Raunhagkerfi vampírusmokkfisksins

Á dögunum sá ég mann í matvörubúðinni Netto við lestastöð í Kaupmannahöfn. Hann stóð í langri biðröð að loknum enn lengri þriðjudegi, fremur íbygginn á svip, klæddur í hettupeysu og víðar vinnubuxur útataðar í sparslklessum og málningu. Færiband afgreiðslukassans silaðist áfram og vörur hlóðust í fangið á afgreiðslustúlku sem reyndi að brosa í gegnum þreytuna. Maðurinn lagði burðarkörfu upp á lítið borð og tók upp úr henni; kassa af billegum bjór, for-eldaðan kvöldmat beint í örbylgjuna og tilboðs-poka af snakki. Loks pantaði hann sér tvo sígarettupakka í sjálfsala við kassann og setti spjald á færibandið til að aðgreina sig frá öðrum viðskiptavinum. 

Þetta er mín neysla, þetta er mitt líf og ég hef engu við þetta að bæta að sinni. Næsti. 

Maðurinn er hinn stálheiðarlegi vinnandi maður. Hann skapar verðmætin. Hann er salt jarðar. Og hann tilheyrir víst hinu svokallaða „raunhagkerfi“, orði sem ég heyri raddirnar í Hisminu tala um hvað eftir annað. Orðið nær víst yfir fólk sem prílar ekki í metorðastiga samfélagsins og vill aðeins vinna og sjá fyrir sér og sínum. Á sumrin dregur það fram grillið og skreppur kannski til Tene. Á veturna skefur það bílrúður í hljóði og bíður eftir næsta sumri.

Orðið raunhagkerfi er þó aðeins skrauthvörf, fallegri leið til þess að segja: „Sjá þennan hversdagslega karl. Sinnandi sínu hversdagslega lífi. Ef til vill ómenntaður en duglegur. Jafnvel smá bitur út í kerfið. Hver veit. Yfirbragð hans er fallegt í heiðarleika sínum. Og þótt hann sé ekki hluti af mínum reynsluheimi er er nógu umburðarlyndur og meðvitaður um eigin forréttindi til þess að mega tala svona um hann.“ Þarna voru menn í þægilegum stöðum að tala. Menn í lakkskóm. Þeir reyna með þessu að að kjarna hina „hefðbundnu“ eða „gamaldags“ vinnu. Alla þá sem vinna með höndunum. Alla þá sem eru hardware, ekki software. Segja má að orðið sé leit að heilli stétt. Raunhagkerfið sem hið íslenska “redneck”. 

Sú leit veldur auðvitað klofningi. Til verða „við“ og „hinir“; Fólkið í búbblu-hagkerfinu og fólkið í raun-hagkerfinu.

En er hægt að tala um raun-hagkerfið á þennan hátt? Í lokuðu útboði í skjóli nætur hefur Vampírusmokkfiskurinn sjálfur, Goldman Sachs, byrjað að vefja sér utan um íslenska bankakerfið. Vogunarsjóðir skrafa í reykfylltum bakherbergjum, sem hafa aldrei verið jafn full af reyk. Lánshæfiseinkunnin hækkar og hækkar og karlmenn halda áfram að versla með peninga. Þeir taka sér stöðu með Íslandi, blessaðir.

Hið raunverulega raunhagkerfi heimsins er í fárra höndum og féð er í fárra vösum. Hið títtnefnda 1% af efnaðasta fólki heims, jafnvel 0,1%, hefur völdin líkt og sigursælt foreldri í Matador-spili við ómálga barn. Peningar eru aðeins óljós hugmynd en hafa þó í gegnum aldirnar holdgerst í vörum eða mynt og seðlum. En raunhagkerfið er fjarri hinu hlutstæða. Það er ekki sparslklessan á buxunum. Það er ekki billegi bjórinn. Það er þetta ósýnilega og óheyrilega. Snertilaust kort, þögul bankamillifærsla, hlutabréf, skuldabréf, öll þessi bréf. Raunhagkerfið er vampírusmokkfiskurinn í skýinu. 

Á Íslandi hefur stigveldi samfélagsins haldist fremur flatt í gegnum tíðina. Litla sjávarþorpið Ísland er þröngt, fiskisögur fljúga og allir eru skyldir öllum. Hér höfum við þurft að hjálpast að, halda á okkur hita og skafa bílrúður í hljóði. 

Hið litla stigveldi sést hvergi betur en í sundlaugum landsins. Í sundi eru allir jafnir. Þar hittir fólk múrara, fasteignasölumenn listamenn og ráðherra. Þar er ekki hægt að sjá hver gengur í lakkskóm og hver er með sparslklessur á buxunum. Enda skiptir það ekki máli. Við ættum ekki að sjá það. Fólk deilir baðvatninu hvert með öðru og afhjúpar sig. Það fær að vera eins og það er. Eða yfirleitt. Því maður þarf víst að passa sig á að knúsa ekki vitlaust kyn og aðeins útvaldir mega vera berir að ofan í lauginni.

 Það er gömul saga og ný að fólk þreifi sig áfram með tungumálið, við viljum skilja hvert annað með sem bestum hætti. Við viljum að fólk tali skýrt og skorinort, ekki undir rós. Engin skrauthvörf takk. En þreifingar með tungumálið sem draga fólk í dilka eru öðruvísi, þær valda rangtúlkun og jafnvel fordómum. 

Er raunhagkerfið kannski vísir að aukinni menningarlegri stéttarskiptingu eða er undirliggjandi stéttarskipting einungis opinberuð með þessu orði? Tíminn mun leiða það í ljós en á meðan liðast röðin í Netto áfram, maðurinn með sparslklessurnar kemur aftur og við höldum áfram að skipta okkur niður. Þetta er mín neysla, þetta er mitt líf og ég hef engu við þetta að bæta að sinni. Næsti. 

Pistillinn var fluttur í Lestinni á Rás 1, apríl 2017