Sokkin skip. Kæfandi þögn.

 – um Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson

1.

Vistarverur, önnur ljóðabók Hauks Ingvarssonar, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar núna í haust. Bókin er 80 blaðsíður og skiptist í tvo hluta: „Allt sekkur“ og „Hrundar borgir“. 13 ljóð í þeim fyrri, 17 í þeim seinni. 

En þetta er ekki jafneinfalt og það hljómar. 

Því inn á milli birtast myndljóð þar sem endurtekið er unnið með andstæðurnar hvítan punkt á svartri blaðsíðu og svartan punkt á hvítri blaðsíðu. Þannig verða nokkur myndræn hlé inni í hvorum hluta, dagskráin rofin, svartur skjár, einhvers konar endalok. Í fyrsta lestri mínum urðu titlar myndljóðanna („Um afstöðu“, „Hugleiðing um hlýnun jarðar“, „Endurtekning“, „Ein saman“, „Saga tímans“ og „Ferðalok“) óvart að undirtitlum á sjálfstæðum köflum innan hlutanna tveggja, því stemningin breytist við hvert þeirra. Við erum í þokunni á Kárahnjúkum og því næst í sófanum heima í stofu. Við erum í vistarveru í Reykjavík en því næst í Hiroshima.

En þetta er ekki jafnflókið og það hljómar. 

Þetta er bara ljóðlist, hún flæðir áfram, frá upphafi til enda, áfram, yfir draslið í kjallaranum, yfir leyndarmál, myndaalbúm, Kárahnjúka, flæðir og vex, upp upp, yfir lesandann, sökkvir honum, sökkvir hrundum borgum, því þannig er það: allt sekkur.

2.

Það liggja fjölmargir þræðir í gegnum Vistarverur. Hækkandi yfirborð sjávar. Rústir fortíðarinnar. Samband manneskja og húsa. Hamfaraklám. Sólarströnd. Öskur. Mosi. Minningar. Tré. Sökkvandi skip. Það er erfitt að sigta út einn rauðan þráð fyrir stutta rýni sem þessa, en kannski væru það einhvers konar endalok. Heimsendir. Mér finnst Haukur nefnilega aftur og aftur vera að annað hvort sýna mér myndir af heimsenda eða skapa stemninguna í aðdraganda hans.

Það eru meiriháttar myndir. Meiriháttar stemning.

Á einum stað sér ljóðmælandi fyrir sér tré að hausti og finnst þau hljóti að vera horn á dýrum „á harðahlaupum / undir yfirborðinu“ (36), dýrum sem væri mikilfenglegt að sjá „rísa / upp á yfirborðið / hrista af sér moldina / í morgunskímunni“. Við tekur eins konar heimsendaspá, goðsagnakennd mynd af dýrum sem munu einn daginn „gnæfa yfir mönnunum með hornin reist og / úr nösum þeirra bærist heimskautavindur // nýr heimur/ að morgni“ (37). 

Tilfinningin sem fór um mig þegar ég las þetta ljóð fyrsta er enn til staðar, mörgum lestrum seinna. Ónot og ægifegurð. Það eru fleiri svona myndir í Vistarverum. Frumlegar, skýrar, óræðar, eftirminnilegar, einfaldar. Myndir af heimsenda sem birtist á stórum og smáum skala í gegnum bókina. Í upphafi sjáum við sokkið land, ef til vill Kárahnjúka, það er eitthvað mjög stórt. Á öðrum stað hefur ljóðmælandi „vaxandi / áhyggjur / af hækkandi / yfirborði sjávar“ (17) – einn daginn mun allt þetta smáa í kjallaranum fara á kaf: spólur með Michael Jackson og myndaalbúm. Seinna í bókinni erum við stödd í Hiroshima, á vettvangi hins stóra heimsendis, þar sem „tómir gluggar hússins / göptu eins og  öskrandi / munnar“ (65). Ljóðmælandi sér fyrir sér algjöra eyðileggingu, „húðlaus auðn“ (65) og hvítir logar, veröldin er að farast en að lokum sjáum við: „blómin á trjánum / smáir / öskrandi / barnsmunnar“ (67). Hið smáa. Annars staðar birtist yfirgefin síldarbræðsla utan úr í þokunni, risastór, en: „mosahnúfur / eins og æxli / utan á / dauðu efni“ (71).

Þessi endurtekni samruni hins smáa og stóra andspænis endalokum er bara eitt dæmi um hvað myndmál bókarinnar er mergjað. Kannski er þetta úthugsað, en það virkar áreynslulaust hjá Hauki.

3. 

