Allt sama lagið

I’m singing a borrowed tune, that I took from The Rolling Stones söng Neil Young draugfullur á plötunni Tonight’s The Night. Lagið sem hann tók ófrjálsri hendi var lagið Lady Jane af plötunni Aftermath. Stónsararnir hafa aldrei sagt neitt um stuldinn og Neil sjálfur hefur ekki látið neitt uppi um af hverju hann gerði þetta nema það sem kemur fram í laginu sjálfu. Hann var of vímaður til þess að semja sitt eigið.

Bob Dylan hefur ekki heldur verið latur við að taka það sem hann vill frá öðrum listamönnum og tónlistarsögunni, t.d. er lag hans Girl From The North Country tekið úr þjóðlaginu Scarborough Fair. Því hefur verið haldið fram að Johnny Marr úr The Smiths hafi stolið næstum hverju einasta Smiths lagi. Þannig á Panic mikla skuld að gjalda Metal Guru með T-Rex og Rusholme Ruffians (Mary’s The Name) His Latest Flame sem þeir leyfðu sér að flagga á tónleikum.

 

Svona gæti ég haldi endalaust áfram og talið upp tilfelli þar sem listamenn hafa stolið hver frá öðrum en slíkt væri að æra óstöðugan. Hreinn og klár þjófnaður á hugmyndum annarra hefur alltaf verið hluti af tónlist sem og annari listsköpun. Tónskáld klassíska tímans kepptust við að stela melódíum annarra, oft var það til að heiðra stundum var það til að stríða og sína fram á að þeir gætu gert ákveðinni hugmynd betri skil. Það eru líka til fræg ummæli nafntogaðra listamanna nútímans þar sem þeir tala um þjófnað sinn á hugmyndum annarra til að skapa sín eigin verk. Picasso á að hafa sagt eitthvað í þá áttina að góðir listamenn fái lánað en snillingar steli, seinna endurtók Paul McCartney ummælin. David Bowie sagði í viðtali við bandarísku sjónvarpskonuna Dinah Shore að hann stæli öllu steini léttara til að skapa sína tónlist.

Þessi vinnubrögð eru flestum sem stunda listsköpun vel kunn. Enda hlæja listamenn oft þegar þeir heyra að einhver lagahöfundur sé að stefna öðrum fyrir stuld. Það satt best að segja nokkuð hallærislegt. Það var hinsvegar fáum skemmt þegar fjölskylda Marvin, heitins, Gaye stefndi Robin Thicke, Pharrel og T.I. fyrir Blurred Lines þar sem þeir stálu stemmingunni í laginu frá Gaye heitnum. Því síður var mönnum skemmt þegar fjölskyldan vann málið. Enda eru slík málalok slæm fyrir framþróun listarinnar. Menn önduðu léttara þegar Jimmy Page vann málaferlin um Stairway To Heaven. Var þar um að ræða hljómagang sem er gegnum gangandi í allri tónlistarsögunni.

Og þá kemur að nýlegum fréttum um það að Jóhann Helgason sé að undirbúa lögsókn gegn Rolf Lovland fyrir að hafa stolið lagi sínu Söknuði til að setja saman lagið You Raise Me Up sem varð svo frægt í flutningi stórstjörnunnar Josh Groban. Lovland hefur víst dvalið oft og lengi á Íslandi og verið færð kassetta með laginu, ásamt öðrum, af Pétri Kristjánssyni er hann og Lovland kynntust í tengslum við Eurovisionkeppnina forðum daga. Þannig að það má leiða sterkum líkum að því að Rolf hafi heyrt Söknuð.

