Það er mikið verk og margbrotið sem leikstjórinn Andrés Veiel býður uppá í heimildamynd sinni – Beuys – sem sýnd er í Bíó Paradís í dag ( og aðeins ein sýning eftir og því ástæða til að henda fram pistli um hana einn tveir og…..) Joseph Beuys er viðamikil fígúra. Kannski er rétt að lýsa honum sem nokkurskonar skýjakljúf í vestrænni samtímalist því það er eðli kljúfsins að fólk hættir að horfa upp eftir þeim eftir dáldin tíma í samvistum – en þegar horft er úr fjarska blasir borgarlandslag við hinum óinnvígðu – þeir sjá bara svart, eða blik af gleri og gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að þeir búa í skugga þeirra og skjóli. En það er ekkert kannski með það að sjónarhornin á slíka fígúru eru mörg og ótrúlegt að aldrei hafi verið ráðist í það verkefni að gera „Beuys-heimildamynd“ fyrr – maður hafði ekki áttað sig á því.
Og það er óhætt að mæla mjög sterklega með því að áhugafólk um að skilja mótun menningar og samspil lista og samfélags, að fara sjá myndina. Og svo ætti myndin auðvitað að vera skylduáhorf fyrir hvern þann sem stúderar eða stundar myndlist, hönnun, sviðslistir, pólítískan aktívisma, félagsfræði, stjórnmálafræði, heimspeki, trúarbragðafræði, sálfræði… og svo mætti áfram telja. Ég ætla þó hér rétt aðeins að reifa mitt sjónarhorn – frá sagnfræðilegum vinkli: Beina sjónum að því sem eru helstu tíðindin við útgáfu Andrésar guðspjallamanns af goðsögunni um Jósef Beuys, því jú það túlkar hver sinn feita kross.
Heimildamynd úr heimildamyndböndum
Það er augljóst að hægt væri að gera hundrað útgáfur af mynd um smiðinn Jósef. Það er ekki ástæða til að rekja lífshlaup hans, listferil eða áhrif hér í stuttum pistli sem ætlaður er til að skerpa sýn á þá útgáfu sem Andrés Veiel og félagar leggja fram. Stærsti kostur myndarinnar er frásagnarmátinn; kannski segði einhver óreiðukenndur en hann er sannarlega bæði fjörugur og orkuríkur – sem er speglun – og líka ögrandi og frumlegur – sem er speglun – og svo er rythmi og taktur og myndræn frásögn; stútfull af Beuys sjálfum, þar sem myndin er fyrst og fremst (95%) unnin uppúr heimildaefni sem til er í söfnum og á vegum stofnana sem varðveita verk og heimildir um starf þessa risavaxna listamanns. Um 5% myndarinnar eru viðtöl við samferðafólk hugmyndasmiðsins; náið samstarfsfólk í öllum tilvikum; plánetur sem snérust um þann miðpunkt sem Beuys var í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur.
Þessi vinkill: Að nota heimildaefni listamannsins sjálfs; hans eigin presentasjón af sjálfum sér og verkum sínum leiðir af sér tvennt – myndin er áhrifarík innsýn í einhverskonar þverskurð af heildarverki Beuys, og skilað í takt við hans eigin fagurfræði – sem er mjög gott; en um leið verður torveldara að skila krítísku eða gagnrýnu sjónarhorni; kontrapunktinum sem skapar jafnvægi og dýpt í frásögninni; sýnir mannlega hlið – hinn breyska listamann og myrku víddirnar. Vissulega er það reynt – og eins og þeir sem þekkja til vita þá var Beuys gríðarlega umdeildur og naut þess að hrista upp í öllum kerfunum í kringum sig á sjöunda og áttunda áratugnum – en til þess að „kafa“ á dýptina er þó aðeins haldið á lofti mýtunum sem Beuys skapaði um sjálfan sig: skringilegan dreng í sveitalegu Deutchlandi. Sem deyr (næstum því) í stríðinu og rís (næstum því) uppúr jörðinni – á meðal Tatara; hreinsaður, borinn feiti, innpakkaður í ullarlagð… brotinn, heilaður, fylltur ljósi, skynjun; miðill, spámaður, læknir.