Í Vistarverum er ekki aðeins að finna myndir af eyðingu og endalokum heldur einnig lýsingu á þeirri lamandi tilfinningu sem fyllir flesta sem eru þokkalega upplýstir um loftslagsmál: „vaxandi áhyggjur / lamandi aðgerðarleysi“ (14) segir á einum stað. Og aðeins seinna er veröldin að farast: „allt sekkur / og kjallarinn fyllist // þetta er óttalegt vesen“ (39). Þetta er einmitt óttalegt vesen. Veröldin er að farast, óumflýjanleikinn er lamandi. Haukur nær að fanga þessa fáránlegu tilfinningu: Á meðan við horfum á heiminn sökkva, sökkvum við sjálf í sófann, smjattandi á eyðileggingu og dauða, eins og ljóðmælandinn í „Hrundum borgum“: „ég / kalla / fíknina / í eyðileggingu / og dauða // hamfaraklám“ (46).

Það liggur beint við að flokka Vistarverur sem pólitíska ljóðabók. En hún er aldrei óþægilega mórölsk. Aldrei einföld í afstöðu sinni til siðferðisvandamála. Aldrei heilög – síður en svo. Hún skiptir heiminum ekki upp í rétt og rangt. Þegar ég les þessa bók verður til orka í höfðinu á mér sem leitar inn í tilfinningalífið frekar en hið röklega. Með öðrum orðum: Þetta er ekki hamfaraklám heldur ljóðabók.

4.

Hættan sem steðjar að manninum kemur ekki úr einni átt. Í „Hrundum borgum“ eru það ekki bara borgirnar sem hrynja heldur einnig manneskjur. Í fyrstu ljóðum þessa seinni hluta bókarinnar er fjallað um tengslaleysi, þögn og grafin leyndarmál: „þegar ég verð hræddur / langar mig til að hringja / í mömmu // en ég er miðaldra / munaðarlaus / í tungumálinu / þegar frumstæður / ótti er / annars vegar“ (52). Ég man ekki eftir mikið betri lýsingu á hinum bælda karlmanni. Í næsta ljóði er áfram fjallað um þessa aftengingu upplifunar og tjáningar. Það hefst á lýsingu á því þegar peningatankur Íslandsbanka var rifinn: „steypustyrktarjárnin / stóðu út í loftið eins og taugaendar“ (54) og ljóðinu er lokað með eftirfarandi útskýringu: „það er kallað / draugaverkur / þegar manneskja / skynjar sársauka / í lim sem hún hefur misst // ég sakna.“ 

Þessi samruni rústa Íslandsbanka við Lækjargötu og mannlegra rústa er áhrifaríkur. Sambandi manna og vistarvera eru gerð nánari skil í næstu ljóðum. Ljóðmælandi hefur trúað veggjunum í íbúðinni fyrir ýmsu og veltir fyrir sér hvort verkfræðingar „taki leyndarmál / með í reikninginn / þegar þeir ákvarða / burðarþol?“ (56) Að lokum enda vistarverur okkar sem landfylling, „kafna / í myrkri // það / eru eflaust / mörg leyndarmál / grafin í veggjum / á botni hafsins“ (60). 

5.

Eins og sést á þessari stuttu yfirferð liggja fjölmargir þræðir í gegnum Vistarverur Hauks Ingvarssonar. Samt sækja stök ljóð alltaf styrk í heildina, mynda óvæntar tengingar á milli ólíkra hluta, mynda eina heild. Hluti af líminu er kannski tónninn. Haukur getur verið allt í senn fyndinn, spádómslegur, kaldhæðinn og einlægt hversdagslegur. Samt er tilfinning fyrir einum og sama ljóðmælanda út í gegn. Svo ofan á öll leiðarstefin leggst þessi kitlandi tilfinning fyrir persónu og það bætir enn einni vídd við bókina: Við höfum ekki aðeins áhuga á því sem sjónum er beint að heldur einnig þeim sem heldur á kíkinum. Þessa tilfinningu hef ég áður upplifað við lestur á ljóðum Braga Ólafssonar en Haukur gerir þetta á sinn hátt og það er hrikalega vel heppnað.

Já, þetta er hrikalega vel heppnuð bók. Skýr en óræð. Leitar út og inn: „ég segi það engum / en inní mér sökk skip“ segir ljóðmælandi á einum stað og heldur áfram: „ég horfði á slysið / og reyndi ekki að bjarga neinum // hlustaði á öskrin // það voru voðaleg læti / á eftir fylgdi mikil þögn // kæfandi þögn“ (14-15).

Sokkin skip. Kæfandi þögn. Er hún svona, tilfinningin sem Vistarverur skilja eftir sig í huga þessa lesanda? Ég veit það ekki. Kannski er hún öðruvísi. Kannski er hún draugaverkur. Söknuður. Í öllu falli: dýr á harðahlaupum undir yfirborðinu; þungar tilfinningar; sterk löngun til að upplifa textann aftur, áður en það verður um seinan, áður en allt sekkur.