum sagt að hún sé eitt dáðasta skáld sem nú skrifar á sænsku. Hún er fyrsti finnlandssvíinn til að sitja í Nóbelsakademíunni. Nóbelsakademían hefur að miklu leyti verið óstarfhæf vegna skandala síðustu misseri og voru margir orðnir vonlitlir um að nokkur, sem vandur væri að virðingu sinni, fengist til þess að setjast í tómu sætin.