Celtic + (1971)
Það kom mér á óvart og vakti athygli mína að myndin er opnuð á einum af þeim gjörningum sem hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér; gerningi sem fór fram árið 1971 í Edinborg og fól meðal annars í sér fótaþvott á áhorfendum og nokkurskonar sjálfs-skírnar athöfn – niðurdýfingarskírn með klökum – og gaf það tóninn fyrir mig að í þessari mynd fengi maður kannski innsýn í þessar andlegu hliðar Beuys, táknheiminum og öllum þeim djúpstæðu dulúðarkristnu og steinerísku þráðum sem skópu að mínu mati „lífskraft“ hans.
Kannski var fullgróft að halda að „loksins“ yrði hulunni svipt af „hinum sanna og djúp-kristna Beuys“ sem mér hefur listheimurinn alltaf „orðið“ að horfa framhjá – til að geta haldið sér hipp og kúl og þurfa ekki að grafa í táknheim þeirra galdra sem Beuys var alltaf að fremja – en samt verð ég að segja að þær dyr sem höfundur myndarinnar opnar geta vel orðið að gátt sem seinni tíma spekúlantar ganga um til að birta enn skýrari mynd af pælingum Beuys um reynslu, þroska og uppljómun sem öllum er aðgengileg (Everybody is an Artist – grundvallarhugsun sem auðvelt er að misskilja en mikilvægt er að sökkva sér djúpt í til að skilja inntak og merkingu lífsstarfs Beuys í þróun listhugsunar og heimspeki).
En frá Celtic + var stokkið annað – og svo þangað og hingað, og ofan í ægifagran kafla um þunglyndið. Sem var hressandi; sá kafli myndarinnar var að mínu mati sá áhugaverðasti – og mikill akkur að því að sjá og heyra Franz Joseph von der Grinten lýsa þessu tímabili, á að giska frá 1955-1958. Nei, ef þið hélduð að Beuys hafi verið við útvarpstækið þegar Elvis sigraði heiminn þá þurfiði að átta ykkur á því að maður þarf ekki að sjá það með augunum sem maður heyrir í himninum; og samtíminn er ekki bara summa alls þess sem er að gerast ákkúrat núna. Jósef var niðurbrotinn og atvinnulaus skúlptúristi, fastur í sinni heimasveit.
Útundan eða ekki?
Í lítilli mynd um stóran mann er ekki hægt að „kafa í neitt“ – ekki þannig – varpa svipmynd kannski; blaka vængjum, vekja hughrif. Og það er vel gert þó að á köflum finnist maður frásögnin full „þýsk“ – þ.e.a.s. að sumt upplifði maður að hlyti að vera óskiljanlegt ef maður þekkti ekki sögu Beuys, uppreisnina í akademíunni; áhersluna á að fyrirlestrar, kennsla, samtöl, pólítískur aktívismi og rökræður væru de facto list-viðburðir; virk sköpun og skapandi þroskaferli mannlífs sem stefndi á hærra plan; og í því samhengi er fullkomlega eðlilegt að heimildum væri safnað um slíka gjörninga eins og þeir væru listviðburðir per se. Þessi félagslega hlið eða úthverfan, er ágætlega presenteruð í seinni hluta myndarinnar, en verður e.t.v. að of miklu aðalatriði þegar upp er staðið. Sérstöðu verkanna, útvíkkun listhugtaksins, táknfræðinni og sér í lagi þau djúpu spor sem heimsmynd Rudolphs Steiners – hins EURASISKA Krists-spíritisma – hefði mátt gera skírari skil til þess að áhorfendur gætu áttað sig á því hvað pólítíska bröltið og stofnun Græningjahreyfingarinnar þýddi sem Gesamtkunstwerk í raun og veru; frekar en að áherslan væri á að þetta væri athyglissýki, eftirsókn eftir valdi, egóismi eða misheppnað oflætis-flipp. Því rétt eins og Frjálsir háskólar (hugverk Beuys og hreyfingarinnar í kringum hann) og evrópskar græningjahreyfingar eru enn að störfum þá er Beuys aðeins þáttakandi í að koma einhverju úr eternum í AKTION.
