Til heiðurs Gainsbourg

Út er komin platan Unnur Sara syngur Gainsbourg. Á henni syngur Unnur Sara, eins og titillinn gefur til kynna, lög eftir hinn franska Serge Gainsbourg. Henni til fulltingis eru Alexandra Kjeld á kontrabassa, Halldór Eldjárn á trommur og slagverk og Daníel Helgason á gítar og kúbanskt tres. Upptökur fóru fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 1. desember 2017 og upptökumenn voru fyrrnefndur Halldór og svo Atli Arnarsson. Kjartan Kjartansson sá um hljóðblöndun.

Gainsbourg er sjálfsagt þekktastur á Íslandi, sem og annars staðar, utan Frakklands, fyrir hið hálf klámkennda Je t’aime moi non plus, sem var mjög vinsælt á sínum tíma. Það er synd því að hann samdi heila gommu af frábæru efni (þó stundum þyrfti að vaða í gegnum hafsjó af vondum lögum til að finna þau góðu). Enginn vafi er um að þar er frönskunni um að kenna. Það bætti nokkuð úr um miðjan tíunda áratug síðustu aldar er Mick Harvey úr hljómsveit Nick Cave, The Bad Seeds tók sig til og þýddi lög eftir Gainsbourg yfir á ensku og gaf út. Hann hefur nú gert fjórar slíkar plötur og segist búinn.

Unnur Sara og hjálparkokkar hennar ráðast sem sagt ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Eins og gefur að skilja þá er hljómur plötunnar nokkuð hrár en samt ekki svo. Miðað við einn dag í upptökum hefði mátt eiga von á mun hrárri útkomu.  Allur flutningur er fyrsta flokks en það er ekki hlaðið mikið á lögin. Þetta eru mun einfaldari útsetningar en hjá Gainsbourg sjálfum. En það kemur ekki að sök, síður en svo.

Flest laganna 13 eru sungin á frummálinu, frönsku, en tvö eru þýdd yfir á íslensku af Þórarni Eldjárn og Sigurði Pálssyni. Ég verð að segja eins og er að ég hefði viljað sjá fleiri lög þýdd á íslensku og þá vonandi hefði Gainsbourg eignast fleiri íslenska aðdáendur. En það skemmir auðvitað ekki tónlist hans að hún sé sungin á frönsku og Unnur Sara gerir það afskaplega vel. Rödd hennar á vel við þessi lög.

Það segir sig nokkurn veginn sjálft að þegar plata er gerð til heiðurs listamanni í þeim gæðaflokki sem Gainsbourg var, að þá er hægt að gera ráð fyrir því að öll lög séu góð eða betri. Það á svo sannarlega við hér og erfitt að ætla að segja eitt lag betra en annað. Stærsta spurningin er hvort þeir sem gera tribute plötuna nái að gera lögin að sínum eigin og það tekst hér.

Unni Söru og samstarfsfólki hennar hefur tekist að gera mjög góða plötu til heiðurs Serge Gainsbourg. Það eina sem hefði kannski gert hana aðgengilegri hefði verið að þýða alla texta en franskan skemmir ekki neitt. Þeim tekst að nálgast öll lög á sinn eigin hátt og skapa heilsteypta plötu og það er ekkert smá. Því þó efniviðurinn sé góður, þá hefði ekki verið neitt mál að klúðra þessu.