Frjósemi á tímum loftslagsbreytinga

Er hægt að tala um framtíð á tímum loftslagsbreytinga? Má tala um frjósemi og má tala um barneignir? Í okkar menningu er sífellt verið að velta vöngum yfir getnaði manna og dýra. Sum dýr eru æskilegri en önnur og þá stjórnum við getnaði þeirra með skipulögðum landbúnaði. Kristin trú telur að líkami kvenna sé heilagir, næstum ósnertanlegir – og til þess eins að verða nýttir á heilagri stund, undir heilagri vernd hjónabandsins. Umræða um fóstureyðingar. Umræða um getnaðavarnir, sjálfsfróun, kynferði og umræða um drusluskömm. Þetta eru allt fyrirbæri sem eru ræddir á forsendum heilagleikans. Á forsendum skilvirkninnar. Á forsendum karla. Hver má og hver má ekki. 

Hrútasýning og nýtingarhyggja

Þetta kristallaðist á ljósmynd sem tekin var fyrir nokkrum mánuðum af hópi jakkafataklæddra manna á skrifstofu forseta Bandaríkjanna eftir að sá síðastnefndi hafði nýlokið við að skrifa undir tilskipun um herðingu laga um fóstureyðingar 1. Þar er karl í jakkafötum, hliðina á karli í jakkafötum, hliðina á karli í jakkafötum. Þeir sjá um konurnar, engar áhyggjur. Við göngum í verkið fyrir ykkur. 

Þarna er grunnurinn að menningu nýtingarhyggjunnar. Allt er auðlind sem þarf að nýta, en fyrst og fremst hafa stjórn á. Sú hugsun að það sé bara hægt að taka. Stækka. Þenja og hámarka. Árangur áfram. Ekkert stopp. Frelsi fyrirtækja til þess að nýta plánetuna á ósjálfbæran hátt og hafa af henni fé. Þannig breytum við loftslaginu.

Þetta á ekki að koma á óvart. Við stöndum okkur illa þegar kemur að því að vernda, virða og jafnvel veita frjósemi athygli, ekki aðeins meðal manna heldur alls dýraríkisins og náttúrunnar í heild. Þrátt fyrir allt tal um réttindi til lífs og réttindi hinna ófæddu, fær berskjöldun barnæskunnar ekki athygli í menningar okkar, hvað þá líf í mótun. 

 Púðri er eytt í tæknilausnir og inngrip í hringrás lífsins. Setja plástur á opið og sýkt sár. Við búum við alþjóðlegt landbúnaðarkerfi þar sem bændum er bannað að stunda aldagamla aðferð: að geyma fræ, grunneiningar lífsins. Þeir eiga að kaupa fræin af stórfyrirtækjum. Við búum við alþjóðlegt orkukerfi þar sem jarðefnaeldsneyti er gert hærra undir höfði en vatni, þar sem allt líf á sér upphaf og þrífst ekki án. 

Á maður að eignast barn á tímum útrýmingar, tekur því? 

Örlæti jarðar, inngrip mannsins

Árið 2014 gaf kanadíska blaðakonan Naomi Klein út yfirlitsbók um stöðu loftslagsbreytinga. Bókin, sem ber nafnið This Changes Everything, eða Þetta breytir öllu, er gagnrýnin á nýfrjálshyggju og ítök hennar á hugmyndafræði heimsins. Alþjóðavæðingin er fín en hún er rekin áfram með orku sem ekki er eðlilegt að við eyðum. Jarðefnaeldsneyti er margra milljón ára orka sem við höfum markvisst verið að brenna í aðeins um 200 ár. Þetta er ekki sjálfbært og heimurinn er að breytast. Við þurfum að taka saman höndum, við þurfum að hætta að lifa eins og heimurinn sé takmarkalaust og átta okkur á takmörkum og hringrásinni sem finna má allt í kringum okkur. Þetta ætti ekki að koma á óvart og við erum alltaf að tala um þetta.

Í síðasta kafla bókarinnar tengir Klein loftslagsbreytingar á afar persónulegan hátt við barneignir, sérstaklega út frá eigin reynslu að geta varla eignast barn. Þegar hún var að gefast upp fyrir ófrjóseminni, fyrir göllunum Móður jarðar.

Líffræðin er full örlætis, hún gerir sitt besta. Mannslíkaminn er afar þrautseigur, vel hannaður og leggur allt í sölurnar til þess að fjölga tegundinni. En hann á sér takmörk. Það er ekki endalaust hægt að ganga á þetta örlæti. Við getum brotnað. Og okkar samfélag metur meðgöngu kvenna heldur ekki að verðleikum, ásamt því að umbuna illa fyrir uppbyggingarstarf, umönnunarstarf, kennara, lækna og hjúkrunarfræðinga o.s.frv. Við komum meira að segja illa fram við allar sérmenntuðu ljósmæðurnar sem taka á móti þessu blessaða lífi. Þessir hlutir sem ættu að vera í lagi, það sem ætti að vera sjálfsagt fyrir upplýst samfélag. En í staðin er grafið undan þeim og þannig er þeim stjórnað. Þess vegna heyrum við almennt ekki talað um meðgöngu kvenna nema þegar karlar reyna að hafa stjórn á henni.