Beuys var ekki á endanum einhverslags utangátta fórnarlamb sem lést af ofreynslu við að gróðursetja tré; honum var ekki útskúfað; hann var ekki niðurlægður. Það var löngu búið og úr því spratt hið magnaða übermensch sem „engin vissi hvaðan kom“ á upphafsárum Fluxus-hreyfingarinnar á árunum 1961-1966. Þar var sprottinn fram fullburða listamaður á allt öðru plani heldur en „unga fólkið“ sem var að byrja sinn feril; þegar Beuys útskýrir myndlist fyrir héranum árið 1965 þá var hann 45 ára gamall kennari. Og það var ekkert flipp í gangi.
Die spirituelle kontakt! – eða summing it up.
Það er ekki hægt að segja að andlega sjónarhornið verði „útundan“ að ósekju í Andrésarguðspjallinu – en það er helst það sem maður hefði viljað sjá því að hin djúpa andlega og spiritíska rót Beuys væri reifuð betur þegar fjallað er um „hinn dimma dal“ sem hann gengur í gegnum fyrstu árin eftir sjö ára nám í klassískri höggmyndalist (1947-1954).
Von der Grinten, hans helsti stuðningsmaður á þeim erfiða tíma, lýsir á eftirminnilegan hátt hversu djúpt sokkinn Beuys var áður en hann tekur ákvörðun um að láta verða eitthvað úr sér, þá nærri því fertugur. Það er virkilega áhugavert að sjá tvær, þrjár teikningar eftir Beuys frá þeim tíma; það má halda því fram að ekki nokkrum manni dytti í hug að þær væru verk þess listamanns sem síðar spratt fram með jafn byltingarkenndar hugmyndir og raun bar vitni. Ef myndin hefði skilað einhverskonar „endurmati“ á því úr hverju Beuys spratt – öðru en Fluxus-hreyfingunni (sem hann yfirgaf) og pólítískri rétthugsun Þýskalands eftir stríð – þá hefði slíkt sjónarhorn virkilega getað kallað á fróðlegar vangaveltur um alla þá mistúlkun sem heildarverk og áhrif Beuys hafa leitt af sér; þar sem yfirdrifin goðsögutúlkun ræður.
Eftir stendur þó að myndin í heild er aðeins eitt sjónarhorn af mörgum og ljóst er af gagnrýni á myndina, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín í fyrra, að margir rýnar telja sig vita upp á hár hvað vantar uppá í heimildamynd sem geri manninum, list hans og áhrifum skil, svo sómi sé að. Það sem Beuys Andrésar Veiel hefur fram yfir margar myndir sem ætla sér að gera goðsagnakenndum fígúrum fyllileg skil, er að nærvera Beuys skilar sér að mörgu leyti með kraftmiklum hætti. Hitt er aftur að henni tekst ekki að kryfja stærstu hugmyndir hans og skilja áhorfandann eftir með höndlanlega sannfæringu um merkingu alls þess sem Beuys tók sér fyrir hendur. Hún er þess vegna ekki handbók eða skipulega framsett línuleg frásögn sem varpar ljósi á „hvernig“ hann breytti hugmyndafræði listheimsins; heldur listaverk í sjálfu sér sem vonandi opnar dyrnar fyrir einhverja til að ganga inn í heillandi hugmyndaheim listamanns sem hafði það að markmiði að færa allan okkar félagslega og efnislega veruleika á hærra plan; hið andlega-listræna uppljómaða kærleiks-samfélag.
Aðalmálið þegar upp er staðið, er þó að mínu auma mati það að til að skilja hvaðan margir af stærstu listamönnum samtímans koma, þá er nauðsynlegt að hafa sína sýn á Beuys. Maður getur verið sammála honum eða ósammála; fundist hann trúður eða shaman, spámaður eða brjálæðingur, og það breytir kannski litlu. Það að gera sér grein fyrir áhrifum hans er enn fremur óendanlega mikilvægt í því samhengi að svo ótal margt af því sem gerist í listheimi samtímans á rætur sínar í byltingu sem Beuys var kjarninn í: Og þegar sýndarmennska, rómantík og yfirdrifinn kapítalismus hreykir sér af því að eiga rætur í einhverju Beuysian – þá verður að halda því til haga að það kom aldrei til greina hjá Beuys að slíta verk sín úr samhengi við hinn félagslega veruleika sem listin getur umbreytt, eða hinn andlega veruleika sem hleður þau merkingu og krafti.