„En stjarna myndarinnar, eins og alltaf í myndum Paul Thomas Anderson, er leikstjórinn og handritshöfundurinn sjálfur,“ sagði Dan Webster kollegi minn alveg kaldhæðnislaust um myndina Phantom Thread. Án þess að átta sig á að myndin er fyrst og fremst að henda gaman að þessari skrítnu hugmynd okkar um snillinginn – og það gerir gamanið bara áleitnara að leikstjórinn fær sinn skammt af snillingsdýrkun svo ekki sé minnst á Daniel Day-Lewis, þennan erkisnilling leiklistar okkar daga – sem hefur sagst ætla að kveðja okkur með þessari útsmognu afbyggingu á snilligáfunni.
Hér leikur Day-Lewis fatahönnuðinn Reynolds Woodcock, sem býr í húsi með ótal konum. Húsið er bæði heimili og vinnustofa – og þar vinnur heil herdeild kvenna á hverjum degi við að sauma kjólana sem Woodcock hannar. Verkstjórinn er svo Cyril, systir Woodcock, og í upphafi myndarinnar fær maður á tilfinninguna að hér sé enn verið að yrkja við þrástefið aumingja litli ríki strákurinn (sem varð gamall og óhamingjusamur). En svo villist hann út í sveit og verður ástfanginn. Og þá gjörbreytist myndin. Takturinn breytist (þótt tónlist Jonny Greenwood haldi áfram að vera þreytandi klisjukennd), en mestu skiptir að þá kemur Alma til sögunnar. Hún er leikin af Vicky Krieps og hægt og rólega áttar maður sig á að þótt þetta sé mögulega síðasta myndin hans Day-Lewis þá er þetta í raun myndin hennar Vicky, hún á hana með húð og hári. Þessi lúxemborgska leikkona kemur með meginlandssjarma og einhverja lágmarksmennsku inní steingeldan breskan yfirstéttarheim Woodcock. Fatahönnuðurinn reynist svo auðvitað vitavonlaus kærasti – en það reynist ekki jafn auðvelt að losa sig við Ölmu og fyrrum músur hans.
Þetta er nefnilega sannarlega saga um snilling og músurnar hans – allar músurnar, ekki bara Ölmu sem veitir honum innblástur heldur systurina sem heldur öllu gangandi og verkakonurnar sem sauma blessaða kjólana. Woodcock sjáum við helst teikna skissur í stílabókina sína og einstaka sinnum handleika klæðin sem hann hannar, en oftast sjáum við hann pirra sig á því að rútína hans – og þar með snilligáfa – sé trufluð, Kona að smyrja brauð of hátt eða hella vatni of áberandi þegar hann þarf að einbeita sér að vinnunni eru hvoru tveggja dæmi um það. Svo ekki sé minnst á ef þær vilja tala um eitthvað óþægilegt á óheppilegum tíma.
Það er vissulega sannleikskorn í því að flest þurfum við ákveðnar aðstæður til þess að blómstra, til þess að gera okkar bestu verk. Og mögulega er sú staðreynd að Woodcock lifir við akkúrat þessar aðstæður – er mögulega skapaðar þær í gegnum ætterni, við vitum það aldrei alveg – sem gerir það að verkum að hann er snillingurinn en þær vinnukonurnar. Ein besta sena myndarinnar er þegar Woodcock veikist og skemmir óvart brúðkaupskjól belgískrar prinsessu – og auðvitað eru það konurnar sem vinna baki brotnu alla nóttina við að bæta skaðann á meðan hann liggur hjálparlaus í fleti sínu.
Það er raunar með herkjum að ég muni aðrar karlpersónur en Woodcock – hann er umkringdur konum allan liðlangan daginn. En er þetta þá femínísk mynd? Kannski. Woodcock kæmist ekki af án kvennana í lífinu (og móðurinnar látnu í hálf ódýrum Freudisma) en það virðast fáar leiðir opnar fyrir þær til þess að verða sjálfar snillingar í þessari veröld. Hér eru það hins vegar ekki fötin sem skapa manninn, heldur konurnar. Bæði með því að sauma fötin sem gera hann að snillingi – en ekki síður Vicky, sem snýr uppá erfiðan persónuleika Woodcock með bæði þrautseigju sem og ansi vafasömum meðölum, sem þökk sé kvenlegu innsæi (eða ótrúverðugu handriti) gera snillinginn loksins að betri manni.
Eitt skal þó sagt að lokum: þetta er alls ekki besta verk hvorki Anderson né Day-Lewis. Myndin er aðeins of bresk og stirð og óviss um hvort hún vilji vera gamanmynd eða drama – sem er bæði kostur og galli í þessu tilfelli. Svo er erfitt að átta sig á hvaða flippi Jonny Greenwood er á, Radiohead frumkvöðullinn sem gerði einhverja eftirminnilegastu kvikmyndatónlist aldarinnar í There Will Be Blood býður hér upp á einhverja lélega skopstælingu á búningadramatónlist (en er blessunarlega kominn aftur í gamla formið í þeirri mögnuðu mynd You Were Never Really Here). Day-Lewis fer þetta svo á sjarmanum (sem er vissulega nægur til að lýsa upp nokkur íbúðahverfi) – og mögulega er það ástæðan fyrir því að hann er að hætta, hann finnur að hann er farinn að krúsa þetta á sjarmanum. Og þessi sjarmi er mögulega veikleiki myndarinnar – afbyggingin á snilligáfunni hefði mögulega virkað betur ef meiri fauskur hefði verið fenginn í hlutverkið. Vegna þess að hann gerir þennan óviðkunnanlega mann óþarflega sjarmerandi.
En auðvitað vonast maður til þess að hann svíki loforðið, enda er snillingsstimpillinn fyllilega verðskuldaður – My Left Foot, In the Name of the Father, Gangs of New York, There Will Be Blood og Lincoln eru allt saman leikafrek sem erfitt er að hafa nógu sterk lýsingarorð um. En ef hann hættir í alvörunni þá er hann mögulega að afhenda kyndilinn til næstu kynslóðar, til músunnar Ölmu, sálarinnar sjálfrar.
Eða kannski bara til alls nafnlausa fólksins bak við tjöldin. Draugaþráðurinn sem titillinn vísar í mun hafa verið sá algengi vani viktoríanskra saumakvenna að halda áfram að sauma ósýnilegum þráðum löngu eftir að vinnu lauk. Draugaþráðurinn er þráðurinn sem tengir saman alla þá sem þræla myrkrana á milli, þannig að þær dreymir vinnuna, dreymir annarra manna drauma, sem þær láta svo rætast á daginn. Draugaþráðurinn sem tengir búningahönnuði, skriftur, aðstoðarmenn og statista kvikmyndanna – alla þá sem á hverjum degi afsanna kjánalegar auteur kenningar um snillingana á bak við myndavélina.
E.S.: Loks er svo rétt að bæta við þessum fáheyrðu tíðindum: þrátt fyrir fyrir sex óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir bestu mynd, og þrátt fyrir að þetta sé mögulega síðasta bíómynd virtasta leikara okkar daga, þá virðist sem myndin muni ekki koma í íslensk bíó nema á tvær sér-sýningar. Ég veit að bíóhúsin eru tilbúin með einhverjar hagfræðilegar afsakanir á þessu – en þetta er því miður bara staðfesting á viðvarandi kúltúrleysi og plebbisma þeirra sem ráða yfir stærstu kvikmyndakeðjum landsins.