Söknuður er, eins og allir vita eitt ástkærasta lag Íslandssögunnar og er nema von að fólk reki í rogastans við það einhver útlendingur steli því og úr verði einhver mesti megasmellur allra tíma. Þessi samanburður á You Raise Me Up og Söknuði hefur verið uppi nokkuð lengi og var borið upp á Groban sjálfan í viðtali við fréttastofu RÚV sem viðurkenndi strax líkindin milli laganna tveggja en benti jafnframt á að bæði væru nú lík Danny Boy. Danny Boy, sem slíkt, var sett saman árið 1913, af breska lagahöfundinum og lögfræðinginum Frederic Weatherly. Hann samdi textann og smellti honum ofan á írska þjóðlagið Londonderry Air. Þegar lagið kom fyrst út með hljómsveit Lovlands, Secret Garden, sá norska ríkisútvarpið sér ástæðu til að hafa orð á líkindum lagsins við Danny Boy og birti grein þess efnis 14. febrúar árið 2002. Ég má líka til með að nefna, þó það hafi sjálfsagt minna vægi, að þegar eiginkona mín, sem er bandarísk, heyrði Söknuð í fyrsta sinn hafði hún orð á því að henni fannst það líkt Danny Boy. Ég þekkti Danny Boy ekki þá og pældi lítið í því. Var kannski örlítið móðgaður fyrir hönd Jóhanns Helgasonar.

 

Nú ætla ég mér nú ekki það að þykjast vita hvað fór fram í hugarheimi þeirra Jóhanns og Rolfs þegar þeir sömdu þessi lög sín. Það vita þeir einir. En þetta eru keimlík lög og þau eru bæði keimlík Londonderry Air. Lag Jóhanns er betur unnið, á því er varla nokkur vafi. En vissi Jóhann hvað hann var að gera þegar hann samdi það? Hafði hann heyrt Danny Boy þegar hann samdi það? Eða er þetta einskær tilviljun? Mér fannst þá spurningu vanta þegar íslenskir fjölmiðlar ræddu við hann um málið um daginn. Enda fullkomlega eðlileg spurning í þessari deilu. Nú er upprunaleg útgáfa Secret Garden á You Raise Me Up jafnvel líkari Söknuði en Groban útgáfan.

Heyrði Lovland Söknuð og hugsaði með sér að þarna væri flott endurvinnsla á Danny Boy og kannski hann gæti gert eitthvað svipað seinna? Ég veit það ekki en það sjálfsagt ekkert ólíklegra en margt annað. Nú hefur Jóhann Helgason tekið sig til og unnið útgáfu á Söknuði á ensku sem svipar mikið til útsetningar Grobans og sleppir þar B kaflanum þar sem um hann er ekki deilt.

Það er sem sagt aðeins A hluti lagsins sem deilt er um. Ef hlustað er á You Raise Me Up og það borið saman við Danny Boy heyrist vel að bæði A og B kaflar laganna eru keimlíkir. Það þykir mér renna en frekari stoðum undir það að Lovland hafi haft Danny Boy í huga, ekki Söknuð, þegar hann samdi You Raise Me Up.

Eins og ég hef áður minnst á fannst mér dómur í máli fjölskyldu Marvins Gaye gegn Robin Thicke og félögum vera slæmur fyrir framþróun listarinnar. Það sama finnst mér eiga við ef Jóhann vinnur þetta mál sitt gegn Lovland. Þ.e.a.s. ef það kemur nokkurn tímann til þess að það verði sótt. Ef hann ynni það væri í raun búið að gefa honum eignarhald á A kafla írska þjóðlagsins Londonderry Air. Það hlýtur hver sem er að geta séð að það eitt og sér væri fáránlegt. Eftir slíkan dóm þyrfti hver sá sem hefði hug á því að vinna nýtt lag úr Scarborough Fair að velta því fyrir sér hvort Dylan og hans teymi kæmi á eftir sér.

Jóhann Helgason er einn af bestu lagasmiðum sem Ísland hefur alið af sér og hann komst nokkuð nálægt því að ná heimsfrægð á sínum tíma. Hann hefur margt til að vera stoltur af á sínum langa ferli. En mér finnst að hann ætti að falla frá þessu máli. Listamenn hafa alltaf gert þetta, hvort sem við köllum það stuld eða lán. Þetta er hluti af sköpunarferlinu. Og þegar allt kemur til alls þá eru virðast bæði lög unnin úr öðru lagi og þá skiptir engu máli hvort Jóhann ætlaði sér það eða ekki. Ég ætla svo að enda þennan pistil eins og ég hóf hann með því að vitna í Neil Young: It’s all one song.