Skiptidagar er lítil, handhæg og falleg bók sem fangar bæði stór málefni og árþúsund af íslenskri sögu. Það er ekki auðvelt að draga hana í dilka, ekki er hún beinlínis fræðibók en fróðleg þó með eindæmum. Ekki er hún skáldskapur en leyfir ýmsum sögum að lifna við fyrir hugskotum manns. Hugleiðingar einnar manneskju er uppistaða bókarinnar en ekki hugleitt út í loftið eða á almennan hátt: íslenskan og Íslandssagan er efniviðurinn.
Ég er ekki viss um hvort einhver önnur en Guðrún Nordal hefði getað skrifað bók sem þessa, létta og leikandi hugleiðingabók sem skautar auðveldlega á milli tímabila og hugmynda. Sem forstöðumaður Árnastofnunar og prófessor í íslensku fer Guðrún létt með að miðla til okkar nýju sjónarhorni í hverjum kafla. Tryggilega staðsett í samtímanum; á íslenskum eftir-hrunsárum skrifar Guðrún um menningarfyribæri sem lesandinn tengir strax við en leiðir hann svo á vit fortíðarinnar og er óhrædd við að ímynda sér líf forvera okkar, þjáningar þeirra, ástir og tilvistarangist.
Bókinni er skipt í tíu kafla ásamt inngangs- og lokaorðum og eiga kaflarnir það allir sameiginlegt að vera hæfilega langir og auðlesanlegir fyrir þreytta konu uppí sófa á síðkvöldi. Svo er grafíkin hrikalega flott! Mínímalísk mynstur með vísun í rúnaletur tilkynna lesenda að nýr kafli sé handan við hornið. Guðrún tekur okkur í ferð um landnámið, ímyndar sér reynsluheim allra þeirra kvenna sem eiga ekki rödd í Íslendingasögum eða heimildum um landnám. Hún veltir fyrir sér hví skrif og ritun sagna varð svo mikilvæg á Íslandi og útskýrir það skemmtilega með vísun til mikilvægis „útflutningsgreina“ í samtímanum. Hver kafli hefur sitt þema og skoðar ákveðið tímabil Íslandssögunnar en alltaf er samtíðin einnig til staðar. Vandamál samtímans eru sett í samhengi við söguna án þess að þetta „ekkert er nýtt undir sólinni“ hugarfar fái að ráða ferð. Stíllinn er auðmjúkur, spurull og jafnvel gefandi eða bjóðandi. Guðrún kemst svo skýrt að orði í umfjöllun sinni að lesandinn skynjar að þekking hennar er mikil og hugmyndirnar vel ígrundaðar. Hún er staðföst í lýsingum sínum á vaxandi ójöfnuði og erjum á Íslandi í dag og skoðar hvernig þessi atriði bergmálast í Íslendingasögunum og erjum Sturlungaaldar.
Guðrún veitir manni innsýn inn í ólík atriði Íslandssögunar. Fyrir konur eins og mig, áhugasama en lítt lesna í íslenskum fræðum, var þetta eins og að heimsækja aftur menntaskólaárin nema að á þeim tíma þaut maður á ógnarhraða yfir ýmislegt íslenskt án þess að gera sér almennilega grein fyrir samhenginu sem Guðrún svo fimlega dregur fram. Hve þakklátt menntaskóla-sjálfið mitt hefði verið fyrir bók sem þessa. Einna skemmtilegast þótti mér að kynnast hvaða mann Jón Sigurðsson hafði að geyma, ég var greinilega komin með fordóma gagnvart kallinum. Guðrún kynnir til leiks fjöldann allan af fólki og nær að draga upp skýra mynd af þeim þó að það verði að viðurkennast að maður dettur svolítið út á köflum vegna þeirra fjölda persóna sem kynntar eru til sögunnar. Sérstaklega missti ég tökin á persónunum í kaflanum um hennar eigin forvera en mér þótti sá kafli engu að síður einkar fallegur.
Það er ekkert annað en fagnaðarefni að sjá fræðikonu með svo margvíða þekkingu gefa út svo aðgengilega og góða bók. Mikið er rætt um skortinn á því að fræða- og vísindafólk miðli þekkingu sinni til fleiri en aðeins þeirra eigin kollega. Þessi bók er dæmi um einstaklega vel heppnaða miðlun til nýrrar kynslóðar; aldamótakynslóðar dóttur hennar sem lifir mikla umbreytingatíma og skiptidaga. Eins mikið fagnaðarefni og það er að sjá svona bók þá hefði ég samt líka viljað sjá dass af Naomi Klein í skrifunum (höfundur Þetta breytir öllu). Naomi á það sameiginlegt með Guðrúnu að virkilega vinna sína rannsóknarvinnu vel en leyfir sér einnig að vera ákveðin í skilaboðum sínum til að mynda um loftslagsvandann. Skiptidagar býður upp á mörg sjónarhorn borin fram af visku. Eins og góður háskólakennari skapar Guðrún rými fyrir lesandann að uppgötva sitt eigið samband við söguna og tungumálið. En ég held að ný kynslóð vilji einnig sjá fróða og hugulsama konu á borð við Guðrúnu taka rými og senda ákveðin skilaboð. Þau eru komin með nóg af frekjuhundum sem fylla rýmið með vanhugsuðum skoðunum.