Mynd tekin af ljóðavefsíðu Antons Helga Jónssonar.

Ljóð og ekki ljóð á vefnum

Síðast þegar ég gaf út ljóðabók fannst mér hún ekki fá næga athygli og ákvað því með sjálfum mér að næst þegar handrit yrði klárt skyldi ég fá Gísla Martein Baldursson til að leggja nafn sitt við það og leika höfundinn. Ég ímyndaði mér að allt sem Gísli Marteinn legði nafn sitt við vekti sjálfkrafa mikla athygli og ljóðabók með hans nafni gæti jafnvel farið að keppa við krimma í sölu. Það eru nokkur ár síðan mér datt þetta í hug og fyrir rúmu ári var ég kominn með klárt handrit en í staðinn fyrir að demba því á Gísla Martein lagði ég það til hliðar í fyrrahaust og ákvað að gefa frekar út heildarljóðasafn á vefsíðunni anton.is og birta það allri heimsbyggðinni ókeypis. Ég opnaði heildarljóðasafnið formlega á alþjóðlegum degi ljóðsins þann 21. mars og síðan þá hefur verið hægt að lesa á vefsíðunni minni öll ljóð sem ég hef birt í bókum eða tímaritum frá því ég var unglingur en auk þess töluvert af alls konar dóti sem hvergi hefur sést annars staðar. Ég hef sett ljóðin úr bókunum fram á einföldum textasíðum sem hægt er að skruna hratt í gegnum en safnað nokkrum saman á sérstökum þemasíðum og enn öðrum hef ég blastað upp með hjálp myndvinnsluforrita. Þá eru á síðunni hljóðskrár með upplestrum og safn af ljóðum eftir mig sem hafa verið þýdd yfir á önnur tungumál.

 

Ljóðabókin sem mér fannst ekki fá næga athygli var trúlega hvorki verri né betri en gengur og gerist, það er vel hugsanlegt að hún hafi selst í meðallagi og fengið ágætis umfjöllun þótt mér hafi fundist annað. Ég veit ósköp lítið um það hvernig ljóðabækur seljast yfirleitt og hvaða athygli þær fá. Ég hef heyrt því fleygt að ljóðabækur virtra skálda seljist í 800 til 1500 eintökum og einstaka bók í 3000, en flestar ljóðabækur seljist í 150 eintökum og það nægi yfirleitt til að borga útlagðan kostnað við útgáfuna. Ég hef ekki haldið nákvæmt bókhald yfir söluna á þeim átta ljóðabókum sem hafa komið út eftir mig en best gæti ég trúað að heildarsalan væri eitthvað í kringum 2000 eintök. Ég var 19 ára þegar ég sendi frá mér mína fyrstu ljóðabók. Ég gaf hana út sjálfur og lét prenta 300 eintök sem seldust öll á tveimur eða þremur mánuðum. Þetta var haustið 1974 og síðan þá hafa bæst við sjö ljóðabækur og trúlega hefur bara ein selst í fleiri eintökum en sú fyrsta. Það var bókin Ljóð af ættarmóti sem kom út árið 2010. Hún hefur mjög líklega selst í 400 eintökum auk þess sem henni var eitthvað dreift frítt.

 

Nokkur eintök af bókum eftir mig eru til í bókasöfnum á Íslandi en þau hreyfast lítið sem ekkert. Síðan ég opnaði vefinn með heildarsafninu í lok mars hafa þar séð ljóð eftir mig mun fleiri lesendur en fengu lánaða einhverja af bókunum mínum á safni síðast liðin tíu ár. Mér þykir samt vænt um bókasöfn. Ég hef einu sinni heyrt frá manneskju sem fékk lánaða bók eftir mig á safni. Hún var mjög ánægð með bókina og það gladdi mig.

 

Ástæðan fyrir því að mér fannst síðasta bókin mín ekki fá næga athygli var trúlega sú að nokkrir vinir mínir tjáðu sig ekkert um hana við mig. Margt af því sem í bókinni birtist var ekki verra en hvað annað, sumt nokkuð gott. Vandinn var kannski helst sá að flestir mínir vinir þykast núorðið vita hvað ég hef fram að færa og búast varla við því að ég komi með neitt nýtt þótt ég bæti við einni bók. Bókinni hefði örugglega verið tekið á annan hátt ef Gísli Marteinn eða einhver annar þekktur maður í samfélaginu hefði sent hana frá sér. Með þessu er ég ekki að segja neitt vont um Gísla Martein, ég er bara að velta því upp að áhrifamáttur texta getur ráðist af því hvar hann birtist og hver leggur nafn sitt við hann. Einu sinni skrifaði ég stundum bréf og ávörp sem voru birt með nafni og undirskrift annarra. Það var á þeim árum þegar ég vann í auglýsingabransanum. Bréfin og ávörpin voru oft ágætlega stíluð hjá mér en ég veit samt að enginn hefði tekið mark á skrifunum hefði mitt nafn verið undir þeim.

 

 

En ég var að tala um síðustu ljóðabókina mína. Eitthvað varð til þess að mér fannst hún ekki fá næga athygli. Síðan liðu nokkur ár. Þá tók ég upp á því að birta eitt og eitt ljóð úr þessari umræddu bók minni á samfélagsmiðlum. Smám saman rann upp fyrir mér að mörg ljóðanna þóttu hreint ágæt og virtust höfða til margra. Það sem meira var, margir tjáðu sig um þau, bæði á vefnum og eins hefur það komið fyrir að fólk stoppi mig á götum úti til að þakka mér fyrir eitthvað sem það hefur lesið hjá mér á vefnum. Það er vel hugsanlegt að ljóðin í síðustu bók minni og kannski mín ljóð yfirleitt henti illa sem textar í bók. Oftar en ekki reyni ég að hafa það sem ég yrki eins og brandara sem skilst strax og þarf ekki að endurtaka. Einmitt þannig textar geta notið sín vel í upplestri eða á samfélagsmiðlum þar sem hratt er farið yfir. Mín reynsla er því sú að ljóð sem virtust steindauð í prentaðri bók fengu líf á vefnum. Síðan ég opnaði heildarljóðasafnið mitt á vefslóðinni anton.is hef ég fengið meiri og sterkari viðbrögð frá lesendum en nokkru sinni fyrr.