Franski heimspekingurinn Michel Foucault velti fyrir sér eftirlitssamfélaginu í kringum árið 1975 þegar hann rýndi í teikningar af hinni fullkomnu panopticon-eftirlitsstofnun eftir heimspekinginn Jeremy Bentham frá lokum 18. aldar, Alsjána.
Alsjáin er stofnun í hringlaga byggingu með klefum sem eru gagnsæir inn á við og út á við en þó sjá íbúar hennar ekki hvora aðra. Í miðjunni er sívalur turn sem er þannig hannaður að varðmaður er stundum staðsettur inni í honum sem sér ávallt inn í alla klefa en er um leið aldrei sýnilegur föngunum. Það gefur íbúunum þá tilfinningu að þeir séu alltaf undir vökulu auga hans. Þannig skapaðist hið fullkomna eftirlit fyrir valdhafann að mati Foucaults. Hugmyndin að byggingu Benthams fól í sér fangelsi, en gat líka hýst börn eða fólk að vinna því byggingin var ekki endilega fangelsi heldur í raun tæki til að ala manneskjur upp og halda aga.
Þessa hugmynd að fullkominni eftirlitsstofnun notaði Foucault sem uppkast að upplýsingafangelsinu sem hann var fullviss um að við stefndum í árið 1975 þegar hann setti fram kenningu sína panopticism í bókinni Gæsla og refsing, Saga fangelsins. Við erum nú stödd í þessu eftirlitskerfi 44 árum síðar og valdhafinn hefur tæki til að fylgjast með okkur hvenær sem henni/honum sýnist en við vitum aldrei hvenær eða hvort verið sé að fylgjast með okkur. Þetta skapar okkur vanlíðan og óöryggi. Ef einhver sem þekkir okkur ekki að neinu leyti vill fá upplýsingar um okkur og er tilbúin/n að borga fyrir það þá getur viðkomandi mjög sennilega fundið út hvaða stjórnmálaskoðanir við höfum og í raun skoðað inn í huga okkar! Þetta er eitthvað sem aldrei hefur gerst áður í mannskynssögunni.
Við lifum á mjög flóknum tímum, þar sem veruleikinn er eins og völundarhús með óteljandi speglum sem við reynum að rata um með því að stara á upplýsingar á skjám snjallsíma okkar.
Heimspekingurinn Jean Baudrillard setti fram kenningu um veruleika nútímans sem ofuveruleika (e:hyperreality), að heimurinn sem við skynjuðum væri orðinn þvælt afrit af upprunalega skjalinu og hann bætti því reyndar við að upprunalega skjalið væri löngu glatað, aðeins afrit af afritum væru eftir. Samlíkinguna tók hann úr smásögunni Del rigor en ciencia eftir Jorge Luis Borges um landakort eitt sem var svo nákvæmt að það var í fullri hlutfallastærð og þakti hérað eitt á Spáni sem fullkomin eftirlíking.
Í þessum veruleika Baudrillards skynjum við ekki lengur muninn á því hvað er raunverulegt og hvað er ímyndun heldur lifum við einhvers staðar mitt á milli ímyndunar og skannaðs veruleika. Kvikmyndin The Matrix fjallar einmitt um ofurveruleika-kenningu Baudrillards og færir hana upp á svið vísindaskáldsögunnar. Í the Matrix erum við sofandi og vélarnar sjá um það að okkur geti dreymt um falskt líf okkar í sýndarveruleikanum.
Þetta eru tímar massans, það er, okkar; fólksins Eða það er það sem lýðskrumarinn segir okkur. Við eigum að hræðast Mark facebook Zuckerberg og Sundar google Pichai og það er full ástæða til þess auðvitað. En eru þeir rót vandans? Hvað með kerfið sjálft, sem við erum öll hluti af. Orðræðan í dag segir okkur lifa á einstökum tímum þar sem rödd okkar heyrist á samfélagsmiðlunum, að okkur hafi verið fært svið samskiptamiðlanna og valdið til þess að tjá okkur frjáls. Þetta „vald“ okkar hefur kerfið tekið aftur af okkur með því að sækja aðgang að upplýsingum okkar með persónuupplýsinga-þjófnaði samanber Cambridge Analytica-málið og margt fleira. Þannig getur kerfið nálgast upplýsingar okkar, líf okkar, vonir okkar, drauma okkar. Þannig má stjórna okkur og þröngva okkur til pólitísks réttrúnaðar, kjósa pólitískt rétt og að hafa réttar skoðanir, vera þæg.
Er þetta árið 1984 hans Orwells? Já, það mætti alveg halda því fram að hans framtíðarsýn hafi ræst, þó með raunsannari hætti, það er, Big Brother okkar veruleika er frekar mjúka týpan heldur en martröðin í skáldsögunni 1984, við óttumst eftirlitið en það samt sem áður æpir aldrei beinlínis á okkur. Það má ekki gleyma því að við bjuggum þetta kerfi til, og Foucault leggur einmitt mikla áherslu á það, það er okkar sameiginlega sköpunarverk.
Skilaboðin frá kerfinu til massans eru; tjáið ykkur að vild, en tjáið ykkur rétt. Þetta er í raun Skynsemisstefnan hans Immanúels Kants komin í hring; þú mátt tjá þig og skapa sjálfan þig að vild en hafðu hugfast að valdhafinn er með tæki til að sækja allar persónulegar upplýsingar um þig auk draumanna. Immanuel Kant og samtímamenn hans tjáðu sig bjartsýnir á umbreytingartímum í lok 18. aldar um frelsi mannsandans, að maðurinn ætti að hafa hugrekki til að nota eigin dómgreind og beita til þess skynsemi. En sú tjáning var ávallt í skugga einvaldsins, konungsins sem hafði takmarkalaust vald yfir lífi þegna sinna.
Hversu langt erum við nútímamenn raunverulega komin frá þessum gamla kóngi hvers auga vakti yfir öllum, hver vakir nú yfir okkar lífi? Eða erum við komin í hring?
Það er verkefni okkar nútímamanna/kvenna að komast út úr völundarhúsi eftirlitssamfélagsins en einnig úr klóm copy/paste menningarinnar. Til þess að svo megi verða gætum við meðal annars haldið áfram að rýna í þessar tvær stórmerkilegu kenningar: kenningu Baudrillards um veruleika nútímans sem copy/paste menningu og ofurveruleika (e: hyperreality) ásamt eftirlitskenningu (e: panopticism) Foucaults.