Þetta reddast!

Ef maður elskar framtíðina aðeins á forsendum afkomenda sinna, spyr Klein, er þá ef til vill ekki hægt að vera umhverfissinni nema með því að eiga barn – vera ekki eigingjarn? En hvað með hina sem geta ekki eignast barn? Þá tekur bara darwinisminn við segja einhverjir.

Klein gafst upp á tæknilegum lausnum til þess að eignast barn; öll lyfin, allir hormónarnir, allar meðferðirnar og sótthreinsuðu læknastofurnar. Hún var tortrygginn á þá hugmynd að það væri stöðugt hægt að finna hjáleiðir að tengja fram hjá náttúrunni. Að taka lyf er auðveldara en að breyta lífsháttum eða mataræði. Að finna eggjagjafa eða staðgöngumóður er sums staðar auðveldara en að ættleiða barn. Því eldri sem konan verður því oftar er bent á klukkuna. Tik-tak, tik-tak, gæskan.

Þetta er sama viðhorf og sumir virðast tileinka sér þegar kemur að lausnum við umhverfisvanda eða loftslagsbreytingum. Tæknin. Það sé hægt að redda þessu fyrir horn því við erum svo klár. Án þess að breyta neyslu eða hegðunarmynstri okkar á nokkurn hátt. Verkfræðingar og aðrir tæknigúrúar hafa mælt fyrir svokallaðri jarðarmótun. Verkfræðikúnstum til að móta virkni jarðar. Í stuttu máli: að leysa vandamál – sem skapað var af hugviti og vísindabyltingu – með meira hugviti og vísindabyltingu án þess að staldra nokkuð við og hugsa – hvað er vandamálið í grunninn? 

Eða eigum við kannski bara öll að fara út í geim?

Þetta er allt að breytast – hvað svo?

Ef við ætlum að lifa á þessari jörð sem þessi líffvera þurfum við að huga að þessu öllu. Þetta er allt að breytast. Umhverfisáhrif eru að hafa áhrif á frjósemi jarðar. Það er víða rof í hringrásinni. Gríðarlegur samdráttur hefur orðið á fæðingum og minni lífslíkur hreindýra á Vestur-Grænlandi. Plönturnar sem eru aðal fæðuuppistaða þeirra vaxa núna öðruvísi. Ostrur við vesturströnd Bandaríkjanna geta ekki fjölgað sér því ungviðin drepast í súrnandi hafinu. Kórallar geta ekki myndað rif af sömu ástæðu. Og svo framvegis. Svona höfum við áhrif. Svona lítur hnignunin út. Við sjáum þetta ekki með berum augum, finnum það ekki á eigin skinni og þess vegna finnst okkur þetta ekki vandamál. Hjá hverjum hvílir sönnunarbyrðin um að heimurinn sé að breytast?

Á jákvæðari nótum mætti samt hugsa þetta svo að með verndun og aukinni meðvitund og virðingu er mögulegt að finna kjarnann í þeirri hugsun sem gæti komið okkur út úr vítahring nýtingarhyggjunnar. Endurnýjun í stað gjörnýtingar. Hlúa að fremur en að taka.

Auðvitað þurfa allar líffverur að taka frá náttúrunni til þess að lifa en hugmyndir nýtingarhyggjunnar eru að taka án þess að hlúa að, nýta land og fólk án þess að hlúa að. Þetta eru einungis auðlindir sem má tæma að eilífu í stað þess að viðurkenna að þetta eru flókin fyrirbæri, vistkerfi.

Jafnvel hefðbundna, eyðileggjandi starfsemi eins og skógarhögg má stunda af virðingu, rétt eins og hóflega námuvinnslu, sérstaklega þegar aðgerðirnar eru undir stjórn fólksins sem býr þar sem vinnslan fer fram og hefur hagsmuni að gæta í áframhaldandi heilbrigði og framleiðslu landsins. 

Líf án nýtingarhyggju snýst um að reiða okkur meira á auðlindir sem hægt er að endurnýja; stunda matvælarækt sem verndar frjósemi jarðvegarins, framleiða raforku sem nýtir sólina, vindinn og öldurnar. Framleiða málma með endurvinnslu og úr endurnýjanlegri auðlindum.

Héðan í frá þegar við tökum gefum við ekki aðeins til baka heldur hlúum við að. Pælum í þessu og ræðum frjósemi af alvöru.

 

 

Skrifað í Reykjavík, apríl 2017

   [ + ]

1. https://www.theguardian.com/commentisfree/2017/jan/24/photo-trump-womens-rights-protest-reproductive-abortion-developing-contries